spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvað er svona merkilegt við bardaga Khabib og Tony Ferguson?

Hvað er svona merkilegt við bardaga Khabib og Tony Ferguson?

Annað kvöld mætast þeir Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson á UFC 209. Margir bardagaaðdáendur eru gjörsamlega að missa sig úr spenningi fyrir þessum bardaga en hvers vegna?

Bardaginn er næstsíðasti bardagi kvöldsins og berjast þeir Tony Ferguson og Khabib Nurmagomedov um bráðabirgðartitil léttvigtarinnar. Stutt er síðan Conor McGregor vann léttvigtarbeltið en þar sem kappinn er í smá pásu ákvað UFC að láta þá Khabib og Ferguson berjast um bráðabirgðartitil. Beltið er kannski algjört pappabelti en við fáum allavegna fimm lotur.

Þetta er í þriðja sinn sem þeir Tony og Khabib hafa átt að mætast og má segja að biðin hafi verið þess virði. Fyrst áttu þeir að mætast þann 11. desember 2015. Khabib meiddist hins vegar og kom Edson Barboza inn í staðinn. Þeir áttu svo aftur að mætast í apríl 2016 en þá var það Tony sem dróg sig úr bardaganum.

Núna loksins mætast þeir á morgun og var kannski bara ágætt að bardaginn hafi látið bíða eftir sér. Núna er Khabib 8-0 í UFC og Tony hefur unnið níu bardaga í röð. Samanlagt eru þeir 20-1 í UFC sem er magnað. En kíkjum aðeins á bardagamennina og þau atriði sem gera þennan bardaga svo áhugaverðan.

Khabib Nurmagomedov (24-0)

Khabib Nurmagomedov er fæddur og uppalinn í Dagestan í Rússlandi. Þar er gríðarlega sterk hefð fyrir bardagaíþróttum og fer nánast hvert einasta mannsbarn í glímu, sambó, júdó, sparkbox eða box. Frá unga aldri var Khabib þjálfaður af pabba sínum, Abdulmanap Nurmagomedov, sem er algjör goðsögn í bardagaheiminum í Dagestan.

Khabib er tvöfaldur heimsmeistari í Combat sambó og er gríðarlega vinsæll í Rússlandi. Í dag æfir hann mikið hjá AKA í San Jose í Kaliforníu og fer þangað þegar hann er með bardaga framundan. Khabib hefur litið ótrúlega vel út í UFC og valtað yfir nánast alla andstæðinga sína. Stöðug meiðsli hafa haldið aftur af honum en Khabib gat ekkert barist í tvo ár vegna meiðsla.

Hjá Khabib snýst allt um bardagaferilinn og hefur hann áður sagt að áfengi og konur hafi truflandi áhrif á bardagamenn. Hann skilur ekki hvernig aðrir bardagamenn geti farið út að skemmta sér enda gera konur bardagamenn veiklynda.

Punktar

  • Frábær alhliða glímumaður: Hann er góður í clinchinu, með góð köst, góður að skjóta í lappir, góður í gólfinu
  • Tók Abel Trujillo 21 sinni niður í þeirra bardaga (met í UFC)
  • Gríðarlega erfitt að sleppa undan honum í gólfinu
  • Skilur hann rubber guard vel? Hefur Khabib æft með mönnum sem eru frábærir í að nota rubber guardið?
  • Hreyfir hausinn ekkert sérstaklega vel standandi og er opinn fyrir höggum í standandi viðureign
  • Enginn nema Gleison Tibau hefur náð að stoppa fellurnar hans

Tony Ferguson (22-3)

Tony Ferguson vann 13. seríu The Ultimate Fighter og er 12-1 í UFC. Hann hefur unnið níu bardaga í röð og hefur farið gjörsamlega á kostum að undanförnu. Tony var mikið í íþróttum sem barn og skaraði fram úr í ólympískri glímu, hafnabolta og amerískum fótbolta. Hann komst upphaflega í MMA á meðan hann starfaði sem barþjónn þegar kúnni bað hann um að hjálpa nokkrum MMA keppendum með glímuna sína.

Tony er öðruvísi en flestir bardagamenn enda er hann ekki með neinn yfirþjálfara sem hann hlýðir í einu og öllu. Hann æfir annað hvort í kjallaranum heima hjá sér eða leigir bústað í fjöllunum þar sem hann fær til sín æfingafélaga. Hann er alltaf tilbúinn til að gera eitthvað klikkað og stundum gerir hann hluti sem flestir telja að myndi aldrei virka í MMA á hæsta getustigi.

Punktar

  • Frábært þol, getur auðveldlega farið fimm lotur
  • Góðar hendur og er með níu sigra eftir rothögg
  • Hættulegur í gólfinu: Tony er með átta sigra eftir uppgjafartök og er brúnt belti í BJJ undir Eddie Bravo en Bravo er þekktur fyrir rubber guard og óvenjuleg uppgjafartök
  • Getur barist bæði úr rétthentri og örvhentri stöðu. Khabib átti í erfiðleikum með örvhentan Michael Johnson standandi
  • Klikkaður: Gerir oft klikkaða hluti eins og að rúlla sér í kneebar
  • Góða höku og harður af sér
  • Gríðarlega mikla trú á sér
  • Er góður að standa upp þegar hann er tekinn niður
  • 81% felluvörn í UFC

Vitum ekki hvað gerist

Það er ansi margt sem gerir þennan bardaga spennandi enda gríðarlega áhugaverðir stílar að mætast. Það hefur vissulega verið eitthvað um skítkast á milli þeirra en það skiptir engu máli þegar svona hágæða bardagamenn mætast.

Þeir Khabib og Tony eru eins ólíkir og það gerist; annar er með fremur hefðbundna tækni á meðan hinn er mjög óhefðbundinn og með óvenjulegar árásir. Báðir eru á langri sigurgöngu og finna alltaf leið til sigurs en bara einum mun takast það á morgun.

Bardaginn byrjar alltaf standandi, getur Tony Ferguson meitt Khabib standandi? Khabib mun 100% reyna að ná Tony niður, getur Tony stoppað felluna? Ef hann er tekinn niður, getur Tony hangið með honum í gólfinu og komið Khabib í vandræði?

Báðir bardagamenn brjóta andstæðingana sína niður hægt og rólega en þó á ólíkan hátt. Khabib tekur menn niður og sleppa þeir ekki fyrr en lotan eða bardaginn klárast. Það er gríðarlega erfitt að stoppa fellurnar hans og enn erfiðara að komast undan honum.

Tony Ferguson brýtur andstæðinginn niður á ólíkan hátt og Khabib. Tony er með ótrúlega gott þol og er mjög aktívur standandi. Það eru fáir sem geta haldið sama hraða og hann í gegnum fimm lotur og brýtur hann menn niður með þessum ótrúlega hraða og framspörkum í skrokkinn.

Það má segja að menn brotni niður á tvennan hátt í bardaga:

  1. Pressan og árás andstæðingsins er svo mikil að þú hreinlega vilt ekki vera þarna lengur. Þig langar að komast úr búrinu og vilt gefast upp.
  2. Þú sættir þig við að andstæðingurinn sé einfaldlega betri en þú og það er ekkert sem þú getur gert til að snúa taflinu þér í vil. Þú ert búinn að gefast upp en ætlar samt ekki að hætta og reynir að lifa af út bardagann.

Seinni útskýringin er það sem við sjáum oftar í bardögum sem þessum. Þarna eru tveir heimsklassa bardagamenn sem eru báðir mjög andlega sterkir. Þó stílar þeirra séu ólíkir mun þetta líklega ráðast af því hvor sé andlega sterkari þegar á hólminn er komið.

Það er því margt sem gerir þennan bardaga svona áhugaverðan og merkilegan og höfum við í raun ekki hugmynd um hvað muni gerast. Við þurfum bara að horfa á bardagann til að vita hvað gerist og það getum við gert annað kvöld þegar UFC 209 fer fram. Bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending kl 3.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular