Israel Adesanya mætir Paulo Costa á laugardaginn í aðalbardaga kvöldsins á UFC 253. Adesanya er spenntur fyrir áskorun helgarinnar og kemur fullur sjálfstrausts í bardagann.
Barist er um millivigtartitilinn en þetta verður önnur titilvörn Adesanya. Báðir eru ósigraðir en þetta er aðeins í annað sinn sem tveir ósigraðir mætast í titilbardaga í karlaflokki UFC.
Mikil spenna ríkir fyrir bardaganum og vilja margir meina að þetta sé stærsti bardagi í sögu millivigtarinnar en því er Adesanya ósammála.
„Ég veit að þetta er stór bardagi og ég mun gera vel en að mínu mati er þetta bara eins og hver annar bardagi. Hann er ekki með nógu sterka ferilskrá. Hann vann gamlan Johny Hendricks, vann Uriah Hall sem gerði vel gegn honum en brotnaði á endanum og Yoel Romero sem er á útleið,“ sagði Adesanya við fjölmiðla í gær.
Adesanya er 19-0 á meðan Costa er 13-0 en þeir hafa eldað grátt silfur saman um nokkurt skeið. Það fór þó nokkuð vel á með þeim þegar þeir hittust á dögunum á bardagaeyjunni.
„Ég fór til hans til að finna orkuna hans. Ég klappaði honum á öxlina til að finna hversu þykkur hann er. Tók í höndina hans til að finna styrkinn en hann sagði áður að hann myndi ekki taka í höndina á mér ‘þegar hann vinnur mig’. Hann er eins og geltandi hundur í taumi en þegar honum er sleppt verður hann hræddur.“
Paulo Costa hefur litið vel út í UFC og unnið alla fimm bardaga sína þar. Costa er mjög stór fyrir millivigtina en Adesanya segir vöðvana blekkja.
„Ekki misskilja mig, þetta er mikilvægur bardagi. Þetta verður frábær sýning. Þetta gæti verið bardagi ársins en bara ef Paulo er nógu harður til að endast fimm lotur með mér. Ég held að þolið hans endist ekki.“
„Fólk blekkist af vöðvum og heldur að svona eigi bardagamaður að líta út, sérstaklega aðdáendur sem fylgjast ekkert rosalega vel með. Þegar þeir sjá horaða trúðinn berja vöðvastælta bjánann munu þeir verða agndofa.“