Mallory Martin hefur samið við UFC og berst sinn fyrsta bardaga þar í desember. Íslendingar kannast eflaust við hana þar sem Sunna Rannveig sigraði hana árið 2017.
Mallory Martin (6-2) mætir Virna Jandiroba (14-1) á UFC on ESPN 7 þann 7. desember. Martin kemur inn í stað Courtney Casey sem meiddist.
Mallory Martin hefur unnið sex bardaga í röð en þar á meðal eru sigrar í Invicta, LFA og Dana White’s Contender Series. Martin er með tvö töp en fyrra tapið var gegn Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur í Invicta í mars 2017.
Sá bardagi var jafn og harður en Sunna sigraði eftir klofna dómaraákvörðun. Bardaginn var valinn besti bardagi kvöldsins en þetta var annar bardagi Sunnu í Invicta.
Martin tapaði næsta bardaga gegn Maycee Barber sem nú er ein af þeim efnilegustu í UFC í dag. Martin er ósigruð síðan þá og verður spennandi að sjá hvað hún gerir í UFC.