Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaIan Garry mætir á stóra sviðið í kvöld

Ian Garry mætir á stóra sviðið í kvöld

Um helgina mun Írinn Ian Garry stíga sín fyrstu skref í UFC. Hann kemur yfir í UFC sem ríkjandi veltivigtarmeistari í Cage Warriors.

Þrátt fyrir að vera einungis 23 ára hefur Ian Garry vakið mikla athygli innan MMA heimsins og náð sér í bardagaskorið 7-0. Samt hefur vegferð hans hingað til alls ekki verið dans á rósum og hafa sumir nú þegar misst trúna á honum.

Garry hefur verið allan sinn ferill sem atvinnumaður barist hjá Cage Warriros og litið mjög vel út í öllum bardögunum. Þá byrjaði hann að æfa box ungur að aldri en skipti yfir í MMA eftir að hann sá Conor McGregor í UFC og segist sjálfur ætla að verða næsti Conor.

Viku fyrir seinasta bardagann sinn í Cage Warriors sem var titilbardagi ​tilkynnti Garry að hann væri ekki lengur að æfa hjá Chris Fields í Team KF en hann hafði verið þar allan sinn ferill.  Þetta leiddi til þess hann var ekki með þjálfara í horninu sínu í bardaganum og þurfti hann að fá vin sinn til að vera í horninu.

Eftir bardagann sendi Team KF frá sér tilkynningu þar sem þeir sögðu að það hefði ekki verið auðvelt að henda Garry úr liðinu en þeir hefðu neyðst til þess. Garry var sakaður um ítrekuð agabrot og það væri ekki lengur hægt að þjálfa hann. Þá sögðu þeir einnig að þessi hegðun hefði byrjað þegar hann byrjaði með nýja umboðsmanninum sem er einnig kærasta hans. Hún er breska sjónvarpsstjarnan Layla Anna-Lee sem hefur meðal annars unnið fyrir UFC og Cage Warrirors. Þá er hún einnig 15 árum eldri en hinn ungi Garry og vilja sumir meina að hún sé að fylla hann af stjörnustælum.

Eftir þetta fluttu þau saman til Bandaríkjanna og hann fór að æfa í Sanford MMA í Flórída. Eitt og sér er þetta frábært skref fyrir hann að þróast sem bardagamaður en ástæða skiptanna er kannski ekki eins og best er á kosið þar sem þetta gefur í skyn að hann sé kannski ekki með hausinn alveg á réttum stað. Þrátt fyrir þetta er Garry að öllum líkindum að verða að betri bardagamanni á því að æfa með heimsmeisturum í Sanford frekar en að vera aðal maðurinn heima á Írlandi. 

Þegar fólk hugsar um evrópska bardagamenn sem koma upprunalega úr boxi reikna flestir með því að þeir sér hræðilegir á jörðinni. Það gildir ekki um Garry þar sem hann hefur sýnt frábæra takta í gólfinu og er einnig með svarta beltið í júdó.

Garry hefur verið duglegur að minna á sig á samfélagsmiðlum og UFC hafa líka verið að ýta honum í sviðsljósið. Þá gerði UFC kynningarmyndband um hann sem er alls ekki algengt að sé gert fyrir bardagamenn sem er að fara að taka sinn fyrsta bardaga fyrir samtökinn. Síðan mætti hann líka í langt stúdíóviðtal til Ariel Helwani í vikunni. Þannig það má segja að öll augu muna vera á honum um helgina.

Í kvöld mætir hann Bandaríkjamanninum Jordan Williams en það ætti ekki að vera of stórt skref fyrir hann því að Garry hefur áður barist við betri andstæðinga á pappír. Garry ætti líklega að klára bardagann snemma en ef ekki er hann líka með góðan bensíntank þar sem hann fór fimm lotur í seinasta bardaganum sínum í Cage Warriors og leit bara vel út. Þannig það er ólíklegt að bensínið verði búið hjá honum ef hann nær ekki að klára Williams snemma.

Það er mjög erfitt að spá fyrir um hvernig honum muni ganga í UFC en hann hefur barist við góða bardagamenn hingað til þrátt fyrir að vera bara með sjö bardaga. Einnig virðist UFC hafa mikla trú á honum þar sem þeir setja hann beint á stórt kvöld í MSG og vona að hann sanni sig.

Það kæmi mjög að óvart ef við sjáum Garry ekki berjast ofarlega í UFC á næstu árum. Mögulega hefði hann getað verið aðeins lengur utan UFC þar sem það eru tæp þrjú ár síðan hann barðist sinn fyrsta atvinnubardaga. Hann er ennþá grænn á bakvið eyrun og UFC á það til að henda mönnum strax í djúpu laugina en þá er bara að vona að hann sé nægilega syntur. Garry er með öll réttu spilin á hendi og núna er það bara að spila skynsamlega úr þeim.

Sævar Helgi Víðisson
Sævar Helgi Víðisson
- Fjölmiðlafræðinemi - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Langt leiddur MMA aðdáandi
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular