Goðsögnin Georges St. Pierre sagði fyrr í kvöld að hann hefði rift samningi sínum við UFC. St. Pierre er því laus allra mála við UFC.
Georges St. Pierre (GSP) hefur viljað snúa aftur í MMA undanfarna mánuði eftir að hafa lagt hanskana á hilluna í nóvember 2013. Samningaviðræður við UFC hafa gengið erfiðlega og nú segist GSP hafa rift samningi sínum við UFC.
„Þú heyrðir rétt, ég er samningslaus,“ sagði GSP við Ariel Helwani í The MMA Hour fyrr í kvöld.
GSP sagði að lögfræðingur sinn hefði rift samningi sínum við UFC. GSP vildi fá bardaga í UFC og setti eindaga á samningstilboð frá bardagasamtökunum en tilboðið fékk hann aldrei. GSP sagðist hafa verið á samningi sem undirritaður var 2011 og hafði átt í viðræðum um nýjan samning.
Viðræðurnar sigldu hins vegar í strand þegar UFC var selt til WME-IMG fyrr í sumar. WME-IMG settu viðræðurnar á ís eftir að GSP hafði áður fengið tilboð frá Lorenzo Fertitta, fyrrum eigenda UFC.
„Það var áfall. Mér fannst okkur vera að miða áfram, þetta var alveg að koma. Ég var reiður þegar ég frétti þetta.“
GSP veit ekki hvað mun taka við en ætti að geta hafið viðræður við önnur bardagasamtök á borð við Bellator. Hann vill þó aðeins draga sig úr sviðsljósinu eftir erfiðar samningaviðræður síðustu mánuði.
GSP var lengi vel andlit og stærsta nafn UFC og er einn sigursælasti bardagamaður allra tíma. Hann naut mikillar velgengni í UFC og var veltivigtarmeistari UFC í mörg ár. GSP hætti árið 2013 sem meistari en hafði ekki útilokað endurkomu.
GSP er 35 ára gamall og segist vera betri en nokkru sinni fyrr. GSP fékk þau skilaboð frá UFC að fjárhagsleg áhætta væri of mikil til þess að semja aftur við hann. GSP er á því að hann hefði auðveldlega getað selt upp UFC 206 sem fer fram í Kanada í desember.
Á meðan samningaviðræðunum stóðu hélt Dana White, forseti UFC, því fram að GSP hefði ekki raunverulegan áhuga á því að berjast. GSP skaut það sífellt niður og vill ólmur berjast aftur.
UFC hefur þó ekkert tjáð sig um málið í kvöld en hugsanlega mun málið fara fyrir dómstóla.