spot_img
Thursday, November 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeBoxÍslendingar með 4 gull á POWR Box Cup

Íslendingar með 4 gull á POWR Box Cup

Hnefaleikafélög Hafnarfjarðar og Akraness héldu til Noregs um nýliðna helgi á hnefaleikamótið POWR Box Cup og koma klúbbarnir tveir heim með 4 gull, 2 silfur og 1 brons. Björn Jónatan Björnsson var valinn besti u17 boxari mótsins en hann kláraði báða andstæðinga sína.

Mótið var haldið í Lilleström, Noregi og kom í staðin fyrir Legacy Cup sem átti að vera sömu helgi en var aflýst með aðeins 10 daga fyrirvara. Björn Jónatan frá HAK og Hildur Kristín, Hafþór og Ágúst Hrafn frá HFH fengu gull. Kolbeinn Nói og Alejandro frá HFH fengu silfur og Róbert Smári frá HAK fékk brons.

Björn Jónatan Björnsson ætti að verða orðinn flestum hnefaleikaaðdáendum á Íslandi kunnugur en hann hefur sýnt það og sannað í gríð og erg að hann er einn besti og efnilegasti boxari landsins. Björn Jónatan átti meistaraframmistöðu á mótinu en hann kláraði báða andstæðinga sína. Þann fyrri tók hann út með skrokkshöggi og í úrslitunum mætti hann sigurvegara síns flokk frá HSK sem hann sló harkalega niður svo dómarinn þurfti að stöðva bardagann. Hann var jafnframt valinn besti u17 boxari mótsins. Margir eru eflaust orðnir spenntir að sjá hann á Icebox.

Hafþór Magnússon, sem er á sínu öðru ári í Elite (fullorðins) flokki fór beint í úrslit gegn sterkum andstæðingi sem var 9 árum eldri. Fyrsta lotan var erfið en í 2. og 3. lotu hakkaði Hafþór hann í sig að sögn þjálfara hans Arnórs Grímssonar. Hafþór var í umræðunni um besta Elite boxara mótsins en það var gefið til annars boxara sem færði sig upp um flokk og vann hann.

Hildur Kristín fór upp um 2 þyngdarflokka, í 60kg flokk, og mætti landsliðsstelpu frá Noregi í úrslitum. Hildur átti mjög sannfærandi frammistöðu og gjörsamlega útboxaði hana. Hildur Kristín vakti mikla athygli á síðasta bikarmóti í bardaga gegn Eriku Nótt sem hún tapaði á klofinni ákvörðun en margir voru ósammála dómnum. Sumir vilja eflaust sjá þær tvær mætast aftur í nákominni framtíð og gæti það vel gest á næsta bikar- og/eða Íslandsmeistaramóti, jafnvel á Icebox.

Ágúst Hrafn mætti heimastjörnu í úrslitum og allt húsið hélt með hinum stráknum. Það hafði þó ekki mikil áhrif á Ágúst Hrafn sem valtaði yfir hann og gaf dómarinn honum nokkrar talningar í bardaganum. Ágúst var ekki langt frá því að stoppa hann að sögn Arnórs þjálfara hans en það þarf ansi mikið til að taka andstæðing út í 50kg flokknum.

Alejandro Cordova frá HFH mætti mjög stórum og sterkum boxara í úrslitum en tapaði á stigum og fékk silfrið. Hann átti mikið af góðum þungum höggum en andstæðingur hans kýldi meira og náði að setja saman fleiri fléttur.

Kolbeinn Nói frá HFH átti mjög jafnan bardaga í úrslitum en tapaði á klofinni dómaraákvörðun og fékk silfrið.

Róbert Smári frá HAK barðist í undanúrslitum við sama andstæðing og hann mætti helgina á undan á mótinu í Hilleröd, Danmörku. Róbert stóð sig betur í seinni viðureigninni þó hann hafi þurft að sætta sig við tap í bæði skipti. Einhverjir héldu að hann hefði unnið þessa seinni viðureign og þar á meðal einn dómari en sigurinn fór 4-1 split í hitt hornið. Í bardaganum um bronsið mætti hann sama andstæðingi og hann tapaði fyrir í sumar á Romerike Open. Róbert kom út sem sigurvegari í þessari viðureign og kemur heim með bronsið. Greinilegt að hann er að sýna miklar bætingar.

Viktor Orri frá HAK tapaði mjög jöfnum bardaga í undanúrslitum gegn Noregsmeistara í Kickboxi. Viktor átti sín augnablik í bardaganum og sló m.a.s. andstæðing sinn niður en átti erfitt með óhefðbundnar hreyfingar hans og tapaði að lokum á klofinni ákvörðun. Viktor átti að berjast um bronsið á sunnudeginum en andstæðingur hans dróg sig út.

Almar Sindri frá HAK fékk mjög erfiðan flokk en stóð sig samt mjög vel. Andstæðingar hans voru báðir töluvert reyndari og tapaði hann bæði í undanúrslitum og í bardaganum um bronsið.

Frábær árangur í alla staði hjá hæfileikaríka hnefaleikafólkinu okkar!

https://www.minigardurinn.is/vidburdir

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular