Fjaðurvigtarmeistarinn Ilia Topuria hefur ákveðið að sleppa beltinu lausu og færa sig upp í léttvigtina. Þetta staðfestu UFC og Dana White núna í morgunsárið. Ilia ætlar að berjast í léttvigtinni í framtíðinni og mun vera í þeirri deild varanlega. Ilia hefur upp á síðkastið talað um að færa sig upp um deild en það var óljóst hvort hann myndi láta verða af því enda var Ilia búinn að staðfesta að mæta Volkanovski aftur. UFC virðist vera búið að greiða úr öllum flækjustigum sem tengjast tilfærslu Topuria og fundu nýjan andstæðing handa Volkanovski.
Alexander Volkanovski mun mæta Diago Lopes þann 13. apríl á UFC 314 upp á fjaðurvigtarbeltið. Alexander Volkanovski var byrjaður að æfa fyrir bardagann gegn Topuria áður en fréttirnar um að Topuria hafði flutt sig um deild bárust. Volkanovski er þessa stundina í Bangtao, Tælandi ásamt Aljamain Sterling og Craig Jones. Petr Yan er vissulega líka á svæðinu en þeir virðast ekki vera að æfa sérstaklega saman samkvæmt heimildarmanni MMA Frétta. Miðað við undirbúningstímann og teymið sem Volkanovski hefur í kringum sig er greinilegt að hann ætlar að leggja allt í sölurnar og sækja beltið sitt aftur.
UFC virðist hafa spilað vinsældarleikinn þegar þeir ákváðu að gefa Diago Lopes tækifæri til að vinna beltið fram yfir Movsar Evloev. Lopes og Evloev mættust í maí 2023 þar sem Evloev sigraði með dómaraákvörðun en Lopes vann hug og hjörtu áhorfenda eftir að hafa tekið bardagann við Evloev með stuttum fyrirvara og verið mjög nálægt því að sigra hinn ósigraða Rússa með uppgjafartaki nokkrum sinnum í bardaganum.

En hvað með Ilia Topuria, hverjum á hann að mæta næst? Góð spurning – en svarið hlýtur að vera Islam Makhachev. Islam fór létt með Renato Moicano í janúar en hann hefur hingað til farið nokkuð þægilega í gegnum léttvigtardeildina. Hann er með 4 performance of the night bónusa úr síðustu 5 bardögum sem titilhafi.
Það er því spurning hvort að Ilia Topura fái að fara beint í titilbardaga í nýrri deild eða hvort að hann taki einn tune up bardaga til að venjast nýjum þyngdarflokki og stærri strákum eða hvort að UFC ákveðið að henda Topuria beint í gryfjuna gegn Islam.