Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHM í ólympískri glímu: Greco-Roman

HM í ólympískri glímu: Greco-Roman

wrestlingGrein eftir Einar Árna Friðgeirsson

Einar Árni Friðgeirsson er mikill áhugamaður um ólympíska glímu og skrifaði því þessa ítarlegu grein um heimsmeistaramótið í glímu sem fram fer um þessar mundir.

Mikil glímuveisla fer fram í Las Vegas þessa dagana þar sem heimsmeistaramót í Ólympísku glímugreinunum er haldið af hinu alþjóðlega glímusambandi, United World Wrestling. Keppt er í tveimur greinum; svo kallaðri Grísk-Rómverskri glímu (Greco Roman Wrestling), þar sem einingis má snerta andstæðinginn fyrir ofan mitti, og glímu með frjálsri aðferð (Freestyle) þar sem grípa má í andstæðinginn hvar sem er.

Mótið, sem nú er rúmlega hálfnað, hefur þegar hlotið mikið hrós meðal glímuáhugamanna fyrir gott skipulag og firnasterkar frammistöður margra keppenda í sigri jafnt sem ósigri. Í þessari grein verður rennt stuttlega yfir helstu úrslit og markverðustu atburði fyrstu tveggja daga mótsins en þá öttu menn kappi í Grísk-Rómverskri glímu í átta þyngdarflokkum.

-59 Kg

Í léttasta þyngdarflokkinum rúllaði Kúbumaðurinn Ismael Borrero Molina yfir Rovshan Bayramov frá Aserbaídsjan á rétt rúmri mínutu í úrslitaglímunni og hreppti verðskuldað gull. Afar sannfærandi sigur þar sem Molina náði sterku taki á andstæðing sínum snemma og fylgdi fyrstu fellunni miskunnarlaust eftir með þremur veltum. Átta stiga forskoti náð og glíman þar með flautuð af.

Þessi frammistaða Molina í úrslitunum vó upp á móti þeirri óþægilegu staðreynd að hann hefði hæglega getað fallið úr keppni í fjórðungsúrslitunum gegn Seunghak Kim frá Kóreu. Í þeirri glímu (sem var æsispennandi og ein af betri glímum mótsins) féll afar erfið og tvísýn dómaraákvörðun Molina í vil eftir að þjálfarar hans véfengdu upprunalegu stigagjöfina sem hefði fært Kim nauman sigur.

Skúrk mótsins var einnig að finna í þessum þyngdarflokk þar sem Ólympíumeistarinn frá 2012, Hamid Soryan frá Íran, var dæmdur úr leik í glímu sinni gegn Bayramov í fjórðungsúrslitunum eftir að hafa ítrekað skallað Bayramov í andlitið í „clinchinu“. Þessari miður skemmtilegu frammistöðu fylgdi hann svo eftir í uppreisnarglímu sinni gegn Wong Chol Yun frá N-Kóreu með því að skalla hann líka svo harkalega að Yun lá óvígur eftir í þónokkuð langan tíma. Þó reis hann upp fyrir rest og eftir að gert hafði verið að sárum hans hélt glíman áfram. Yun, sem var örugglega frekar vankaður, náði svo að knýja fram eins stigs sigur (6-5) á hreint ótrúlega flottri lyftu og kasti. Mögnuð frammistaða frá N-Kóreumanninum sem fagnaði ógurlega þegar sigurinn var í höfn.

-66 Kg

Þjóðverjinn Frank Staebler var eins og klettur í gegnum alla keppnina og rúllaði upp fimm andstæðingum á leið sinni að gullinu. Samanlögð stigatala úr þessum glímum var 27-2 Staebler í vil svo miklir voru yfirburðir hans. Það er óhætt að segja að enginn hafi komist nálægt því að ógna honum. Hann skoraði mjög fallegar lyftur bæði í úrslitunum gegn Hansu Ryu frá Kóreu og ekki síst hin frábæra lyfta og kastið sem fylgdi á eftir gegn Serbanum Davor Stefanek í undanúrslitunum.

-71 kg

Hér bar einn keppandi höfuð og herðar yfir alla aðra og í raun alla aðra sem kepptu í Greco á mótinu. Rasul Chunayev frá Aserbaídsjan gerði sér lítið fyrir og vann fimm andstæðinga á samanlögðu skori 40-5. Ekki nóg með það þá kláraði hann allar glímurnar sínar nema úrslitaglímuna áður en keppnistíma lauk. Ég get ekki mælt nægilega mikið með því að lesendur MMA Frétta kynni sér þennan glímumann sem er einstaklega skemmtilegur á að horfa; leikandi léttur, tæknilegur fimur og óhræddur við að láta vaða í stór og flott köst.

wrestling 2
Rasul Chunayev með flott tilþrif.

-75 Kg

Í þessum flokki keppti sterkasti fulltrúi norðurlandanna í Grísk-Rómverskri glímu, Mark Overgaard Madssen frá Danmörku. Hann barðist alla leið í úrslit með því að rúlla m.a upp Andrew Bisek frá Bandaríkjunum í fjórðungsúrslitunum og svo rétt merja heimsmeistarann frá 2011, Saeid Abdvali frá Íran, í undanúrslitunum. Madsen, sem að hefur í gegnum tíðina daðrað við að skipta yfir í MMA (er 2-0 nú þegar) þurfti svo að mæta gömlum fjanda sínum í úrslitunum, heims- og Ólympíumeistaranum Roman Vlasov frá Rússlandi. Vlasov, sem hefur lengi verið yfirburðakeppandi í -75 kg flokknum gerði sér lítið fyrir og lagði Madsen 6-0. Það væri gama að sjá Madsen, sem ítrekað hefur þurft að sætta sig við silfurverðlaun í glímunni í gegnum tíðina, snúa aftur í MMA á næstunni. Þar gætu beðið eftir honum gullbelti svo mikið er víst.

Einnig má geta þess að Vlasov glímdi snemma á mótinu við fyrrum heimsmeistarann Jufalakyan frá Armeníu og framdi þar eitt það allra hrikalegasta „faceplant“ sem sést hefur í nokkru glímusporti.

Watch more videos on FloWrestling

-80 kg

Að mínu mati var þetta langtum minnst spennandi þyngdarflokkurinn í Greco þetta árið. Selcuk Cebi frá Tyrklandi hreppti gullið eftir alveg hreint hrútleiðinlega glímu við Viktar Sasunouski frá Hvíta-Rússlandi. Hér var spilað eins öruggt og mögulegt var og á endanum voru engin stig beinlínis skoruð af keppendum en Cebi fékk tvisvar sinnum eitt stig fyrir að hafa neytt andstæðing sinn í það mikla vörn að hann fékk ítrekaðar viðvaranir fyrir að tefja glímuna.

-85 kg

Evrópumeistarinn frá því í fyrra í -85 kg flokknum, Zhan Beleniuk, hefur hingað til vakið jafnmikla ef ekki meiri athygli á stórmótum fyrir útlit sitt heldur en stórgóðan glímuárangur. Menn eru nefnilega ekki vanir því að sjá þeldökka Úkraínumenn. Beleniuk, sem á ættir að rekja til Rúanda, missti föður sinn og alla hans fjölskyldu í þeim skelfilegu þjóðarmorðum sem áttu sér stað þar í landi á tíunda áratugnum. Sigur hans á Rustam Assakalov tryggði honum hans fyrsta heimsmeistaratitil þrátt fyrir að vera einungis 24 ára gamall. Assalov hafði þá rústað Rami Antero Hietaniemi, helstu vonarstjörnu Finna, í undanúrslitunum 10-0.

wrestling 3
Zhan Beleniuk.

-98 kg

Annar ungur og efnilegur glímumaður stóð uppi sem sigurvegari í -98 kg flokknum. Artur Aleksanyan frá Armeníu er kannski ekki skemmtilegasti glímukappi til að fylgjast með. Hann tekur fáa sénsa og er ekki mikið fyrir stór köst en er flinkur við að neyða andstæðinginn í gólfið. Ef hann læsir klónum utan um mittið á andstæðingum sínum er nánast ómögulegt að stöðva velturnar hans. Nokkur vel valin „gut wrench“ voru lykillinn að gullinu fyrir hinn 23 ára gamla Aleksanyan.

-130 kg

Í þessum flokki risanna hefði kannski mátt búast við því að fátt yrði um fína drætti og ekki mikill hasar. Oft á tíðum eru Greco-Roman glímur þungavigtarmanna ekki mikið fyrir augað. En hér átti sér stað ein dramatískasta og mest spennandi glíma mótsins til þessa.

Rússinn Bilyal Makhov hefur þegar skrifað undir samning við UFC þrátt fyrir að hefja ekki keppni í MMA fyrr en eftir næstu Ólympíuleika. Hann stefnir á að brjóta blað í sögu sportsins með því að keppa bæði í Greco-Roman og Freestyle á sama heimsmeistaramótinu. Hann var svo óheppinn að vera dreginn gegn fimmföldum heimsmeistara og tvöföldum Ólympíumeistara, Mijaín López Núñez, frá Kúbu í fyrstu umferð.

Á sama tíma barðist hinn kubbslegi og fúlskeggjaði Bandaríkjamaður Robert Smith áfram í gegnum keppnina – vinnandi glímur á seiglunni sem og á hæfileikum. Hann vann fyrstu þrjár glímurnar sínar en svo var kominn tími til að glíma við Lopez. Það stóð ekki lengi þar sem López byggði upp 8-0 forskot og kláraði glímuna á rétt rúmri mínútu.

Þar sem López fór alla leið í úrslit fengu allir þeir sem hann hafði sigrað að taka þátt í uppreisnarglímum. Í húfi var von um bronsverðlaunasæti en í Greco-Roman deila tveir keppendur ávallt bronsverðlaununum. Þannig fór að Smith og Makhov mættust í annarri af tveimur bronsglímum mótsins. Gestgjöfunum hafði ekki gengið eins vel og vonir stóðu til og öll höllin stóð með Smith. En frekar en að rekja glímuna nánar þá mæli ég með að menn einfaldlega horfi á hana þar sem hún er alveg hreint mögnuð.

Í úrslitunum féll hinn sigurstranglegi og risastóri López út fyrir Riza Kayyalp frá Tyrklandi. López virtist vera búinn að klára batteríin og Kayyalp rétt marði sigur 1-0 í tíðindalítilli glímu.

Keppni í Freestyle glímu stendur nú yfir og lýkur á laugardaginn.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular