Björn Lúkas Haraldsson er kominn áfram í næstu umferð á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA. Mótið fer fram um þessar mundir í Barein og fer næsta umferð fram í dag.
Björn Lúkas sigraði Spánverjann Ian Kuchler með armlás í 1. lotu í gær, mánudag. Hann kemur mjög heill úr bardaganum enda stóð bardaginn bara yfir í rúmar tvær mínútur. Næsta umferð fer fram í dag og þá mætir Björn hinum írska Fionn Healy-Magwa.
Healy-Magwa sigraði í gær Eliezer Kubanza frá Kongó eftir klofna dómaraákvörðun. Hann kemur því ekki eins vel frá deginum eins og Björn Lúkas eftir 12 mínútna langan bardaga.
Healy-Magwa æfir hjá SBG í Dublin og þykir ansi efnilegur bardagamaður. Eftir gærdaginn er hann 7-2 á áhugamannaferlinum á meðan Björn Lúkas er 3-0. Björn hefur klárað alla bardaga sína í 1. lotu og ætti þetta því að verða hörku bardagi.
Hér að neðan má sjá flokkinn hjá Birni Lúkasi.