spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGreg Hardy fær aftur að vera í næststærsta bardaga kvöldsins um helgina

Greg Hardy fær aftur að vera í næststærsta bardaga kvöldsins um helgina

Hinn umdeildi Greg Hardy berst sinn annan bardaga í UFC nú um helgina. Síðasti bardagi sýndi augljóst reynsluleysi en þrátt fyrir það fær hann annað tækifæri sem eitt af stóru nöfnunum.

Greg Hardy mætti Allen Crowder á fyrsta bardagakvöldi UFC á ESPN+ streymisþjónustunni. Þar var hann í næststærsta bardaga kvöldsins (e. co-main event) þrátt fyrir að vera aðeins 3-0 sem atvinnumaður í MMA.

Hardy hafði klárað alla fimm MMA bardaga sína (þrjá atvinnubardaga og tvo áhugamannabardaga) á undir 96 sekúndum þegar kom að bardaganum gegn Crowder. Andstæðingurinn var ekki hátt skrifaður og bjuggust flestir við að Hardy myndi labba í gegnum hann eins og hann hafði gert við fyrri andstæðinga.

Crowder náði þó að lifa af erfiða byrjun og leit Hardy ekkert sérstaklega vel út þegar leið á bardagann. Crowder svaraði fyrir sig og var Hardy orðinn ansi lúinn í 2. lotu. Bardaginn endaði svo með ósköpum þegar Hardy hnjáaði Crowder ólöglega í 2. lotu og var dæmdur úr leik. Hardy gerði stór byrjendamistök og sýndi að hann á ekki heima á svo stóru sviði strax.

Þrátt fyrir þessa martröð fær Hardy annað tækifæri og aftur er hann í næststærsta bardaga kvöldsins. Hardy er meira að segja á plakatinu sem eitt af stóru nöfnunum.

Hardy trekkir að enda umdeildur maður með sína fortíð. Hardy lék á sínum tíma í NFL deildinni en var rekinn eftir að hann var fundinn sekur um heimilisofbeldi. Hardy áfrýjaði og féll málið niður þegar fórnarlambið mætti ekki til að bera vitnisburð í áfrýjuninni.

Í þetta sinn fær Hardy Rússann Dmitry Smolyakov. Smolyakov er 9-2 sem atvinnumaður en bæði töpin komu í UFC. Hann fékk samning við UFC árið 2016 en tapaði tveimur bardögum í röð gegn Luis Henrique og Cyril Asker sem eru tveir af þeim slöppustu í þungavigtinni. Smolyakov var ansi slappur í þessum bardögum sog sýndi ekkert sem benti til að hann ætti heima í UFC. Hann varð fljótt þreyttur, gafst fljótt upp og var látinn fara.

Sigur gegn Evgeniy Bova í janúar sem var þá 8-8 sem atvinnumaður var þó greinilega nóg til að sannfæra UFC um að gefa honum annað tækifæri. Smolyakov átti ekki heima í UFC þegar hann kom fyrst og hefur ekkert gert til að sýna að hann eigi ennþá heima í UFC. Það er því frekar augljóst hvað UFC er að reyna að gera hérna.

Bardagakvöldið á laugardaginn fer fram í Flórída en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Ronaldo ‘Jacare’ Souza og Jack Hermansson.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular