spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHM í ólympískri glímu: Freestyle

HM í ólympískri glímu: Freestyle

wrestling kast

Grein eftir Einar Árna Friðgeirsson

Síðasta laugardag birtum við frábæra grein eftir Einar Árna Friðgeirsson um HM í ólympískri glímu. Þá tók hann fyrir Greco-Roman hluta mótsins en nú skoðar hann Freestyle hlutann. Gefum honum orðið.

Þá er keppni lokið í Freestyle og hafa meistarar verið krýndir í sextán þyngdarflokkum karla og kvenna. 32 glímumenn hófu keppni í hverjum þyngdarflokki og komu keppendur frá yfir 100 löndum þetta árið. Ómögulegt er að fara ítarlega yfir öll úrslit og allar þær frábæru glímur sem hafa átt sér stað undanfarna daga þannig að eingöngu verður farið lauslega yfir það helsta sem stóð upp úr í þessari grein.

Þeir sem áhugasamir eru um að kynna sér sportið betur eru hvattir til að skoða heimasíðu United World Wrestling en þar má fletta upp öllum úrslitum með hlekkjum á viðkomandi glímur sem hýstar eru á Youtube.

Makhov kominn í sögubækurnar

Rússneski þungavigtarmaðurinn Bilyal Makhov tókst hið fágæta afrek að vinna til verðlauna bæði í Greco-Roman og Freestyle en það hefur ekki verið gert síðan 1973. Hinn 27 ára gamli Makhov stefnir á MMA feril eftir Ólympíuleikana á næsta ári og er nú þegar samningsbundinn UFC. Hann var á mikilli siglingu fyrri hluta dags og vann fyrstu þrjár glímur sínar með miklum yfirburðum.

Í undanúrslitunum mætti hann þó ofjarli sínum, Evrópumeistaranum Taha Akgul frá Tyrklandi. Makhov sló Akgul út á síðustu Ólympíuleikum en í þetta skiptið átti hann ekki séns. Akgul náði góðri fellu snemma í glímunni og náði þéttu taki á fótleggjum Makhov í hinni svokölluðu „leg lace“ stöðu. Því taki er ekki auðvelt að ná en ef þú nærð því er hægt að skora mörg stig á stuttum tíma og nær ómögulegt að losa sig úr því. Enda varð sú raunin að Akgul gerði út um glímuna á rétt rúmri mínútu. Akgul lék svo sama leikinn í úrslitunum þar sem hann lagði Jarnalladin Magomedov frá Aserbaídsjan á nákvæmlega sama bragðinu.

Akgul með „leg lace“
Akgul með „leg lace“

Makhov mætti Armeníumanninum Levan Berianadze í bronsglímunni. Makhov stýrði glímunni nokkuð örugglega frá upphafi til enda og vann á tæknilegum yfirburðum, 11-0. Gaman verður að sjá hvort Akgul og Makhov muni mætast næsta sumar á Ólympíuleikunum. Þeir hafa nú báðir sigrað hvorn annan þar sem Makhov sló Akgul út á síðustu Ólympíuleikum.

Sadulaev er varla mennskur

Abdulrashid Sadulaev tryggði sér á föstudag sinn annan heimsmeistaratitil í Freestyle. Næsta skref: halda upp á tvítugsafmælið. Margir glímuspekingar telja Sadulaev vera besta glímumann í heimi í dag og þrátt fyrir ungan aldur er erfitt að reyna að þræta fyrir það. Það er ekki nóg með að hann vinni og vinni heldur er eftirtektarvert hvernig hann vinnur. Hann er bæði sterkur, snarpur og mjög tæknilega fær en hans helsti styrkleiki er nær yfirnáttúrulegt skynbragð á hvernig eigi að snúa öllum árásum andstæðingsins gegn þeim. Besta strategían gegn Sadulaev virðist vera að láta hann sem mest í friði þar sem flestar tilraunir andstæðinganna til að skora gegn honum enduðu á einn veg; fleiri stig á töflunni fyrir Sadulaev. Gagnárásir hans eru hrein unun á að horfa og á köflum virðist hann vera að finna upp alveg nýjar hreyfingar sem ekki hafa áður sést í sportinu eins og t.d handahlaups-spuni hans út úr árás Atsushi Matsumoto frá Japan í fyrstu umferð.

