Joe Rogan fékk Jeff Novitzky í hlaðvarpið sitt í gær til að fræðast meira um hið undarlega mál Jon Jones. Jeff Novitzky útskýrði ákvörðun USADA og hvers vegna Jon Jones fær að keppa á laugardaginn.
Jeff Novitzky er yfirmaður heilsu og frammistöðu íþróttamanna í UFC og kemur að öllum lyfjamálum UFC. USADA sér um öll lyfjamál UFC en Novitzky vinnur ekki fyrir USADA heldur UFC.
Örlítið magn af anabólíska steranum turinabol fannst í lyfjaprófi Jon Jones fyrr í desember. USADA telur að efnið komi ekki frá nýjum skammti heldur séu einungis leyfar fyrir efnið sem fannst í lyfjaprófinu í júlí 2017 sem Jones hefur þegar fengið bann fyrir. Jones mætir Alexander Gustafsson á morgun í aðalbardaga UFC 232 um lausan titil í léttþungavigt. UFC 232 var fært frá Nevada til Kaliforníu vegna lyfjaprófsins í desember þar sem íþróttasambandið í Nevada taldi sig ekki geta rannsakað málið á svo skömmum tíma.
Eitt það áhugaverðasta sem Jeff greindi frá í hlaðvarpinu var sú staðreynd að sama efni hafi komið á öðrum lyfjaprófum fyrr á þessu ári. Anabólíski sterinn turinabol fannst í lyfjaprófi Jon Jones nú í desember en fannst einnig á öðrum lyfjaprófum fyrr á árinu. Jones hefur verið tekinn í 10 lyfjapróf á þessu ári af USADA. Turinabol hefur fundist í örlitlu magni á nokkrum lyfjaprófum Jones á þessu ári:
9. ágúst: Ekkert fannst
29. ágúst: 8 píkógrömm fundust
18. september: 19 píkógrömm fundust
21. september: Ekkert fannst
2. október: Ekkert fannst
11. október: Ekkert fannst
14. nóvember: Ekkert fannst
9. desember: 60 píkógrömm fundust
Novitzky sagði að USADA hefði snemma sett sig í samband við helstu sérfræðingana í lyfjamálum til að vita nánar um þessar niðurstöður í lyfjaprófum Jon Jones. Allir sögðu þeir að magnið hjá Jones væri sáralítið og bara leyfar af efninu sem Jones tók þegar hann féll á lyfjaprófi í júlí 2017. Samkvæmt sérfræðingunum sem USADA hafði samband við var ekkert sem benti til þess að Jones hefði tekið annan skammt og að magnið væri svo lítið að efnið væri ekki frammistöðubætandi.
Eins og áður segir var bardagakvöldið fært frá Nevada til Kaliforníu og fer nú fram í Los Angeles en ekki Las Vegas eins og til stóð. Jeff segir að það ríki ákveðinn misskilningur í umræðunni um ákvörðun NAC (íþróttasamband Nevada fylkis). „NAC sagði ekki að bardaginn gæti ekki farið fram hjá þeim. Þeir vissu að þetta liti ekki vel út en vildu hafa opinbera yfirheyrslu til að gæta gagnsæis enda er þetta virkilega undarlegt,“ sagði Jeff. NAC gat ekki tekið málið fyrir svo skömmu fyrir bardagakvöldið og þarf Jones að mæta fyrir nefndina í janúar. Bardaginn fer því fram í Kaliforníu þar sem CSAC (íþróttsamband Kaliforníu ríkis) mun hafa yfirumsjón yfir bardagakvöldinu. CSAC hefur verið með mál Jon Jones hjá sér frá því hann féll á lyfjaprófi þar í júlí 2017.
„Önnur fylki hafa stutt ákvörðun CSAC og styðja niðurstöðu USADA að þó efnið hafi fundist á þremur lyfjaprófum síðan í ágúst bendi það ekki til þess að Jones hafi tekið inn annan skammt. Þetta séu einungis langtímaleyfar frá fyrra lyfjamisferli Jones.“
USADA og Jeff hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir þeirra ákvörðun í málinu – bæði af bardagamönnum og aðdáendum.
„Ég er enginn sérfræðingur og reyni ekki að þykjast vera það. Bakgrunnur minn er í fjármálum og endurskoðun. Í gamla daga var ég að rekja peninga en ég veit hverjir helstu sérfræðingarnir í heiminum eru og við töluðum við þá. Þeir setja sitt orðspor að veði og greina frá sínu sérfræði áliti skriflega. Þeir myndu ekki gera eitthvað slíkt af því að UFC eða USADA borgar þeim eða af því Jon Jones er svo vinsæll bardagamaður og þeir vilja sjá hann berjast um helgina. Þannig virkar þessi heimur ekki. Slíkir sérfræðingar eru mjög, mjög varfærnir þegar kemur að því að tala á algildan hátt [um niðurstöður lyfjaprófs] eins og nú. Þeir gera það yfirleitt ekki. Þessir sérfræðingar segja að miðað við hve magnið er lítið er þetta ekki að bæta frammistöðu og það er mikilvægur punktur. Ef það væru einhver ummerki þess að þetta myndi bæta frammistöðu hans [og Jones fengi samt að keppa] myndi ég hætta hjá UFC á stundinni.“
Novitzky sagði enn fremur að lítið sé vitað um langtíma leyfar af efninu og hvers vegna þetta sést á sumum lyfjaprófum en ekki öðrum. Vísindin séu einfaldlega ekki komin nógu langt til að skilja hvað valdi þessum niðurstöðum. Hugsanlega má rekja þetta til þess að Jones er að skera niður fyrir bardaga og þannig finnst efnið frekar. Hann þvertók einnig fyrir það að Jones gæti verið að taka efnið í örskömmtum (e. micro-dosing) þar sem turinabol sé ekki tekið í þessum örskömmtum. Örskömmtun er yfirleitt gerð með innbyggðum efnum sem eru þegar í líkamanum eins og testósterón en ekki með utanaðkomandi efnum eins og turinabol.
Novitzky sagði að Jones væri ekki eini íþróttmaðurinn sem hefur lent í þessu og segir að þetta hafi áður gerst í öðrum íþróttum og þar á meðal Ólympíuleikum. Grant Dawson er á samningi hjá UFC en hefur ekki enn barist en hann virðist hafa lent í því sama að sögn Novitzky.
Magnið sem hefur fundist í lyfjaprófum Jon Jones er í píkógrömmum en eitt píkógramm er einn trilljónasti úr grammi. Novitzkysegir að vísindin á bakvið mælingar í píkógrömmum séu tiltölulega ný af nálinni og alltaf séu skekkjumörk um 20 píkógrömm. Þetta séu því ónákvæm vísindi eins og er.
„Förum varlega í að skoða hvers vegna Jon hoppar frá 20 píkógrömmum og upp í 60 frá september og til desember. Það er svo lítið magn en ef við værum að sjá Jon hoppa frá 8-9 píkógrömmum og upp í mörg hundruð værum við að tala um allt annað og það gæti verið merki um nýjan skammt. En þeir sérfræðingar sem við höfum talað við segia að breytileiki upp á 10, 20, 30 eða 40 sé ekki það mikið í píkógrömmum.“
Þrátt fyrir að magnið sé lítið sem fannst í lyfjaprófinu nú í desember er engu að síður ólöglegt efni að finnast í lyfjaprófi Jon Jones. Jones fékk á endanum 15 mánaða bann þegar svipað magn fannst á lyfjaprófi hans í júlí 2017. Jones er hins vegar ekki að fá bann núna þar sem Jones hefur þegar verið refsað fyrir þennan sama skammt að mati USADA. Þar sem USADA telur að Jones hafi ekki tekið nýjan skammt af efninu er ekki hægt að refsa honum tvisvar fyrir sama brotið (double jeopardy). USADA telur að Jones hafi þegar verið refsað fyrir inntöku á efninu með 15 mánaða banninu sem hann nýlega afplánaði enda telur USADA að hann hafi ekki tekið nýjan skammt af efninu. Það er þó ekki þar með sagt að Jones geti alltaf tekið inn turinabol því ef USADA finnur að Jones hafi tekið inn nýjan skammt af turinabol fær hann bann.
Spjall Joe Rogan og Jeff Novitzky má heyra í þættinum hér að neðan.