spot_img
Tuesday, November 5, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJohn Kavanagh: Þarft að vera tilbúinn í allar áskoranir á þessu stigi

John Kavanagh: Þarft að vera tilbúinn í allar áskoranir á þessu stigi

Mynd: Snorri Björns.

John Kavanagh verður í horninu hjá Gunnari Nelson þegar Gunnar berst við Gilbert Burns á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn. John segir að Gunnar verði að vera aggressívur frá byrjun bardagans.

Þeir John Kavanagh og Gunnar Nelson hafa þekkst frá því Gunnar var um 17 ára gamall. John hefur alltaf verið í horninu hjá Gunnari í bardögum hans en fyrir bardagann gegn Leon Edwards var John ekki á staðnum. John var með bardagamann í Singapúr á föstudagskvöldinu en þegar seinkun varð á flugi hans komst John ekki í tæka tíð.

„Ég endaði á að horfa á bardagann aleinn í símanum mínum, fastur á lestarstöð, ekki svo langt frá höllinni. Það var hrikalegt að vera svona nálægt en samt svo langt í burtu,“ sagði John í viðtali við MMA Fréttir.

„Ég fékk mikla gagnrýni og hatur frá Íslendingum. Ég var að bíða eftir að þeir kæmu vígbúnir á bát upp Dublin ánna, fullur bátur af víkingum að ráðast inn í bardagaklúbbinn minn,“ sagði John og hló.

John verður með tugi bardagamanna á Bellator bardagakvöldinu í Dublin daginn fyrir bardaga Gunnars og kemur því til Kaupmannahafnar sama dag og bardaginn fer fram. „Ég syndi ef þess þarf en ég verð kominn í tæka tíð.“

Gunnar tapaði bardaganum gegn Edwards eftir klofna dómaraákvörðun. Bardaginn var tæpur og þegar síðasta lota kláraðist var Gunnar ofan á í kjörstöðu en góður endasprettur dugði ekki til.

„Ég og Dave Roche [þjálfari hjá SBG] höfum alltaf sagt að Gunni hefði verið fullkominn fyrir MMA eins og það var fyrst. MMA af gamla skólanum þar sem voru engir þyngdarflokkar og engin tímamörk. Ég held að hann myndi vinna alla ef reglurnar væru þannig því þannig er hans nálgun á bardaga. Gunni hefði getað flýtt sér aðeins meira að koma sér úr vandræðum í 1. lotunni en það er eins og hann sé alltaf að pæla. Hann hefur gaman af því að vera þarna, skoða stöðurnar vel, pæla og vera ekkert að flýta sér því hann getur haldið endalaust áfram og lítið spáð í tímanum. En í raunveruleikanum eins og leikurinn er gerður eru þetta bara þrjár fimm mínútna lotur og þú þarft að klára þitt.“

Gunnar vann 3. lotuna hjá öllum dómurum og Edwards vann 2. lotuna hjá öllum dómurum. Dómararnir þrír voru þó ósammála um 1. lotuna en tveir gáfu Edwards þá lotu sem skilaði Edwards sigrinum.

„Gunni var með mikla yfirburði í 3. lotu í samanburði við 1. lotuna til dæmis. Ef Gunni hefði flýtt sér aðeins meira í 1. lotu, unnið sig strax upp þegar Edwards var fyrir aftan hann þá værum við að tala um annan sigur í dag. Kannski snýst þetta meira um herkænsku þar sem hæfileikarnir eru til staðar. Núna er hann kominn með síðasta púslið sem er styrktar- og þrekþjálfunin með Unnari. Nú þarf hann bara að vera aggressívari frá byrjun og pressa allan tímann.“

Gunnar Nelson Gilbert Burns

Gunnar átti upphaflega að mæta Thiago Alves en þegar Alves datt út kom Gilbert Burns í staðinn. Burns er allt öðruvísi andstæðingur en Alves.

„Í fyrsta lagi er þetta svo mikil breyting á stíl andstæðinga að það hefði næstum því verið réttlætanlegt að hafna Burns. Og þá mögulega að bíða eftir öðrum andstæðingi sem væri líkari Thiago Alves eða jafnvel fresta þessu alveg og bíða eftir öðru bardagakvöldi hjá UFC.“

„En þegar uppi er staðið er Gunni UFC bardagamaður og hann er vel þjálfaður, í góðu formi og það vel undirbúinn að það skiptir ekki máli hver andstæðingurinn er. Þetta er bardagi sem er nálægt heimahögum, eins nálægt og hægt verður, hann er ofarlega á bardagakvöldinu, er að koma af tapi og þarf sigur. Svo þú þarft bara að samþykkja og hafa nógu mikla trú á hæfileikum þínum þó þú sért að fara í gjörólíkan andstæðing heldur en þú upphaflega gerðir ráð fyrir. Þú þarft að vera tilbúinn í allar áskoranir á þessu stigi.“

Gunnar og Burns eru báðir glímumenn í heimsklassa með samanlagt 21 sigur í MMA eftir uppgjafartök. Oft þegar frábærir glímumenn mætast fer bardagann að miklu leyti fram standandi.

„Það er fyndið hvernig það gerist stundum þegar við fáum tvo frábæra glímumenn og þurfum að sjá þá í kickbox bardaga í MMA. Glíman hjá þeim er mjög svipuð að mínu mati. Við sjáum pottþétt einhverja glímu á milli þeirra en standandi held ég að Gunni sé betri. Mér finnst hann aðeins skarpari standandi en Gilbert er mjög höggþungur og kraftmikill. Gunni er með mikla reynslu í standandi viðureign, hafandi þennan karate bakgrunn á meðan Gilbert hefur ekki eins mikla reynslu í kickboxi eða striking.“

Burns kemur inn með aðeins tveggja vikna fyrirvara en Gunnar hafði undirbúið sig fyrir Alves í rúma tvo mánuði. Þegar svo skammt er í bardagann er erfitt að gera stórar breytingar á undirbúningnum og fá nýja æfingafélaga inn sem líkjast andstæðingnum.

„Gunnar er heppinn að því leyti að hann hefur alltaf æft allar hliðar leiksins, óháð andstæðingum, og er ekki of mikið að einblína á hvað andstæðingurinn gerir. Auðvitað vorum við að vinna í ákveðnum hlutum sem Thiago Alves gerir vel eins og öflugt hægra spark en Gunni hugsar meira um hvað hann ætlar að gera heldur en það sem andstæðingurinn ætlar að gera. Núna þarf Gunnar að venjast því að nú fer hann á móti manni sem er ekki mikið stærri en hann, sennilega minni. Flestir andstæðingar Gunna eru stærri og þyngri eins og Rick Story og Zak Cummings. Hann þarf því að vera tilbúinn fyrir minni mann sem er með minni háls, öðruvísi að ná taki á þeim, hraðari en fyrri andstæðingar og þú þarft því að vera tilbúinn fyrir það.“

Eins og áður hefur komið fram er Gilbert Burns ekki að koma inn í þennan bardaga beint af sófanum. Burns átti að keppa á ADCC, sterkasta glímumót í heimi, sömu helgi og ætti því að vera í hörku formi. „Hann hefur sennilega verið að glíma mikið út af ADCC en það er líka stutt síðan hann barðist í MMA. Hann barðist síðast þann 10. ágúst og hefur sennilega æft vel síðan þá.“

„Ég deildi klefa með honum baksviðs á UFC bardagakvöldinu í Vancouver um síðustu helgi. Ég var að undirbúa Brad Katona og hann var með Chas Skelly. Það var fyndið að deila dýnunum með honum en hann leit út fyrir að vera í mjög góðu formi, virðist ekki eiga við nein meiðsli að stríða frá síðasta bardaga þannig að ég held hann komi inn í frábæru formi fyrir þennan bardaga.“

Fyrir þennan bardaga eyddi Gunnar rúmum mánuði á Írlandi þar sem hann æfði hjá SBG í Dublin. „Það var frábært að hafa hann hér, við gerðum ekki mikið saman fyrir Leon Edwards bardagann en núna höfum við unnið mikið saman.“

„Mjölnir er auðvitað frábær bardagaklúbbur með marga frábæra bardagamenn þar en það er bara ekki nógu mikil dýpt af æfingafélögum sem eru með mikla reynslu í MMA. Þegar Gunni kemur hér er hann yfirleitt gegn mönnum sem eru með yfir 10 atvinnubardaga. Það er líka gott fyrir hann að fá ólíkar týpur af skrokkum, hann er kannski vanari strákunum á Íslandi. Það er gott fyrir hann að breyta aðeins til og gott fyrir mig að fá meiri tíma með honum.“

„Þegar hann var hér sá ég líka hvað styrktar- og þrekþjálfunin hjá honum hefur gert honum gott. Það er eitthvað sem gerist ekki á nokkrum vikum, þetta er eitthvað sem gerist á ári og maður sér það núna. Þetta hefur verið upp og ofan hjá honum en ég vona að þessi bardagi marki upphafið að langri sigurgöngu að beltinu þar sem öll púslin eru að raðast saman.“

„Ég held að þetta verði mjög spennandi bardagi á milli tveggja manna sem eru mjög hæfileikaríkir, vilja komast inn á topp 15 og þaðan að beltinu. Megi betri maðurinn vinna!“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular