Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaUFC staðfestir loksins bardaga Gunnars og Claudio Silva í London

UFC staðfestir loksins bardaga Gunnars og Claudio Silva í London

Gunnar Nelson er loksins kominn með sinn næsta staðfesta bardaga. Gunnar mætir þá Claudio Silva þann 19. mars en bardagakvöldið verður í London.

Gunnar Nelson er kominn með sinn fyrsta bardaga síðan í september 2019. Gunnar mætir Brasilíumanninum Claudio Silva í veltivigt. Vitað hefur verið um bardagann í nokkra daga en UFC staðfesti loksins bardagann í dag.

Bardaginn verður á UFC bardagakvöldinu í London þann 19. mars. UFC hefur ekki heimsótt Evrópu síðan kórónuveiran skall á og verða flest af stærstu nöfnum UFC í Evrópu á bardagakvöldinu. Bardagakvöldið verður í O2 höllinni í London en UFC hefur heimsótt höllina nánast árlega frá 2014.

Claudio Silva er 39 ára Brasilíumaður og hefur verið í UFC síðan 2014. Silva byrjaði UFC ferilinn mjög vel og vann fyrstu fimm bardaga sína en hefur nú tapað tveimur í röð. Eftir tap í frumraun sinni á ferlinum tókst Silva að vinna 14 bardaga í röð þar til hann tapaði fyrir James Krause í október 2020.

Líkt og Silva hefur Gunnar tapað tveimur bardögum í röð – gegn Leon Edwards og Gilbert Burns en báðir eru á topp 5 í veltivigtinni.

Gunnar hefur glímt við meiðsli sem hann varð fyrir skömmu fyrir bardagann gegn Burns en meiðslin ágerðust eftir glímu við Hafþór Júlíus á vormánuðum í fyrra. Gunnar hefur nú náð sér af meiðslunum og er spenntur fyrir því að mæta aftur í búrið.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular