spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHver er þessi Claudio Silva?

Hver er þessi Claudio Silva?

Gunnar Nelson snýr aftur í búrið í mars og mætir þá Claudio Silva. Kynnum okkur aðeins hver þessi 39 ára Brasilíumaður er.

Claudio Silva er fæddur í Rondónopolis í Brasilíu þann 6. september 1982. Pabbi hans var hermaður en mamma hans prestur og fékk hann strangt uppeldi. Það var sannkallaður heragi á heimilinu og hvatti pabbi hans til að sækja í bardagaíþróttir.

Þrátt fyrir agann heima fyrir var Silva ákveðinn uppreisnarseggur. Hann vildi vera harðastur, sterkastur og sá sem aðrir óttuðust. Hann sá strákana í skólanum sem voru að selja eiturlyf og vissi að hann gæti auðveldlega ráðið við þá. Þrátt fyrir að nota engin eiturlyf gekk hann til liðs við gengi 14 ára og var markmiðið að vera „glæpakóngur“. Silva upplifði hvorki fátækt né skort og lifði ágætis lífi. Honum fannst glæpaheimurinn bara svo spennandi og sóttist í adrenalínið.

Eftir misheppnað vopnað rán var Silva sendur í grjótið. Hann fékk þó vægan dóm og hafði dómarinn trú á að hann gæti umturnað lífi sínu. Silva tók þá ákvörðun í fangelsinu að þarna myndi hann ekki eyða ævi sinni og ætlaði sér að verða heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu.

Annað tækifæri

Fljótlega eftir að hann losnaði úr fangelsinu fékk hann tækifæri á að flytja til Ítalíu til að kenna BJJ. Silva byrjaði að vinna til verðlauna á glímumótum og var boðið að þjálfa BJJ í London. Silva þáði boðið en til að auka tekjumöguleika sína sóttist hann eftir MMA bardögum. Silva hefur núna búið í London í 13 ár og verður því hálfpartinn á heimavelli þegar hann mætir Gunnari.

Eftir tap í sínum fyrsta atvinnubardaga þar sem hann var dæmdur úr leik vann hann níu bardaga í röð og fékk samning við UFC árið 2014. Silva vann fyrstu tvo bardaga sína árið 2014 (þar á meðal gegn Leon Edwards) en lenti síðan í erfiðum meiðslum sem héldu honum frá búrinu.

Fjórum sinnum þurfti Silva að fara undir hnífinn eftir að hafa fótbrotnað á báðum fótum. Hann meiddist einnig á tvíhöfða og áður en hann vissi af voru fjögur ár síðan hann barðist síðast. Silva var orðinn 105 kg, gat ekkert æft og hélt enginn að hann myndi nokkurn tímann berjast aftur. Fjölskylda og vinir hvöttu hann til að finna sér annan starfsvettvang en Silva var ákveðinn í að snúa aftur í búrið.

Silva náði á endanum að byrja að æfa aftur án meiðsla og fékk bardaga í maí 2018. Það voru ekki margir sem höfðu trú á Silva enda 35 ára gamall, ekki barist lengi og var þarna að mæta Nordine Taleb sem var á tveggja bardaga sigurgöngu. Öllum að óvörum sigraði Silva með hengingu í 1. lotu og fékk frammistöðubónus.

Silva hélt áfram að næla sér í sigra og var um tíma á fimm bardaga sigurgöngu. Silva gekk samt illa að fá andstæðinga á topp 15 til að mæta sér og kvartaði í fjölmiðlum að „UFC væri bara að gefa trúðum sem kýla gamla kalla á bar athygli“ og vísaði þar í atvikið þegar Conor McGregor kýldi eldri mann á bar.

Síðan þá hefur aðeins hallað undir fæti og hefur Silva tapað tveimur bardögum í röð. Hann hefur á síðustu árum tekið æfingabúðir sínar hjá American Top Team í Flórida en fyrir bardagann gegn Court McGee ákvað hann að dvelja í Brasilíu hjá Nova Uniao liðinu.

Þetta var í fyrsta sinn í yfir áratug þar sem hann heimsótti Rio de Janeiro og var hann sleginn yfir hungursneiðinni sem þar geysti í fátækum hverfum borgarinnar. Silva tók sig til og setti af stað söfnun sem skilaði sér í matarpökkum handa 600 fjölskyldum í borginni.

„Hvert sem ég fór sá ég börn leita að mat í ruslatunnum, líka gamalt fólk, ungt fólk, unglinga. Mig hefur aldrei skort neitt og ég gat ekki horft upp á þetta án þess að gera eitthvað. Að gefa mat er það besta sem ég hef gert og besta augnblik lífs míns. Betra en þegar ég samdi við UFC, betra en þegar ég fékk svarta beltið mitt, betra en allt. Þetta var kraftaverk,“ sagði Silva við MMA Fighting.

Aldrei verið kláraður

Claudio Silva er 14-3 á ferli sínum sem atvinnumaður. Af sigrunum 14 eru 9 eftir uppgafartak sem ætti ekki að koma á óvart enda svart belti í brasilísku jiu-jitsu.

Hann er ekki með neitt sérstaklega fallegan stíl en hann er mjög harður og það er erfitt að klára hann. Hann er ótrúlega seigur og hefur lent í því að vera sleginn niður en fljótlega komið sér í yfirburðarstöðu í gólfinu þrátt fyrir að vera vankaður.

Standandi er hann frekar villtur og opinn fyrir höggum. Hann er aggressívur og sparkar mikið enda hefur hann litlar áhyggjur af því að andstæðingarnir grípi sparkið og taki sig niður. Hann berst úr örvhentri stöðu og er ágætlega höggþungur en ekkert sérstaklega hraður.

Hann er með ágætis fellur og allt í lagi felluvörn en hann er hins vegar mjög góður í gólfinu. Ofan á er hann mjög þungur og mjakar sér hægt og rólega í góða stöðu til að ná uppgjafartakinu eða klárar með höggum. Þegar hann er tekinn niður er hann mjög ógnandi af bakinu. Hann er stöðugt að leita að „sweepi“ eða uppgjafartaki; annað hvort til að snúa stöðunni við til að komast ofan á eða til að standa aftur upp.

Í 17 atvinnubardögum hefur hann aldrei verið kláraður og það segir ýmislegt – sérstaklega þegar menn eru búnir að vera í UFC í rúm 7 ár.

Heimildir:

MMA Fighting
MMA Fighting
MMA Fighting

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular