Fyrrum bantamvigtarmeistarinn Holly Holm er sögð hafa hafnað hlutverki í stórri kvikmynd. Holm vill enga truflun fyrir sinn næsta bardaga.
Holly Holm mætir Valentinu Shevchenko þann 23. júlí. Bardaginn er aðalbardaginn á UFC on Fox 20 bardagakvöldinu í Chicago og mikilvægt fyrir Holm að komast aftur á sigurbraut. Holm tapaði bantamvigtartitlinum til Mieshu Tate í mars og er staðráðin í að ná beltinu aftur.
„Hún einbeitir sér að bardagaferlinum. Við viljum ekki gera sömu mistök og sumir,“ sagði umboðsmaður hennar, Lenny Fresquez, í samtali við slúðurmiðilinn TMZ.
Þarna er umboðsmaðurinn að skjóta létt á Rondu Rousey enda sagt að kvikmyndabransinn og stjörnulífið hafi tekið of stóran part af lífi Rousey. Ekki er vitað hver kvikmyndin er sem um ræðir en ljóst að Holm ætlar ekki að gera sömu mistök og Rousey.