Á morgun verður kosið til þings í landinu og eru mörg brýn málefni framundan hjá komandi ríkisstjórn. Það er þó eitt mál sem er alltaf ofarlega í okkar huga og það er lögleiðing MMA á Íslandi.
Í fyrra gerðum við úttekt á afstöðu allra flokkanna til lögleiðingar MMA á Íslandi. Íþróttin er ekki bönnuð hér á landi en markmiðið með lögleiðingu er að tryggja að MMA keppnir hérlendis séu framkvæmdar á faglegan hátt. Til að tryggja fagmennsku þarf að setja á gott regluverk og er horft til Svíþjóðar að því leyti.
Kosið var til þings í fyrra og hefur því eðlilega lítið breyst síðan þá. Við vildum engu að síður birta afstöðu flokkanna með uppfærðum svörum ef þau bárust. Ekki gátu allir flokkar svarað í tæka tíð en hér koma svör flokkanna:
Alþýðufylkingin: Alþýðufylkingin hefur ekki tekið afstöðu til lögleiðingar MMA, hvorki með né móti. Afstaða þeirra hefur ekkert breyst frá því í fyrra.
Björt framtíð: Afstaða Bjartrar framtíðar hefur ekki breyst frá því í fyrra. Björt framtíð er fylgjandi því að fólk megi almennt gera það sem því sýnist svo lengi sem það skaðar ekki aðra. MMA er stundað af Íslendingum, jafnvel með miklum árangri, og því er bannið að mestu merkingarlaust. Miklu skynsamlegra er að hafa um íþróttina góðan ramma í lögum og reglum.
Til að koma til móts við málið myndi flokkurinn eiga samtal við hagsmunaaðila í samræmi við stefnu Bjartrar framtíðar um að einhliða boðvald stjórnvalda sé ekki rétt nálgun í stjórnmálum. Við teljum það ekki hlutverk stjórnmálamanna að taka ákvarðanir um bann við tiltekinni hegðun nema að eiga um það samtal, vega hagsmuni og taka svo ákvörðun sem byggir á upplýsingum og rökum. Stjórnmálamenn eiga hins vegar að fanga hugmyndir og fylgja þeim eftir.
Framsóknarflokkurinn: Framsóknarflokkurinn hefur ekki ályktað um lögleiðingu MMA og því getum við ekki tekið afstöðu til þessa.
Miðflokkurinn: Miðflokkurinn sá sér ekki fært að svara.
Píratar: Píratar hafa formlega mótaða stefnu um afnám hnefaleikabanns og keppni í bardagaíþróttum. Með tilvísan í grunnstefnu Pírata viljum við beita okkur fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Borgararéttindi tilheyra einstaklingum sem og sjálfsákvörðunarréttur auk þess sem allir eiga rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
Skv. 1. gr laga um íþróttir eru íþróttir skilgreindar sem hvers konar líkamleg þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti. Í 2. gr sömu laga segir að meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skuli vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði. Píratar túlka að í lagalegum skilningi uppfylli MMA þau skilyrði að falla undir hefðbundna skilgreiningu íþrótta og eigi þar af leiðandi að fylgja þeim lögum en ekki sæta lögbanni.
Píratar álykta að öllum er í sjálfsvald sett hvort þeir stunda, keppa eða sýna hnefaleika og aðrar bardagaíþróttir, hvort heldur er í atvinnu- eða áhugaskyni. Hafa skal samráð við þau íþróttafélög sem málið varðar um útfærslu á nýjum lögum og/eða breytingum á gildandi lögum; sem og reglum sem tryggja öryggi í keppni og ábyrga iðkun íþróttanna.
Samfylkingin: Samfylkingin hefur ekki ályktað á landsfundum sínum um lögleiðingu MMA. Við erum tilbúin til þess að skoða lögleiðingu á MMA á Íslandi og þar yrði helsta markmið Samfylkingarinnar að auka öryggi þátttakenda.
Löggjöfin þyrfti að treysta starfsumhverfi félaga sem leggja stund á MMA og tryggja að öryggi þátttakenda yrði leiðarljós í þeirra starfi.
Eðlilegt væri að undirbúningur löggjafarinnar væri í höndum menntamálaráðuneytisins sem fer með íþróttamál og að málið fengi þinglega meðferð þar sem allir hagsmunaðilar og almenningur geti tekið þátt í umræðum um málið.
Sjálfstæðisflokkurinn: Já, Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið fyrir færri boðum og bönnum. Fullorðið fólk verður að bera ábyrgð á sér sjálft í frístundum sínum. Í rekabálka Jónsbókar er í gildi ákvæði sem segir að þetta sé leyfilegt gangi fólk til bardagans að fúsum og frjálsum vilja. Engin lög eru í dag sem banna MMA.
Að frumkvæði Sjálfstæðismanna hefur menntamálaráðuneytið tekið saman skýrslu um þær reglur sem gilda í Svíþjóð um viðburði þar sem keppt er í MMA. Það væri gott á næsta kjörtímabili að taka mið af henni og setja hér lög eða regluverk utan um sportið til að stuðla að fagmennsku í íþróttinni.
Viðreisn: Viðreisn hefur ekki náð að mynda sér sérstaka stefnu í málefnum MMA enn. Í grunnstefnu Viðreisnar stendur hins vegar: „Einstaklingar setji fram skoðanir sínar og hagi lífi sínu og athöfnum að vild“ og því væri eðlilegt að lögleiðing MMA félli þar undir.
Viðreisn myndi styðja að samin yrði skýr löggjöfið um málið sem tryggir að þátttakendur geti stundað og keppt í íþróttinni með öruggum hætti.
Vinstri grænir: VG hefur ekki tekið afstöðu til lögleiðingar MMA.