Global Fight League (GFL) hefur kynnt sinn fyrsta viðburð og er af nægu að taka enda GFL með marga af gömlu stórstjörnum UFC á sínum snærum. GFL kynnti á X fyrsta staðfesta bardaga samtakanna en það er viðureign milli Chris Weidman og Luke Rockhold en þeir hafa mæst áður árið 2015 þar sem Rockhold sigraði með tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu og tók millivigtartitil UFC af Weidman sem hafði verið millivigtarmeistari UFC frá 2013. Það er vel hægt að markaðssetja þennan bardaga en báðir menn eru vinsælir í greininni og voru eitt sinn með þeim bestu í heimi.
Báðir bardagamenn eru fertugir og nokkuð frá sínu besta en það er ekki óþekkt að bardagamenn berjist fram yfir fertugt og má í því samhengi nefna að Randy Couture vann þungavigtartitil UFC 43 ára og einnig má nefna að Glover Teixeira vann léttþungavigtartitil UFC 42 ára. Rockhold sagði skilið við UFC eftir bardaga við Paulo Costa árið 2022 sem Costa sigraði með einróma dómaraákvörðun. Rockhold hefur frá þeim tíma sigrað einn bardaga í Karate Combat og tapað einum bardaga í BKFC gegn Mike Perry sem hefur notið endurnýjunar lífdaga eftir að hann færði sig frá blönduðum bardagalistum yfir í hefaleika án hanska. Weidman barðist síðast á UFC 310 þar sem hann tapaði fyrir Eryk Anders en Weidman fótbrotnaði illa árið 2021 og hefur ekki náð sér á strik frá þeim tíma.
Annar bardagi sem GFL hefur nú kynnt til leiks er bardagi milli Yoel Romero og Mauricio Rua. Romero hefur átt nokkurri velgengni að fagna frá því að hann yfirgaf UFC árið 2020 en hann sigraði nokkra bardaga í Bellator/PFL og barðist síðast í Dirty Boxing í fyrra þar sem hann sigraði með rothöggi í fyrstu lotu. Rua keppti síðast í UFC árið 2023 þar sem hann tapaði með tæknilegu rothöggi. Rua hefur notið mikillar velgengni í blönduðum bardagalistum en hann var léttþungavigtarmeistari UFC frá 2010 til 2011 en þrátt fyrir að Rua (43) sé ekki mjög gamall þá man hann fífil sinn fegurri og var langt frá sínu besta undir það síðasta hjá UFC.
Romero er orðinn 47 ára gamall, kom seint inn í UFC en hann barðist sinn fyrsta bardaga árið 2013 en hann var þá 35 ára og á tímabilum hefur hann litið út fyrir að yngjast milli ára. Þrátt fyrir að Romero sé talsvert eldri en Rua hefur Romero litið betur út á seinni árum en hér á árum áður þótti Rua vera einn besti bardagamaður á jörðinni.