Abdulrashid Sadulaev vs. Atsushi Matsumoto:

Sadulaev tryggði sér svo öruggan sigur í -86 kg flokki með sigri á Selim Yasur frá Tyrklandi.

Abdulrashid Sadulaev vs. Selim Yasur

https://www.youtube.com/watch?v=mHJDo5VMmwc

Kyle Snyder
Kyle Snyder skýtur inn

Burroughs og Snyder halda uppi heiðri Bandaríkjanna

Tveir bandarískir glímumenn stóðu upp sem gullverðlaunahafar í Freestyle karla, einn reynslubolti og einn nýliði. Hinn margverðlaunaði gulldrengur, Jordan Burroughs, getur nú aftur staðið undir einkunnarorðum sínum „All I see is gold“ eftir að hafa þurft að sætta sig við brons á HM í fyrra. Í fyrra var hann frekar illa meiddur og keppti teipaður frá ökkla og upp í nára.

Þessi langbesti glímukappi Bandaríkjanna í seinni tíð var í umtalsvert betra formi í ár og virkaði afar sannfærandi frá upphafi til enda. Erfiðasti andstæðingurinn kom í undanúrslitunum en þar atti hann kappi við Aniuar Geduev frá Rússlandi og vann nauman 4-3 sigur.

Í úrslitunum mætti hann hinum lítt þekkta Mongóla, Unurbat Purevjav, sem hafði laumast í úrslit með því að glíma langt yfir getu. Heppnin hafði að mörgu leiti verið með honum í fyrri glímum en ekki dugði það til gegn Burroughs sem skoraði nánast að vild gegn honum og vann 10-0. Þar með tryggði Burroughs sér sinn fjórða stóra alþjóðlega titil.

Jordan Burroughs vs. Unurbat Purevjav:

Annar Bandaríkjamaður, hinn nítján ára gamli Kyle Snyder, var að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega stórmóti í fullorðinsflokki. Hann hefur gert garðinn frægan í unglingaflokki undanfarin ár og unnið mörg stórmót. Í fyrra var hann valinn í landsliðið í -97 kg flokki og varð þar með yngsti meðlimur þess fyrr og síðar. Í ár bætti hann um betur og sló met John Smith frá því á níunda áratugnum með því að verða yngsti heimsmeistarinn í sögu bandaríska landsliðsins. Það afrek vann hann með afar naumum sigri á meistaranum frá því í fyrra, Abdusalam Gadisov, frá Rússlandi í æsispennandi glímu.

Kyle Snyder vs. Abdusalam Gadisov

wrestling kvenna

Japan allsráðandi í kvennaflokkunum

Það má með sanni segja að Japan hafi frá upphafi gert tilkall til þess að vera ríkjandi afl í Freestyle kvenna eftir að byrjað var að keppa í kvennaflokkum árið 1987. Keppnin í ár var engin undantekning þar á. Japanir unnu þrjú gull, eitt silfur og brons. Hin 32 ára gamla Saori Yoshida hélt áfram að rústa öllum heimsmetum með því að tryggja sér hvorki meira né minna en sinn þrettánda heimsmeistaratitil. Yoshida hefur haft mikla yfirburðu síðan seint á 10. áratugnum. Hún lagði hina sænsku Sofia Magdalena Madsson í úrslitunum.

Saori Yoshida vs. Sofia Magdalena Madsson

Helen Maroulis og Adelaine Gray tryggðu Bandaríkjunum 2. sæti í kvennaflokki með tveimur gullverðlaunum. Besta kvennaglíman kom þó fyrr á mótinu en viðureign Elitsu Yankova frá Búlgaríu og Tatyönu Bakatyuk frá Kazakstan var hörkugíma frá upphafi til enda.

Jordan Burroughs
Jordan Burroughs var öflugur á mótinu.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular