Tuesday, April 30, 2024
HomeErlentHinn 26 ára Aljamain Sterling íhugar að hætta í MMA

Hinn 26 ára Aljamain Sterling íhugar að hætta í MMA

aljamain sterlingAljamain Sterling er einn efnilegasti bantamvigtarmaður veraldar og í 6. sæti á styrkleikalista UFC. Þrátt fyrir það íhugar hann að leggja hanskana tímabundið á hilluna til að snúa sér að kennslu eða masternámi.

Aljamain Sterling er 26 ára Bandaríkjamaður sem æfir hjá Serra-Longo. Hann er ósigraður í 11 bardögum og hefur sigrað þrjá bardaga í UFC frá því hann samdi við bardagsamtökin í fyrra.

Sterling er aftur á móti afar ósáttur við sína stöðu í dag. Hann hefur óskað eftir bardaga gegn Bryan Caraway (#7) en ekki fengið ósk sína uppfyllta. Hann hefur aðeins barist einu sinni á þessu ári og reynir nú eftir fremsta megni að fá bardaga áður en árið er úti.

Að sögn Sterling hafa Caraway og fleiri bardagamenn neitað að berjast við sig. Sterling er afar ósáttur við skort á andstæðingum og er einnig ekkert alltof sáttur með launin sín í UFC. Fyrir hans síðasta bardaga fékk hann 12.000 dollara fyrir að mæta og aðra 12.000 fyrir að sigra. Það eru rúmar þrjár milljónir íslenskra króna og er Sterling nú að leita annarra leiða til að afla tekna.

Fái hann ekki bardaga bráðum gæti hann tekið sér kennarastöðu í nálægum grunnskóla eða hafið mastersnám. Hann mun taka sér pásu frá MMA hvorn valkostinn sem hann velur.

„Ef þeir [UFC] finna ekki eitthvað fyrir mig fljótlega, þarf ég að fara aftur í skóla og bara gera það sem er best fyrir mig. Launin eru ekki góð nema þú sér meistari eða hefur barist mjög, mjög lengi,“ segir Sterling. Hann íhugar að skrá sig í mastersnámið áður en næsta önn hefst í janúar ef staðan helst óbreytt.

Sterling vonast enn eftir að fá bardaga í desember en hann þarf eins og aðrir að borga leigu, afborganir af bílnum og námslán. Þessi útgjöld hrannast upp á meðan hann getur ekkert barist og er því með litlar sem engar tekjur.

„Ég held ég eigi bjarta framtíð í íþróttinni. En miðað við hversu oft ég berst á ári er ekki séns að fá nægan pening til að leggja eitthvað til hliðar svo ég geti átt eitthvað þegar ferlinum lýkur. Ef ég reikna dæmið til enda gengur þetta bara ekki upp. Ég myndi hafa það mun betra með því að vera í fullu starfi sem kennari.“

Það er lítið um að vera á toppnum í bantamvigtinni í dag vegna meiðsla lykilmanna. Dominick Cruz er oft meiddur en hann mun mæta TJ Dillashaw í janúar um bantamvigtartitilinn. Þá hefur Raphael Assuncao ekkert barist síðan í október 2014 vegna meiðsla. Urijah Faber, Michael McDonald og Johny Eduardo hafa heldur ekkert barist á þessu ári í bantamvigtinni (Faber tók bardaga í fjaðurvigtinni í maí gegn Frankie Edgar). Þar af leiðandi er lítið um að vera í bantamvigtinni og fáir sterkir andstæðingar í boði fyrir Sterling.

Vonandi mun Sterling fá andstæðing í desember svo hann haldi áfram í MMA enda afar efnilegur bardagamaður. Það væri synd að sjá svo færan bardagamann í þunnskipuðum flokki hætta í MMA á besta aldri.

Aljamain sterling

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular