0

Georges St. Pierre skrifar undir nýjan samning við UFC (staðfest)

Georges St. Pierre hefur loksins skrifað undir nýjan samning við UFC eftir langar samningaviðræður. Hann getur því snúið aftur í búrið eftir meira en þriggja ára fjarveru.

Þetta var staðfest af MMA Fighting en Geoges St. Pierre (GSP) á að hafa skrifað undir samninginn í gær (föstudag). GSP er orðinn 35 ára gamall og hefur ekki barist síðan í nóvember 2013 þegar hann varði veltivigtartitilinn gegn Johny Hendricks. Hann tilkynnti eftir bardagann að hann ætlaði að draga sig í hlé og gefa titilinn frá sér. Hann lagði aldrei opinberlega hanskana á hilluna en snýr nú aftur.

St. Pierre tilkynnti um endurkomu sína í júní 2016 í þætti Ariel Helwani, The MMA Hour, en samningaviðræður við UFC hafa gengið hægt og illa fyrir sig. Á einum tímapunkti lýsti St. Pierre því yfir að hann væri samningslaus og ekki bundinn UFC.

Líklegt þykir að St. Pierre muni stíga inn í búrið á þriðja fjórðungi ársins (júlí – september) en það verður að koma í ljós hver andstæðingur hans verður. Háværir orðrómar hafa verið uppi um bardaga gegn millivigtarmeistaranum Michael Bisping en einnig hafa nöfn veltivigtarmeistarans Tyron Woodley, Nick Diaz og Anderson Silva verið nefnd til sögunnar.

Arnþór Daði Guðmundsson

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.