Nýr styrkleikalisti UFC kom út í dag. Þar mátti sjá að Gunnar Nelson fellur niður um eitt sæti eftir tapið gegn Leon Edwards á meðan Bretinn sendur í stað.
Styrkleikalistinn er samansettur af fjölmiðlamönnum víðs vegar um heiminn og kemur nýr listi nokkrum dögum eftir hvern viðburð UFC. Þar raða fjölmiðlamenn 15 bestu áskorendunum á eftir meistaranum í hverjum flokki fyrir sig.
Fyrir helgina var Gunnar Nelson í 13. sæti styrkleikalistans á meðan Edwards var í því 10. Eftir tapið fer Gunnar niður í 14. sæti en Elizeu Zaleski dos Santos tekur sætið hans. Zaleski hefur unnið sjö bardaga í röð í veltivigt UFC og kláraði síðast Curtis Millender.
Það vekur þó athygli að Edwards færist ekkert upp listann með sigrinum og situr því enn í 10. sæti. Demian Maia fer hins vegar niður fyrir Edwards. Hástökkvari listans er þó Jorge Masvidal sem fer upp um sex sæti eftir sigurinn á Darren Till. Till fer síðan niður um fjögur sæti og situr í 7. sæti en fyrir helgina var Till í 3. sæti og Masvidal í 11. sæti.
Dominick Reyes náði góðum sigri um helgina á Volkan Oezdemir og er upp um 3. sæti en hann situr nú í 5. sæti í léttþungavigtinni. Listann má sjá í hér í öllum flokkum.