Líkt og alla föstudaga förum við yfir þekktar goðsagnir í MMA heiminum. Í dag setjum við ‘The Prodigy’, BJ Penn undir smásjána.
BJ Penn er eitt þekktasta nafnið í sögu MMA frá upphafi og einn af allra stærstu frumkvöðlunum í íþróttinni. Penn er talinn vera með fyrstu keppendum í blönduðum bardagalistum sem var hættulegur á öllum vígstöðum bardagans. Þá er hann af flestum talinn vera besti léttvigtarkappi í sögu UFC.
Upphafið
BJ Penn fæddist Jay Dee Penn á Hilo, Hawaii árið 1978. ‘Baby Jay’ gælunafnið fékk hann því hann er yngstur þriggja bræðra sem allir heita Jay Dee Penn (sá fjórði heitir síðan Reagan af einhverri ástæðu).
17 ára gamall kynntist hann brasilísku jiu-jitsu (BJJ) í gegnum nágranna sinn sem var að reyna að stofna BJJ klúbb á Hawaii. Fjölskylda Penn var auðug og hann var ekki á því að fá sér venjulega vinnu; helst vildi hann slæpast með vinum sínum um eyjuna, boxa við félaga sína í garðinum eða stunda brimbretti. Faðir hans gaf honum þann afarkost að annað hvort myndi hann fá sér venjulega vinnu eða fara á fullt að æfa jiu-jitsu. Penn. valdi sem betur fer seinni kostinn, en gerði sér grein fyrir að hann þyrfti leiðsögn frá hæfari kennara. Hann fluttist því til San Jose til að æfa með Ralph Gracie sem var gífurlega fær kennari en sömuleiðis kröfuharður. BJ Penn og Dave Camarillo voru báðir blábeltingar undir Ralph Gracie á sama tíma. Þeir félagar hafa ekki verið neitt venjulegir blábeltingar og var Ralph vanur að láta þá „taka á móti“ svartbeltingum sem komu í heimsókn.
Eftir þrjú ár hjá Ralph, fluttist Penn til Brasilíu þar sem hann hóf æfingar hjá Nova União þar sem hann fékk að lokum svarta beltið eftir að hafa aðeins æft Jiu Jitsu í fjögur ár. Ralph Gracie vildi meina að Penn hefði svikið sig með því að skipta um klúbb og fyrirgaf honum aldrei almennilega eftir þetta.
Árið 2000, skömmu eftir að hafa fengið svarta beltið frá Andre Pederneiras (sem þjálfar meðal annars José Aldo í dag), keppti Penn í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu í BJJ. Penn gerði sér lítið fyrir og sigraði mótið og varð þar með fyrsti aðilinn sem var ekki fæddur í Brasilíu til að vera heimsmeistari svartbeltinga. Gælunafnið hans ‘The Prodigy’, eða Undrabarnið, vísar einmitt til þess hve skamman tíma það tók fyrir Penn að ná árangri í íþróttinni.
Glæsilegur árangur Penn í BJJ vakti athygli UFC og nýlegir eigendur samtakanna, Fertitta bræður og Dana White, sannfærðu hann um að blandaðar bardagalistir væru framtíðin. Penn keppti sinn fyrsta MMA bardaga árið 2001 á UFC 31 þegar hann mætti Joey Gilbert. Penn sigraði örugglega eftir tæknilegt rothögg í fyrstu lotu og goðsagnarkenndur ferill Penn í MMA var hafinn.
Einkenni
Penn er af mörgum talinn einn fyrsti bardagakappinn til að vera sterkur alls staðar. Hann var í heimsklassa í gólfinu en fyrstu þrír sigrar hans komu engu að síður eftir rothögg í fyrstu lotu. Penn æfði box sem unglingur og boxgúrúinn Freddie Roach, sem hefur þjálfað menn eins og Manny Pacquiao, lét hafa eftir sér að BJ Penn væri besti boxarinn í MMA.
Hann var einnig með einhverja bestu felluvörn í sögu MMA og var nánast ógjörningur fyrir andstæðinga hans að ná honum í gólfið en aðeins Matt Hughes og Georges St. Pierre tókst að gera það (þegar BJ var upp á sitt bestsa). Auk þess var hann gífurlega liðugur og töluðu menn um að fæturnir á honum væru svo liðugir að þeir væru eins og tvær auka hendur.
Stærstu sigrar
Stærstu sigrar Penn eru hiklaust sigrarnir hans tveir gegn annarri goðsögn, Matt Hughes. Þegar Penn sigraði Hughes hafði sá síðarnefndi varið titil sinn fimm sinnum á meðan Penn var að færa sig upp upp úr léttvigtinni. Auk þess töldu menn að sterkir glímuhæfileikar Hughes myndu sjá til þess að Penn fengi ekki tækifæri til að sýna listir sínar í gólfinu. Penn gerði sér þó lítið fyrir og náði Hughes í gólfið og hengdi hann í fyrstu lotu.
Aðrar sterkar frammistöður voru gegn Joe Stevenson, Kenny Florian og Diego Sanchez. Sanchez var með bardagaskorið 22-2 þegar hann mætti Penn og hafði sigrað fjóra bardaga í röð. Í bardaganum gegn Penn hitti hann aðeins í 8 af 108 höggum og var gjörsigraður. Allir MMA áhugamenn ættu að horfa á þann bardaga og sjá Penn uppá sitt besta.
Fáir vita
Gunnar Nelson æfði með BJ Penn í þrjá mánuði sumarið 2008. Þá var Gunnar 19 ára fjólublábeltingur með mikla hæfileika. Hér má finna skemmtilega lesningu úr bókinni The Cauliflower Chronicles: A Grappler’s Tale of Self-Discovery and Island Living þar sem höfundur talar um Gunnar á þeim tíma.
Penn keppti stóran hluta ferilsins í veltivigt þó flestir telji léttvigtina vera hans nátturulegi þyngdarflokkur. Hann keppti við Lyoto Machida í Japan, þar sem Penn var 192 pund (87 kg) en Machida 205 pund (92 kg). Skömmu síðar heimtaði Penn að fá að keppa við UFC þungavigtarmeistarann Tim Sylvia en varð ekki að ósk sinni.
Hvar er hann í dag
Eftir slakar frammistöður gegn Nick Diaz, Rory MacDonald og Frankie Edgar ákvað Penn loks að leggja hanskana á hilluna. Í dag virðist hann gera mest lítið annað en að hafa það náðugt í heimabæ sínum Hilo.