spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Chuck Liddell

Goðsögnin: Chuck Liddell

Nýji föstudagsliðurinn okkar kallast Goðsögnin. Á hverjum föstudegi munum við fara yfir feril goðsagna í MMA en í dag setjum við Chuck Liddell undir smásjána.

Chuck Liddell (21-8-0) er ein stærsta stjarna UFC frá upphafi. Án hans hefði UFC kannski ekki lifað af þessi erfiðu uppvaxtarár þar sem litríkar persónur, sem einnig voru afburða bardagamenn, voru gulls ígildi. Chuck Liddell gaf fólki akkúrat það sem það vildi – rothögg. Hann var einn af þessum örfáu sem gat stoppað glímuskrímslin og rotað þau með einu höggi. Svo fagnaði hann af svo mikilli innlifun að æstir áhorfendur öskruðu af gleði.

chuck-liddell

Uppruni

Charles David Liddell fæddist árið 1969 í Kaliforníu en á rætur að rekja til Írlands. Einstæð móðir hans og afi ólu hann og systkini hans upp. Afi hans hafði mikil áhrif á hann en hann kenndi honum undirstöður í hnefaleikum mjög snemma. Þegar hann var tólf ára fór hann að æfa karate. Síðar æfði hann amerískan ruðning og ólympíska glíma þar sem hann keppti í efstu deild í háskólaglímunni. Árið 1998 fór Liddell að berjast sem atvinnumaður í MMA. Hann barðist sinn fyrsta bardaga á UFC 17 en þá var ekki aftur snúið.

Einkenni

Bardagastíll Chuck Liddell er mjög sérstakur og einkennandi. Hann er með bakgrunn í Karate en einnig ólympískri glímu. Liddell var einn af þeim fyrstu sem notaði glímuna öfugt, þ.e. til þess fyrst og fremst að halda bardaganum standandi. Hægri handar sveiflan sem virkar eins og sleggja er hans aðalsmerki. Útlitslega má þekkja Chuck Liddell langar leiðir á stuttum hanakambi með asísku húðflúri á vinstri kantinum. Chuck Liddell virðist fljótt á litið vera harður villimaður en þegar kafað er dýpra kemur í ljós mikið ljúfmenni. Þrátt fyrir að vera mikill keppnismaður með drápseðli og þekktur rotari gefur blíður talsmáti og rólegt fas utan búrsins aðra mynd af þriggja barna föður og íþróttamanni.

Chuck_and_Wand
Chuck Liddell og Wanderlai Silva mættust loksins á UFC 79

Stærstu sigrar

Chuck Liddell var í mörgum stórum bardögum en hann barðist 16 sinnum í UFC. Hann vakti fyrst athygli þegar hann rotaði Kevin Randleman á UFC 31. Sigur hans gegn Guy Mezger í Pride 14 var líka mjög stór á sínum tíma. Sigur hans gegn Vitor Belfort á UFC 37,5 (lítið millikvöld) var einnig mjög mikilvægur. Liddell tók síðar þátt í hinu virta Pride Grand Pix móti árið 2003 og sigraði þar sjálfan Alistair Overeem í fyrstu umferð.

Allra stærstu sigrar Chuck Liddell komu aðeins síðar á ferlinum en þrjú nöfn standa upp úr. Sigrar hans gegn Tito Ortiz, Randy Couture og Wanderlei Silva voru þeir sem eru eftirminnilegastir á hans ferli. Bardagarnir, sem samtals voru sex, voru allir gríðastórir og dramatískir. Af þessum sex bardögum sigraði Chuck Liddell fimm.

Rígur hans við Tito Ortiz var einnig vel þekktur.

chuckko
Chuck Liddell rotar Randy Couture

Verstu töp

Chuck Liddell tapaði fimm af síðustu sex bardögum sínum. Stærstu töpin voru hins vegar fyrr á ferlinum. Árið 2003 mætti hann Randy Couture á UFC 43 í hans fyrsta titilbardaga. Flestir spáðu Chuck Liddell sigri en Randy Couture valtaði yfir hann og kláraði bardagann með höggum á gólfinu í þriðju lotu. Síðar á sama ári í Pride Grand Prix mótinu mætti Chuck Liddell Quinton Jackson sem sigraði á tæknilegu rothöggi. Liddell tapaði svo aftur fyrir ‘Rampage’ árið 2007. Í þeim bardaga var Chuck Liddell meistarinn en var rotaður á innan við tveimur mínútum. Það tap verður að teljast það versta á hans litríka ferli.

Fáir vita

Húðflúrið á höfði Chuck Liddell er á japönsku og þýðir Koei Kan sem er tegund af karate sem Liddell stundaði sem barn. Með húðflúrinu er Liddell að veita þessari listgrein virðingu en hann er 5. gráðu svartbeltingur í greininni. Viðurnefnið „The Iceman“ fékk hann frá þjálfara sínum John Hackleman fyrir sparkbox bardaga. Hann tók eftir hvað Liddell var pollrólegur og sagði að hann væri með ís í æðum. Chuck Liddell er almennt þekktur fyrir mikinn höggþunga en fáir vita að hann er með fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu. Enn færri vita að hann er með B.A. gráðu í viðskiptafræði.

fam
Fjölskyldumaðurinn

Hvar er hann í dag

Eftir erfitt tap á UFC 115 þar sem hann var illa rotaður af Rich Franklin sagði Dana White hingað og ekki lengra. White vildi ekki sjá vin sinn slasast illa í búrinu og bauð honum þægilega vinnu hjá UFC. Hann er titlaður varaforseti viðskiptaþróunar hjá UFC en sennilega þarf hann bara að láta sjá sig á viðburðum og taka myndir af sér með aðdáendum. Fyrir utan það á Liddell þrjú börn með tveimur konum og lifir fjölskyldulífi með eiginkonu sinni Heidi Northcott Liddell. Sjálfsævisaga hans, My Fighting Life, kom út árið 2008 fyrir þá sem vilja fræðast meira um MMA goðsögnina Chuck Liddell. Þið getið líka bara notið þess að horfa á Ísmanninn gera það sem hann gerði best:

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular