Conor McGregor er sagður hafa kýlt föður hættulegs glæpamanns í barslagsmálum á dögunum. Þetta hefur aðeins verið orðrómur hingað til en nú hefur írskur blaðamaður sagt að Conor sé í mikilli hættu.
Paul Williams er írskur rannsóknarblaðamaður sem skrifað hefur bækur og gert heimildarþætti um afbrotaheiminn á Írlandi. Í útvarpsþætti sínum segir hann að Conor McGregor sé í mikilli hættu eftir barslagsmál á dögunum.
Conor McGregor á að hafa kýlt tvo menn á sunnudagskvöldið á bar í Dublin. Annar þeirra er pabbi þekkts glæpamanns að nafni Graham ‘The Wig’ Whelan. Whelan er hluti af Kinahan mafíunni sem þykir sérstaklega hættuleg. Háværir orðrómar hafa verið á lofti á samfélagsmiðlum um slagsmálin og sérstaklega á eyjunni grænu. Conor á að hafa óvart kýlt pabba Whelan í miðjum átökunum.
Í útvarpsþætti sínum, Newstalk Breakfast, í morgun sagðist Williams geta staðfest atburði helgarinnar. Williams er þekktur á Írlandi en er umdeildur svo taka ætti orð hans með ákveðnum fyrirvara.
„Ef ég set mig í spor afbrotafréttamannsins eins og hér áður fyrr get ég sagt að Conor McGregor er í mikilli hættu eins og er. Hann er óvart kominn í átök við hóp af mjög hættulegu fólki sem tengist Kinahan fjölskyldunni. Þessu fólki er alveg sama hver Conor McGregor er, fyrir hvað hann stendur og hversu valdamikill hann er. Þeir munu draga hann niður í ræsið,“ sagði Williams.
„Mér skilst að Conor hafi mögulega flúið land en ef hann er enn á landinu mun lögreglan ná tali af honum þar sem öryggi hans er ógnað. Conor er í mikilli hættu samkvæmt mínum heimildum. Hann er kominn í átök við mjög, mjög hættulega einstaklinga eða menn sem tengjast hættulegum mönnum. Þetta gæti ógnað öryggi hans og jafnvel lífi og þetta segi ég ekki af léttúð.“
„Þið verðið að hafa í huga að þessum mönnum er sama þó þú sért heimsfræg íþróttastjarna. Þeir hafa engin takmörk, þeir munu skjóta þig eða meiða þig.“
Eins og áður hefur komið fram eru þetta einungis sögusagnir. Þó nokkrir írskir miðlar byrjuðu að greina frá sögusögnunum í gær og töluðu þá um að þekkt íþróttastjarna (e. celebrity) ætti hlut í máli. Í gær póstaði Conor svo neðangreindu myndskeiði þar sem hann kallar sig „The celebrity“.
Hinar ýmsu sögusagnir hafa farið á kreik á borð við að Conor McGregor verði að greiða 900.000 evrur (tæpar 111 milljónir íslenskra króna) til að sættir náist. Tökum það þó fram, enn og aftur, að allt eru þetta einungis sögusagnir og taka skuli orðum Williams með fyrirvara.