spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHrólfur: Sunna er mjög svekkt

Hrólfur: Sunna er mjög svekkt

Mynd: Dave Mandel.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir þurfti að játa sig sigraða í gær í strávigtarmóti Invicta FC. Sunna tapaði fyrir Kailin Curran í fyrstu umferð eftir klofna dómaraákvörðun og var auðvitað svekkt með niðurstöðuna.

Sunna og Kailin Curran háðu frábæran bardaga í gær en bardagann var fyrsti bardagi kvöldsins og settu tóninn fyrir kvöldið. Í Phoenix Rising mótinu kepptu átta konur um að verða nýr strávigtarmeistari Invicta en í fyrstu tveimur umferðunum voru bardagarnir aðeins ein fimm mínútna lota.

Curran byrjaði á að slá Sunnu niður snemma í lotunni en Sunna kom sterk til baka og náði góðri stöðu í gólfinu. Curran slapp undan og sló Sunnu aftur niður áður en Sunna kom þessu aftur í gólfið. Curran endaði á að vinna eftir klofna dómaraákvörðun og var Sunna því úr leik á mótinu.

Þeir Hrólfur Ólafsson og Luka Jelcic voru í horninu hjá Sunnu í gær en við heyrðum í Hrólfi er hann var á leið heim frá Kansas.

„Sunna byrjaði bardagann frekar hægt, enda búin að vera lengi í burtu. Planið var engu að síður að vera öguð en agressív strax frá byrjun. Við vildum að hún myndi eyða sem minnstum tíma standandi og ná clinchi um leið og tækifærið kæmi og taka þetta niður. Wrestlingið hjá Sunnu var gullfallegt og hún var mjög smooth í öll skipti sem hún náði Curran niður og notaði litla orku til þess. Sunna var hársbreidd frá því að klára hana en Curran varðist vel og sýndi mikið hjarta og sást hversu reynslumikil hún er,“ segir Hrólfur um bardagann.

Mynd: Dave Mandel.

Curran hefur undanfarin ár barist í UFC en eftir að samningi hennar var rift samdi hún við Invicta og var þetta hennar fyrsti bardaga í Invicta. Sunna hafði einnig verið lengi fjarverandi vegna meiðsla og var þetta hennar fyrsti bardagi í 21 mánuð.

„Þessi högg sem slógu Sunnu niður voru ekki að gera mikið damage. Við horfðum aftur á bardagann og sáum hvernig í bæði skiptin hún hitti hana beint í eyrað og tók undan henni jafnvægið. Fyrir utan þessi tvö högg var Sunna með mikið meiri stjórn og skaða. Eftir bardagann lág Curran með klakapoka á hausnum og líkamanum og leit ekki vel út. Á meðan var Sunna eins og hungrað rándýr og neitaði að taka af sér vafningana og beið eftir að eitthvað kæmi uppá svo hún fengi annað tækifæri.“

Eins og áður segir kepptu átta konur í útsláttarmótinu en þó var einn varabardagi til staðar ef keppendur hefðu ekki getað haldið áfram eftir að hafa komist í næstu umferð. Þó Sunna hafi tapað var ekki öll von úti um að halda áfram að keppa þó vonin hafi verið veik. Tveir keppendur og sigurvegari varabardagans hefðu þurft að detta út til að Sunna hefði getað stokkið aftur inn en enginn keppandi þurfti að hætta þátttöku vegna meiðsla.

„Sunna var augljóslega mjög svekkt. Sérstaklega að hafa ekki klárað hana þegar hún var búin að fletja hana út á gólfinu og var að láta höggin dynja. Sunna var ekki mikið meidd eftir þessi högg. Þetta leit mikið verr út live en þegar við horfðum á þetta aftur. Í bæði skiptin var hún strax farin að verjast sömu sekúndu og hún datt í gólfið. Eftir bardagann fór hún í læknisskoðun til að meta hvort hún hafi fengið heilahristing og kom allt jákvætt útúr því og fékk hún því ekki heilahristing.“

Eftir bardagann hélt Curran áfram í undanúrslit þar sem hún sigraði Sharon Jacobson í jöfnum bardaga. Hún tapaði svo í úrslitum gegn Brianna Van Buren eftir hengingu í 2. lotu.

Eftir bardaga Sunnu og Curran áttu liðin gott spjall sín á milli og var ekkert nema vinsemd og virðing á milli liðanna eftir jafnan bardaga. Svo var reyndar raunin hjá öllum keppendum á kvöldinu og segir Hrólfur að stemningin hafi verið einstaklega vinaleg hjá öllum keppendum og liðum.

Mynd: Dave Mandel.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular