Gunnar Nelson mætir Neil Magny á UFC bardagakvöldinu í Liverpool í maí. En hver er þessi Neil Magny og hvers konar maður er þetta?
Neil Magny er þrítugur Bandaríkjamaður sem hefur verið í UFC í fimm ár. Yfir þessi fimm ár hefur hann barist 18 bardaga sem er óvenju mikill fjöldi bardaga. Magny tók fimm bardaga árið 2014 (vann þá alla) og svo aftur fimm bardaga árið 2015. Magny hefur verið ófeiminn við að taka bardaga með skömmum fyrirvara og virðist alltaf verið til í að berjast.
Neil Magny var í langhlaupi á sínum yngri árum (sem útskýrir að hluta til hve gott þol hann hefur) og byrjaði að æfa MMA 17 ára gamall. Magny hafði engan bakgrunn í bardagaíþróttum þegar hann byrjaði í MMA. Magny fór í herinn eftir að hann byrjaði í MMA og var hann í hernum í sjö ár þar sem hann gat stundað bardagaíþróttirnar á meðan.
Magny var í 16. seríu The Ultimate Fighter þar sem hann komst alla leið í undanúrslit. Serían þótti reyndar afar slök og var fátt sem benti til að nokkuð yrði úr Neil Magny í UFC. Magny hafði sýnt að hann væri ágætis bardagamaður en virtist vera eins og enn einn TUF bardagamaðurinn sem fær 3-5 bardaga og hverfur svo af braut.
Svo var nú aldeilis ekki hjá Neil Magny. Það byrjaði reyndar brösulega hjá honum þar sem hann tapaði tveimur af fyrstu bardögum sínum í UFC en eftir það vann hann sjö bardaga í röð!
Eftir sjö sigra í röð mætti hann Demian Maia í Brasilíu. Eins og svo margir átti Magny litla möguleika gegn Maia og var hengdur í 2. lotu. Afar einhliða bardagi þar sem Maia sýndi yfirburði sína í gólfinu gegn Magny.
„Mér leið frábærlega fyrir bardagann. Ég átti frábærar æfingabúðir og fékk ég til mín frábæra glímumenn til að undirbúa mig fyrir Maia. Þegar ég var svo í búrinu með honum og fann fyrir pressunni frá Maia vissi ég Maia var bara á allt öðru getustigi,“ sagði Magny við MMA Junkie eftir bardagann.
Magny er auðmjúkur maður en nokkrum vikum eftir bardagann sá hann fyrir tilviljun auglýst jiu-jitsu námskeið með Maia nálægt hóteli sem hann dvaldi á. Magny fór á námskeiðið og lærði ýmislegt um gólfglímuna af sínum fyrrum andstæðingi. Magny spjallaði vel og lengi við Maia eftir námskeiðið og ljóst að þar á ferð eru tveir miklir heiðursmenn.
Magny hefur verið þekktur fyrir að vera oft mættur á æfingu strax á mánudegi eftir bardaga. Þá hefur hann oft tekið bardaga með skömmum fyrirvara eins og áður segir en aðeins þremur vikum eftir bardagann gegn Maia var hann mættur aftur í búrið gegn Erick Silva.
Magny byrjaði MMA ferilinn með Miguel Torres en æfir í dag hjá Team Elevation í Denver. Þar æfir hann hátt yfir sjávarmáli (sem hjálpar eflaust þolinu) með góðum þjálfurum á borð við Elliot Marshall, Nate Marquardt og Christian Allen. T.J. Dillashaw æfði þar um tíma og þá æfa menn þar eins og Curtis Blaydes, Matt Brown og Brandon Thatch en Gunnar sigraði Thatch á UFC 189 árið 2015.
Af 20 sigrum Magny hafa sex komið eftir rothögg og þrír eftir uppgjafartök. Hann er ekki með neinn svakalegan höggþunga, er enginn galdramaður í gólfinu og er ekki heldur einhver risastór glímumaður sem getur tekið alla niður. Hann er aftur á móti mjög jafn og góður á öllum vígstöðum. Magny er oft á tíðum afar vanmetinn bardagamaður en ferilskrá hans hefur sýnt að það er afar heimskulegt að vanmeta Magny. Hann er skynsamur í búrinu og nýtir lengdina sína vel sem getur valdið mönnum miklum vandræðum.
Magny er ekki einn af þeim sem reynir að rota menn strax eða drífa sig með bardagann í gólfið til að klára með uppgjafartaki. Hann setur upp mikinn hraða og leitast eftir að brjóta andstæðinginn niður líkamlega og andlega, hægt og rólega.