UFC 220 fer fram annað kvöld þar sem barist verður um þungavigtartitilinn. Af því tilefni kíkjum við á tvo síðustu sigra Stipe Miocic og Francis Ngannou.
Aðalbardaginn á UFC 220 er einn besti þungavigtarbardagi í langan tíma. Meistarinn Stipe Miocic mætir þá Francis Ngannou en báðir hafa verið duglegir að klára bardaga sína að undanförnu.
Síðast sáum við Stipe Miocic mæta Junior dos Santos á UFC 211 í maí. Dos Santos hafði sigrað Miocic nokkrum árum áður og því hafði Miocic harma að hefna. Miocic tókst að hefna fyrir tapið og rotaði dos Santos í 1. lotu.
https://www.youtube.com/watch?v=mqIi8E9uGzQ
Francis Ngannou hefur farið hamförum síðan hann kom fyrst í UFC. Í desember mætti hann Alistair Overeem og var ljóst að sigurvegarinn myndi fá titilbardaga gegn meistaranum Stipe Miocic. Ngannou var ekki lengi að rota Overeem með einhverju svakalegasta upphöggi sem sést hefur og tryggði sér þar með titilbardagann. Rothöggið var að margra mati rothögg ársins 2017 og verður áhugavert að sjá hvað hann gerir gegn Miocic á morgun.
https://www.youtube.com/watch?v=51jWjCVaZro