UFC 249 fer fram í Jacksonville í Flórída í kvöld. Jacare mun hins vegar ekki berjast þar sem hann hefur verið greindur með kórónaveiruna.
UFC verður með sitt fyrsta bardagakvöld síðan 14. mars í kvöld. Bardagasamtökin hættu við fjölmörg bardagakvöld á síðustu vikum en fengu grænt ljós á að halda UFC 249 í Flórída í kvöld.
UFC var með ýmsar ráðstafanir til að koma í veg fyrir smit en nú hefur Ronaldo ‘Jacare’ Souza verið greindur með veiruna. Jacare átti að mæta Uriah Hall í millivigt en hætt hefur verið við bardagann.
Allir bardagamenn kvöldsins voru skimaðir fyrir veirunni er þeir komu á hótel bardagamanna á miðvikudaginn. Í gær kom í ljós að Jacare og báðir hornamenn hans væru með veiruna en þeir hafa yfirgefið hótelið og verið færðir í einangrun.
Þegar Jacare mætti á hótelið á miðvikudaginn greindi hann frá því að fjölskyldumeðlimur sem hann hefði verið í návígi við hefði greinst með veiruna. Jacare var með grímu og hanska í vigtuninni í gær en nú er spurning hvort hann gæti hafa smitað fleiri bardagamenn sem eiga að berjast í kvöld. Aðrir bardagamenn hafa ekki greinst með veiruna.
“Isolated” pic.twitter.com/fJaIsiuB0Y
— Austin Price (@AJPrice803) May 9, 2020
Bardagakvöldið verður á sínum stað í kvöld og verða 11 bardagar á dagskrá í stað 12.