spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHverjir gætu komið í stað Thiago Alves?

Hverjir gætu komið í stað Thiago Alves?

Thiago Alves hefur þegar þurft að draga sig úr bardaga sínum gegn Gunnari Nelson. Sem stendur er verið að leita að næsta andstæðingi en skoðum þá sem koma til greina.

Við getum strax útilokað þá sem eru á topp 10 styrkleikalistanum í veltivigtinni. Gunnar datt af listanum eftir tapið gegn Leon Edwards, bardaginn er eftir aðeins 16 daga og því til lítils að vinna fyrir þá á þessum tímapunkti.

Aðrir á topp 15 eru annað hvort nýlega búnir að berjast eða eru þegar með bardaga nema Neil Magny. Veltivigtin er næststærsti þyngdarflokkur UFC með 96 bardagamenn á samningi. UFC gæti einnig boðið stórum léttvigtarmanni bardagann sem þarf ekki að skera niður þar sem stutt er í bardagann. Skoðum þá sem koma til greina.

Líklegastir:

Gilbert Burns: Bauð fram þjónustu sína fyrr í dag.

Siyar Bahadurzada: Mætir Ismail Naurdiev í Danmörku í september en UFC gæti viljað færa hann í stærri bardaga. Siyar var á sínum tíma spennandi bardagamaður í UFC en hefur gleymst þar sem hann tapaði lykilbardögum og var lengi meiddur. Naurdiev gæti fengið tækifærið en Siyar líklegri þar sem hann er stærra nafn. Báðir eru þeir líklegir til að geta náð þyngd í tæka tíð enda með bardaga sama dag. UFC hefur áður fært menn upp í stærri bardaga á sama kvöldi.

Neil Magny: Gunnar átti að mæta Magny í fyrra en þá meiddist Gunnar. Magny fékk tímabundið bann frá USADA en var í gær hreinsaður af sök. Gæti viljað stökkva strax á bardaga enda ólmur í að berjast. Hefur áður tekið bardaga með skömmum fyrirvara.

Koma til greina:

Michael Chiesa: Er að reyna að komast á topp 15 og telur sig geta unnið alla í veltivigtinni. Væri stór bardagi en vill kannski ekki taka næsta bardaga með skömmum fyrirvara.

Danny Roberts: Breti með tvö töp í röð. Gæti stokkið inn en vill mögulega ekki taka sénsinn.

Claudio Henrique da Silva: Er nokkuð óvænt 5-0 í UFC og er búsettur á Englandi. Stutt að fara fyrir hann.

Randy Brown: Vann í júní hefur verið að bæta sig. Gæti litið á þetta sem gott tækifæri.

Tim Means: Rotaður í mars, tapað þremur af síðustu fjórum. Gæti gert UFC greiða með því að stíga inn en gæti mögulega ekki viljað taka sénsinn þar sem annað tap gæti þýtt endalokin á hans ferli í UFC.

Erik Koch: Snéri aftur í júlí eftir langa fjarveru.

Michel Prazeres: Langt ferðalag fyrir Brassann. Berst oftast í Brasilíu.

Anthony Rocco Martin: Vann fjóra í röð en tapaði fyrir Demian Maia í maí.

Warlley Alves: Brassi sem var efnilegur á sínum tíma en dálítið gleymst. Mun sennilega berjast í Brasilíu næst.

Chad Laprise: Tvö töp í röð eftir rothögg, gæti viljað vanda sig hvaða bardaga hann tekur næst.

Bryan Barbarena: Tvö töp í röð einnig hjá honum en hefur áður stokkið inn með skömmum fyrirvara og staðið sig vel.

Alex Garcia: Ekki barist lengi en var spennandi á sínum tíma. Stór í veltivigtinni, gæti verið vesen að skera niður með skömmum fyrirvara.

Zak Ottow: Meðalmaður í UFC sem tapaði síðast í maí.

Curtis Millender: Var einu sinni orðaður við bardaga gegn Gunnari en er nú 3-2 í UFC, með tvö töp í röð og því kannski ekki í bestu stöðunni.

Dwight Grant: 3-1 í UFC og barðist síðast í apríl.

Alexey Kunchenko: Tapaði fyrir Gilbert Burns í ágúst. Rússinn gæti viljað berjast strax aftur.

Ólíklegir

Emil Weber Meek: Norðmaðurinn hefur lítið verið í sviðsljósinu undanfarið. Er skemmtilegur karakter en hefur tapað tveimur bardögum í röð. Barðist síðast í júlí 2018 og gæti verið að glíma við meiðsli. Þá þykir hann nokkuð stór fyrir veltivigtina og gæti verið erfitt að skera niður.

Geoff Neal: Einn sá efnilegasti í veltivigtinni. UFC sennilega með eitthvað plan fyrir hann.

Ramazan Emeev: 3-0 í UFC og lítur vel út. Var í millivigt og gæti sennilega ekki náð að skera niður á svo skömmum tíma.

Diego Sanchez: Samningur hans við UFC rann út eftir síðasta bardaga og hefur ekki endurnýjað ennþá.

Kevin Lee: Frumraun hans í veltivigt fór ekki sem skildi. Hefur verið að leita sér að nýjum bardagaklúbbi og kannski ekki í stöðu til að taka bardaga með stuttum fyrirvara akkúrat núna.

Alex Oliveira og Nicolas Dalby: Mætast í spennandi bardaga í Danmörku. Gunnar hefur þegar sigrað Oliveira og Dalby hefur æft með Gunnari. Þá vill UFC sennilega ekki setja tvo af vinsælustu bardagamönnum kvöldsins gegn hvor öðrum.

Li Jingliang: Kínverjinn vann nýlega stóran bardaga og vill fá andstæðing á topp 15.

Alan Jouban: Gunnar hefur þegar sigraði hann og myndi ekki græða neitt á því að mæta honum aftur.

Mike Perry: Var að gifta sig um síðustu helgi og er sennilega í brúðkaupsferð. Er þó nógu klikkaður til að hætta við það og taka bardagann.

Jordan Mein: Lítið barist undanfarin ár og hefur áður lagt hanskana á hilluna.

Alberto Mina: Lítið barist undanfarin ár, aðeins fjórir bardagar á fimm árum í UFC.

Nordine Taleb: Var rotaður um síðustu helgi.

Keita Nakamura: Reynslubolti frá Japan. Frekar ólíklegt að hann fái kallið, sennilega nokkrir aðrir á undan honum í röðinni.

Kenan Song: Barðist nýlega og hefur bara barist í Asíu í UFC.

Belal Muhammad: Barðist um síðustu helgi. Gæti svo sem viljað taka annan bardaga strax.

Sean Strickland: Meiddur.

Elizeu Zaleski dos Santos: Tapaði nýlega.

Muslim Salikhov: Barðist um síðustu helgi.

Takashi Sato: Tapaði um síðustu helgi.

Bartosz Fabinski: Meiddur.

Bradley Scott: Bann eftir fall á lyfjaprófi.

Laureano Starapoli: Meiddur

Með bardaga

Court McGee, Carlos Condit, Matt Brown, Ben Saunders, Mickey Gall, Sean Brady, James Vick, Niko Price, Sergio Moraes, James Krause, Jake Matthews, Rostem Akman, Alex Morono, Max Griffin, Dhiego Lima, Luke Jumeau, Lyman Good, Chance Rencountre, Hector Aldana, Dawid Zawada, Sergey Khandozhko og Michel Pereira.

Aðrir eru með of fáa bardaga til að koma til greina.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular