Tuesday, March 19, 2024
HomeErlentHver fær næsta titilbardaga í veltivigtinni?

Hver fær næsta titilbardaga í veltivigtinni?

Fáir titilbardagar eru staðfestir þessa dagana. Kamaru Usman er æstur í að berjast en veit ekki hver andstæðingurinn gæti verið.

Kamaru Usman varði veltivigtartitil sinn þegar hann sigraði Colby Covington í desember í fyrra. Talið var að Jorge Masvidal færi í Usman en svo virðist sem Masvidal hafi hafnað titilbardaga.

Conor McGregor hefur verið nefndur sem mögulegur andstæðingur fyrir Usman ef Masvidal er ekki tiltækur og myndi hann því gera atlögu að sínu þriðja belti.

„Þetta er það sem ég hef að segja. Bæði Conor og Masvidal eru meistarar á Twitter, rífandi kjaft á Twitter. Í sögu MMA, hver hefur nokkurn tímann hafnað titilbardaga? Ég er sá sem þeir vilja ekki mæta og þeir hafna titilbardaga. Vonandi fyrir þá halda þeir kjafti,“ sagði Usman við ESPN.

Ekki er vitað hvort UFC hafi boðið Conor bardaga á þessari stundu en Dana White, forseti UFC, segir að það sé erfitt að bóka Conor í bardaga á þessari stundu þar sem allir bardagar eru án áhorfenda. Tekjur af miðasölu á bardaga hjá Conor er sú mesta í UFC og er UFC því hikandi við að bóka hann í bardaga.

Í stað þess að tala um titilbardaga hefur Masvidal síðustu daga verið að tala um annan bardaga gegn Nate Diaz. Masvidal sigraði Diaz í nóvember í fyrra um BMF titilinn en Masvidal vann allar loturnar þar til læknirinn stöðvaði bardagann.

„Jorge Masvidal, þú hafðir tækifæri til að mæta mér 18. apríl, 9. maí, júní og núna í júlí. Þú vilt mæta Nate aftur þegar fyrri bardaginn var ekki einu sinni jafn. Conor, þú vilt verða kóngurinn í veltivigtinni en núna ertu þögull. Haltu því áfram. Ég hef gefið ykkur báðum tækifæri en þið hafið ekki gripið það.“

Upphaflega ætlaði UFC að láta Masvidal og Usman mætast í júlí en nú er óljóst hver fái næsta titilbardaga í veltivigtinni. Colby Covington og Leon Edwards hafa óskað eftir titilbardaganum og þá mun Tyron Woodley mæta Gilbert Burns um helgina.

Staðan á toppnum í veltivigtinni er því fremur óljós en ætti að skýrast á næstu vikum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular