Skoska bardagakonan Joanne Calderwood mætir Maryna Moroz á UFC bardagakvöldinu í Póllandi. Þetta verður í fyrsta sinn sem UFC heldur viðburð í Póllandi og er bardagakvöldið nánast fullmannað.
Joanne Calderwood (9-0) var meðlimur í 20. seríu The Ultimate Fighter þar sem 16 konur í strávigt kepptust um að verða fyrsti strávigtarmeistari UFC. Hún dvaldi hér á landi í síðustu viku við æfingar í Mjölni en í samtali við MMA Fréttir vonaðist hún eftir að fá bardaga á bardagakvöldinu í Póllandi. Viðtalið við hana mun birtast á næstu dögum.
Calderwood mætir Maryna Moroz (5-0) en sú hefur sigrað fjóra bardaga með “armbar” og ætti því að vera nokkuð sterk í gólfinu. Þetta verður fyrsti bardagi Moroz í UFC en hún hefur m.a. barist í Rússlandi, Brasilíu og Kína.
Það má leiða af því líkur að Calderwood fái sterkan andstæðing á bardagakvöldinu í Skotlandi (18. júlí) takist henni að sigra Moroz.