spot_img
Saturday, December 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvar eru titilbardagarnir?

Hvar eru titilbardagarnir?

Það eru fáir titilbardagar á dagskrá næstu vikurnar hjá UFC. Skoðum aðeins stöðuna á toppnum í öllum þyngdarflokkum UFC.

Skiljanlega eru fáir titilbardagar á dagskrá enda er heimsfaraldur enn í gangi og UFC nýkomið aftur af stað. Margir bardagar féllu niður en UFC er núna að bóka mikið af bardögum þessa dagana. Las Vegas samþykkti í dag að leyfa bardaga í fylkinu og verða næstu bardagakvöld þar næstu vikurnar.

Fluguvigt
Meistari: Enginn
Næsti titilbardagi: Deiveson Figueredo og Joseph Benavidez
Hvenær: 18. júlí

Þeir Deiveson Figueredo og Joseph Benavidez áttu að berjast um lausan fluguvigtartitil í febrúar eftir að Henry Cejudo lét beltið af hendi. Figueiredo náði hins vegar ekki vigt og þrátt fyrir sigur gegn Benavidez var beltið ennþá laust. UFC ætlar því að láta þá mætast aftur og verður bardaginn þann 18. júlí.

Bantamvigt
Meistari: Enginn
Næsti titilbardagi: ?

Henry Cejudo sigraði Dominick Cruz í maí í sinni fyrstu titilvörn í bantamvigt. Cejudo tilkynnti óvænt eftir bardagann að hann væri hættur í MMA og hefur formlega látið beltið af hendi. Beltið er því aftur laust og spurning hverjir mætast um lausan bantamvigtartitilinn. Þeir Aljamain Sterling og Corey Sandhagen mætast í júní en það verður ekki titilbardagi. Petr Yan er sagður fá titilbardaga og verður það sennilegast gegn Marlon Moraes.

Fjaðurvigt
Meistari: Alexander Volkanovski
Næsti titilbardagi?

Alexander Volkanovski sigraði Max Holloway í desember og tók fjaðurvigtartitilinn af Holloway. Lítið er vitað um framhaldið í fjaðurvigtinni en Dana White, forseti UFC, var hrifinn af því að gefa Holloway endurat gegn Volkanovski. Ekkert er vitað hvenær Volkanovski berst næst.

Léttvigt
Meistari: Khabib Nurmagomedov (Justin Gaethje bráðabirgðarmeistari)
Næsti titilbardagi: Khabib gegn Justin Gaethje
Hvenær: ?

Eftir að Justin Gaethje varð bráðabirgðarmeistari í léttvigtinni er vitað mál að hann fer næst í Khabib. Óljóst er hvenær sá bardagi verður en sennilega með haustinu. Faðir Khabib er enn alvarlega veikur en hann tekur virkan þátt í æfingabúðum Khabib sem þjálfari og það gæti tafið endurkomu Khabib.

Veltivigt
Meistari: Kamaru Usman
Næsti titilbardagi: ?

Enginn veit hver verður næsti andstæðingur Kamaru Usman. Jorge Masvidal heftur gert nóg til að fá titilbardaga en samkvæmt Usman hafnaði Masvidal titilbardaga. Sennilega er Masvidal að spila einhverja leiki og á enn í samningaviðræðum við UFC. Upphaflega átti næsta titilvörn Usman að vera í júlí og verður sennilega á UFC 251 ef allt gengur eftir.

Millivigt
Meistari: Israel Adesanya
Næsti titilbardagi: Adesanya gegn Paulo Costa
Hvenær: ?

Það er vitað mál að næsti áskorandi í millivigtinni er Paulo Costa. Hann og Adesanya hafa lengi eldað grátt silfur saman og verður afar fróðlegt að sjá þá mætast. Það er bara spurning hvenær þeir geta mæst en engin dagsetning hefur verið nefnd til sögunnar.

Léttþungavigt
Meistari: Jon Jones
Næsti titilbardagi:

Jan Blachowicz er sennilega næstur í röðinni fyrir Jon Jones. UFC gæti líka boðið upp á annan bardaga á milli Jones og Dominick Reyes eftir jafnan bardaga þeirra í febrúar. Jones hefur líka sagst vilja fara upp í þungavigt og mæta Francis Ngannou. Þó það sé mest spennandi bardaginn virðast stjórnendur UFC ekki tilbúnir til að opna budduna til að láta bardagann verða að veruleika.

Þungavigt
Meistari: Stipe Miocic
Næsti titilbardagi: Miocic gegn Daniel Cormier
Hvenær: ?

Stipe Miocic sigraði Daniel Cormier í ágúst í frábærum bardaga. Miocic hefur síðan þá verið í vandræðum með sjón sína eftir bardagann gegn Cormier en sá síðarnefndi bíður eftir að Miocic verði tilbúinn. Meistarinn hefur auk þess verið hikandi við að samþykkja bardaga á meðan kórónaveiran gengur yfir þar sem hann segist vera upptekinn í starfi sínu sem slökkviliðsmaður. UFC gæti svipt hann titlinum eða gert bráðabirgðartitil og þar er Francis Ngannou næstur inn gegn Cormier.

Strávigt kvenna
Meistari: Weili Zhang
Næsti titilbardagi: ?

Eftir gjörsamlega magnaðan bardaga gegn Joanna Jedrzejczyk er óvíst hver næsti andstæðingur hennar verður. Þær Rose Namajunas og Jessica Andrade áttu að mætast í apríl en Namajunas dró sig úr bardaganum eftir dauðsfall í fjölskyldunni. Sigurvegarinn þar hefði líklegast fengið næsta titilbardaga en staðan er örlítið flóknari núna. Joanna gæti vel fengið annað tækifæri enda var bardagi þeirra frábær og þá er Tatiana Suarez í nálægð við toppinn en hún hefur þó ekki barist í tæpt ár.

Fluguvigt kvenna
Meistari: Valentina Shevchenko
Næsti titilbardagi: Shevchenko gegn Joanne Calderwood
Hvenær: ?

Þær Valentina Shevchenko og Joanne Calderwood áttu að mætast fyrr á árinu áður en meistarinn meiddist. UFC mun bóka bardagann síðar á árinu þegar meistarinn hefur náð sér.

Bantamvigt kvenna
Meistari: Amanda Nunes
Næsti titilbardagi: ?

Það er ekkert um að vera í bantamvigt kvenna eins og er enda hefur Nunes unnið allar þær bestu. Það vantar augljósan áskoranda fyrir Nunes og er líklegast fínt að Nunes sé í fjaðurvigtinni á meðan hlutirnir skýrast í bantamvigtinni.

Fjaðurvigt kvenna
Meistari: Amanda Nunes
Næsti titilbardagi: Nunes gegn Felicia Spencer
Hvenær: UFC 250 þann 6. júní

Minnsti flokkur UFC er með sinn fyrsta titilbardaga síðan í desember 2018. Nunes mætir Felicia Spencer á UFC 250 en Spencer hefur litið vel út í UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular