spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Gina Carano

Goðsögnin: Gina Carano

gina caranoGoðsögnin þennan föstudag er Gina Carano en hún var á sínum tíma frægasti kvenkyns bardagamaður heims. Í dag gerir hún það gott í Hollywood en lítum aðeins á feril hennar.

Ef ekki hefði verið fyrir Ginu Carano væri kvenna MMA sennilega ekki þar sem það er í dag. Að margra mati opnaði hún dyrnar fyrir konur í MMA og sýndi að þetta væri hægt. Ronda Rousey hefur sagt að hún eigi Carano mikið að þakka í dag.

Upphafið

Gina Carano var mikið í íþróttum á yngri árum. Hún spilaði körfubolta, blak og hafnarbolta áður en hún byrjaði í Muay Thai. Þáverandi kærasti hennar, Kevin Ross, kom henni í íþróttina en hann er atvinnumaður í Muay Thai. Henni gekk vel í Muay Thai og var með bardagaskorið 12-1-1 þegar henni bauðst að taka MMA bardaga. Hún sigraði bardagann og var ekki aftur snúið eftir það.

gina carano

Einkenni

Í búrinu var það bakgrunnur hennar í Muay Thai sem einkenndi sigra hennar. Það sem einkenndi feril hennar er aftur á móti frægðin. Hún var kannski ekki besta bardagakona í heimi og ferill hennar var frekar stuttur en hún varð mjög þekkt á stuttum tíma. Hún var afar vinsæl meðal MMA aðdáenda og eru margir sem vilja sjá hana snúa aftur í búrið. Carano var andlit kvenna MMA áður en Ronda Rousey varð fræg.

Stærstu sigrar

Það er erfitt að tilgreina einhvern einn stóran sigur en ætli sigurinn á Kaitlin Young hafi ekki verið sá stærsti. Bardaginn fór fram á EliteXC: Primetime viðburðinum en á þeim viðburði börðust þeir Kimbo Slice og James Thompson í aðalbardaga kvöldsins. Tæpar fimm milljónir manna horfðu á viðburðinn og sáu Garano sigra Young með tæknilegu rothöggi eftir að læknirinn ákvað að stöðva bardagann eftir 2. lotu

Gina Carano
Mynd: Esther Lin

Verstu töp

Þar sem Carano er aðeins með eitt tap á ferlinum er tapið gegn Cris Justino/Cyborg hennar versta tap á ferlinum. Þetta var eini titilbardaginn hennar á ferlinum og átti hún einfaldlega ekki séns í Justino. Carano var einfaldlega síðri bardagamaðurinn og var þetta síðasti bardaginn hennar á ferlinum.

Fáir vita

Bardagi hennar gegn Cris Justino var sögulegur. Þetta var í fyrsta sinn sem konur börðust í aðalbardaga kvöldsins í stórum bardagasamtökum. Þær Carano og Justino mættust í Strikeforce í ágúst 2009 en bardaginn hlaut mikið áhorf. Á þeim tíma voru þetta bestu áhorfstölur Strikeforce og sýnir hve mikill áhuginn var á Ginu Carano.

Hvar er hún í dag?

Í dag er Carano í Hollywood þar sem hún þarf ekki að vera kýld í alvörunni. Hún hefur leikið í stórum myndum á borð við Haywire og Fast & Furious 6 og þá leikur hún aukahlutverk í stórmyndinni Deadpool sem verður frumsýnd á næsta ári. Carano þykir heldur stirð í tali á hvíta tjaldinu en bætir það upp með stórgóðum leik í bardagaatriðum.

Sagan segir að Dana White hafi reynt að fá Carano aftur í MMA og bauð henni titilbardaga gegn Rondu Rousey í fyrra. Carano á víst að hafa hafnað tilboðinu enda hafi hún of mikið að gera í Hollywood til að geta snúið sér aftur að MMA. Hún er aðeins 33 ára gömul en hefur ekkert barist í sex ár.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular