spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJapanska goðsögnin Kid Yamamoto látinn

Japanska goðsögnin Kid Yamamoto látinn

Mynd: Jayne Kamin-Oncea-USA TODAY Sports

Japanska goðsögnin Norifumi ‘Kid’ Yamamoto er fallinn frá. Yamamot lést úr krabbameini í nótt en hann var aðeins 41 árs.

Dave Meltzer fór stuttlega yfir feril Kid Yamamoto en hann var sannkölluð ofurstjarna í Japan á sínum tíma þegar MMA var upp á sitt besta þar í landi. Yamamoto tilkynnti á Instagram í ágúst frá baráttu sinni við krabbamein en hann var á spítalanum í Guam þegar hann lést.

Yamamoto var risastjarna í Japan á sínum tíma, þekkt andlit, giftur ofurmódeli frá Japan og fékk stóra styrktarsamninga. Hann kom frá mikilli glímufjölskyldu en pabbi hans, Ikuei Yamamoto, keppti á Ólympíuleikunum í Munich árið 1972 í glímu. Þá átti hann tvær eldri systur sem báðar urðu margfaldir heimsmeistarar í ólympískri glímu.

Þar sem Norifumi var yngstur í fjölskyldunni var hann alltaf kallaður ‘Kid’ Yamamoto. Það nafn hélst við hann alla tíð. Á grunnskólaárum sínum var hann sendur í skóla til Arizona til að æfa með Townsend Saunders, silfurverðlaunahafa frá Ólympíuleikunum 1996. Yamamoto vann þrjá ríkistitla í Arizona en hætti í glímunni til að fara í MMA. Hann byrjaði að æfa með Enson Inoue sem var á þeim tíma stór MMA stjarna í Japan og giftur systur Norifumi.

Pabbi hans var ekki sáttur með ákvörðun sonarins í fyrstu enda var það draumur hans að sjá son sinn ná gullinu á Ólympíuleikunum. Yamamoto barðist lengst af í fjaðurvigt og léttvigt þar sem hann var oftast minni en andstæðingarnir. Yamamoto vann á sínum tíma 14 bardaga í röð og kláraði 12 af þeim með rothöggi eða uppgjafartaki. 34 milljónir manns horfðu á kickbox bardaga hans gegn Masato en Yamamoto var talsvert léttari og Masato töluvert reyndari í kickboxi. Yamamoto var einfaldlega stærsta MMA stjarnan í Japan árið 2005. Hann vann svo léttvigtarmót Hero bardagasamtakanna þar sem hann kláraði Royler Gracie, Caol Uno og Genki Sudo – alla með rothöggi. Þá var fljúgandi hnéð hans eftir örfáar sekúndur gegn Kazuyuki Miyata magnað!

Hápunkturinn var svo þegar hann sigraði Rani Yahya (sem nú berst í UFC) fyrir framan 47 þúsund manns í Osaka Dome höllinni í Japan. Eftir sigurinn tilkynnti hann óvænt þá ákvörðun sína að hætta í MMA.

Yamamoto hætti í MMA til að reyna að ná í gull á Ólympíuleikunum árið 2008. Ólympísk glíma fær ekki mikla athygli í Japan en tilraun hans til að komast á Ólympíuleikana hlaut mikla athygli í Japan. Draumurinn varð þó ekki að veruleika þar sem Yamamoto meiddist á olnboga og hné í undirbúningnum. Það má segja að Yamamoto hafi aldrei orðið sá sami eftir meiðslin.

Yamamoto snéri aftur í MMA árið 2009 en náði ekki sömu hæðum. Yamamoto fékk samning við UFC árið 2011 og var mikil spenna fyrir komu hans. Hann náði aldrei í sigur í UFC og tapaði fyrir Demetrious Johnson í fyrsta bardaga sínum í UFC. Hann barðist síðast árið 2015 en endaði á að tapa fimm af síðustu sjö bardögum sínum og endaði ferilinn með bardagaskorið 18-6 (2 bardagar dæmdir ógildir).

Eins og áður segir lést Yamamoto í nótt og voru margir sem minntust hans á samfélagsmiðlum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular