spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Brock Lesnar

Goðsögnin: Brock Lesnar

brock lesnarFyrsta Goðsögn ársins hjá okkur er tröllið Brock Lesnar. Ferill hans í MMA var stuttur en engu að síður afar áhugaverður.

Það eru eflaust ekki allir sammála um að Brock Lesnar sé goðsögn í MMA heiminum. Hann var þó einn vinsælasti bardagamaðurinn í sögu UFC með tilliti til „Pay per view“ (PPV) kaupa og varð þungavigtarmeistari UFC í sínum fjórða MMA bardaga.

brock lesnar baby
„Pork chops“

Upphafið

Brock Lesnar fæddist þann 12. júlí 1977 í Suður-Dakóta fylki í Bandaríkjunum. Hann ólst upp á mjólkurbýli foreldra sinna þar sem hann sinnti störfum býlisins kvölds og morgna með skólanum. Lesnar var einstaklega þykkt barn og var hann stundum kallaður „Pork chops“ í fjölskyldunni á sínum fyrstu árum. Lesnar varð þó fljótt afar hávaxinn (er 191 cm á hæð í dag) en var afskaplega grannur á unglingsárum. Á menntaskólaárum sínum varð hann að því vöðvatrölli sem við þekkjum í dag.

Lesnar æfði bæði amerískan ruðning og ólympíska glímu á skólaárum sínum og var framúrskarandi glímumaður. Lesnar keppti í efstu deild bandarísku háskólaglímunnar og varð landsmeistari á lokaári sínu.

Eftir skólann fór hann í fjölbragðaglímuna og þar varð hann sú risastjarna sem hann er í dag. Eftir nokkur góð ár í WWE reyndi Lesnar fyrir sér í NFL. Hann æfði með Minnesota Vikings en komst ekki í hópinn fyrir tímabilið 2004-2005. Hann snéri sér aftur í fjölbragðaglímuna en fljótlega leitaði hugur hans í MMA.

Eftir sigur í sínum fyrsta MMA bardaga eftir aðeins 69 sekúndur fékk hann samning við UFC.

brock lesnarEinkenni

Það er ekki erfitt að lýsa Brock Lesnar. Hann var tröll af manni og notaði glímuna sína til að keyra andstæðinga sína í gólfið þar sem hann lét höggin dynja á þeim. Hann var aldrei góður standandi en glíman kom honum ansi langt.

Stærstu sigrar

Stærsti sigur hans er sigurinn á Frank Mir á UFC 100. Þetta var fyrsta titilvörn Lesnar og aðalbardaginn á UFC 100. Lesnar hafði árið áður tapað fyrir Mir og hafði því harma að hefna þetta kvöld. Lesnar gerði það sem hann gerir best, keyrði Mir niður í gólfið og lét höggin dynja á honum þar til dómarinn hafði séð nóg. UFC 100 er stærsta bardagakvöld í sögu UFC með tilliti til „Pay per view“ (PPV) kaupa. UFC seldi 1,6 milljón PPV þetta kvöld sem er það mesta í sögu UFC.

Eftir sigurinn veitti Lesnar líka þetta eftirminnilega viðtal.

https://www.youtube.com/watch?v=dPDQP1xX96A

Lesnar varði þungavigtarbeltið sitt tvisvar en enginn hefur varið beltið oftar (nokkrir hafa varið beltið tvisvar en enginn oftar).

Verstu töp

Versta tap Brock Lesnar er tapið gegn Cain Velasquez. Cain Velasquez var mun minni en Lesnar en talsvert betri tæknilega og hraðari. Velasquez valtaði yfir Lesnar og kláraði hann með yfirburðum í 1. lotu. Lesnar leit illa út í þeim bardaga og kom bersýnilega þarna í ljós hversu takmarkaður Lesnar var standandi.

Þá var tapið gegn Frank Mir ekkert sérstakt fyrir Lesnar en það var hans fyrsta tap á ferlinum. Lesnar hafði mikla yfirburði gegn Mir þangað til hann lenti í „kneebar“ og neyddist til þess að gefast upp. Þetta var frumraun hans í UFC og olli töluverðum vonbrigðum þrátt fyrir góða byrjun.

brock lesnar

Fáir vita

Húðflúr Brock Lesnar á bringunni hefur oft verið milli tannanna hjá fólki. Hann er með stórt sverð á bringunni sem hann fékk sér árið 2005 eftir streitufullt tímabil. „Mér leið eins og lífið héldi sverði að hálsinum mínum. Ég fékk mér þetta húðflúr svo ég myndi aldrei gleyma þessari tilfinningu. Þetta er minning sem er mér mikil hvatning,“ sagði Lesnar um húðflúrið í ævisögu sinni.

Brock Lesnar er sá eini sem hefur unnið titil í bandarísku háskólaglímunni (NCAA), UFC-titil og WWE-titil.

Brock Lesnar hélt þungavigtarbeltinu í 707 daga sem er næst lengsta meistaratign í sögu þungavigtarinnar. Lesnar var þó mikið veikur á þessum tíma og gat því ekki varið beltið sitt eins oft og hann vildi.

Allir bardagar Brock Lesnar í UFC seldu yfir milljón PPV. PPV sölur hans í WWE voru einnig umfangsmiklar sem gerir hann líklegast að næst stærstu PPV stjörnu allra tíma á eftir Floyd Mayweather.

Hvar er hann í dag?

Brock Lesnar ákvað að segja skilið við MMA eftir veikindi. Lesnar glímdi við meltingarsjúkdóm sem hélt honum lengi frá keppni. Eftir að hafa lagt hanskana á hilluna hélt hann aftur í fjölbragðaglímuna þar sem hann er enn í dag. Lesnar hafði mikil áhrif á MMA þann stutta tíma sem hann var í íþróttinni.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular