Gunnar Nelson fer upp í 12. sæti á nýjum styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Gunnar fer upp um tvö sæti á listanum eftir sigurinn á Alex Oliveira um síðustu helgi.
Styrkleikalistinn er samansettur af fjölmiðlamönnum víðs vegar um heiminn og kemur nýr listi nokkrum dögum eftir hvern viðburð UFC. Þar raða fjölmiðlamenn 15 bestu áskorendunum á eftir meistaranum í hverjum flokki fyrir sig.
Fyrir síðustu helgi var Gunnar í 14. sæti en Alex Oliveira í 13. sæti. Gunnar fer upp um tvö sæti með sigrinum á meðan Oliveira fer niður í 15. sæti. Elizeu Zaleski dos Santos, sem í gær skoraði á Gunnar, fór upp um eitt sæti og er nú 14. sæti. Gunnar fer upp fyrir Donald Cerrone en Cerrone er að fara aftur niður í léttvigt og er þegar með staðfestan bardaga þar í janúar.
Í öðrum flokkum stukku tvær konur hátt upp listana í sínum flokkum. Nina Ansaroff fór upp um átta sæti eftir sigur hennar á Claudiu Gadelha um síðustu helgi og þá fór Jessica Eye einnig upp um átta sæti eftir sigur hennar á Kaitlyn Chookagian. Styrkleikalistana má sjá hér.