Kári Gunnarsson, Evrópumeistari í NoGi og eigandi Odin fightwear fékk svarta beltið í BJJ um síðustu helgi. Kári er fjórði Íslendingurinn til að ná þessum árangri í íþróttinni en við heyrðum í Kára frá Danmörku þar sem hann býr.
Sæll Kári og til hamingju með nýja beltið. Ertu til í að segja okkur aðeins frá þér?
Ég byrjaði að æfa árið 2002 eftir að ég sá heimildarmyndina „Choke“ en þá vissi ég að þetta væri íþróttin fyrir mig og fór út til Kaliforníu í þrjá mánuði að æfa með Chris Brennan. Síðan þá hef ég meira og minna æft í CSA í Danmörku og svo auðvitað í Mjölni þegar ég kem í heimsókn til Íslands. Ég reyni mikið að fara og heimsækja önnur félög og myndi segja að 90% af öllum mínum ferðalögum eru tengd BJJ á einhvern hátt en mér finnst það æðisleg leið til að ferðast um heiminn.
Hvernig er tilfinningin að fá svart belti í BJJ?
Hálfskrítin tilfinning eiginlega, finnst eins og mér ætti að finnast þetta meira mál og vera með meiri tilfinningar en þetta er nánast hálfgerður anti-hápunktur. Maður horfir upp til svartbeltanna þegar maður byrjar og sér þetta eins og hálfgerð ofurmenni sem enginn getur snert. Svo þegar maður sjálfur nær hingað þá finnst mér ég vera svo langt frá því að hafa náð einhverjum toppi að það er hálfskrítið. Því meira sem maður lærir, því meira áttar maður sig á því að maður veit ekkert.
Hvað varðar stefnu mína og markmið þá hefur svarta beltið í sjálfu sér aldrei verið markmið. Mér hefur bara alltaf fundist BJJ svo skemmtilegt og það hefur í raun verið eina hvatningin sem ég hef þurft. Ég sé ekki fyrir mér að fara að opna skóla en ég held ég þurfi að taka mig ennþá meira á með æfingarnar núna ef ég ætla ekki að gera mig að fífli í keppnum.
Venjan í athöfnum þegar iðkendur eru gráðaðir í svart belti er að vera kastað af þjálfurunum og að halda ræðu. Í þinni ræðu talaðiru um að þú værir ekki mikill íþróttamaður. Útskýrðu það aðeins fyrir okkur?
Já þetta var nú svolítið grín, en það er svo sem engin lygi að ég er langt frá því að vera mikill íþróttamaður. Ég er ekki gaurinn sem lærir allt hratt, er ekki með mikinn styrk eða liðleika (þó ég hafi vissulega áunnið mér ákveðin styrk og liðleika í gegnum BJJ æfingar), ég hef alltaf verið undir meðallagi í íþróttum, er hálf perulaga og finnst hollur matur almennt skelfilega vondur og þá matarræðið eftir því. Eina sem ég hef þannig séð með mér er að BJJ er það skemmtilegasta sem ég geri og ég hef aldrei tekið mér langt frí frá æfingum. Það er ekkert leyndarmál hvernig maður verður svart belti, bara að æfa og bæta sig með tímanum. Auðvitað eru sumir sem vinna stóra pottinn í DNA lottóinu og eiga auðveldara með þetta, en það geta allir náð þessu með smá vilja og þrjósku.
Hvað æfiru oft í viku?
Að meðaltali æfi ég líklega 4-5 sinnum í viku, nokkuð jafnt milli gi og nogi. Það væri auðvitað frábært að geta stundað Yoga eða crossfit með, en samhliða fullri vinnu er erfitt að koma öðru fyrir og ég myndi líka frekar vilja þá taka auka BJJ tíma heldur en að mæta í Yoga/Crossfit.
Ég er samt smá Youtube nörd, mikið af mínum guard tæknum hafa komið frá MGInAction.com (er mikill Marcelo fanboy). Undanfarið er ég líka búinn að stúdera guardpössin hjá Mendes bræðrunum en það fara oft nokkrir tímar í viku í slíkt.
Hefuru keppt mikið í BJJ?
Já, ég myndi segja að ég keppi tiltölulega mikið, er búinn að fara á þrjú mót í ár og ég keppi líklega á 5-10 mótum á ári að meðaltali. Ég myndi segja að keppnirnar hafi haft ansi mikið að segja með beltið hjá mér. Ég er búinn að vera að vinna nokkra svartbeltinga á mótum undanfarið og vann Evrópumeistaratitilinn í NoGi fyrir tveimur mánuðum síðan, ætli það hafi ekki verið kveikjan að því að gefa nýtt belti.
Persónulega finnst mér að það sé nánast skylda að keppa í BJJ, þó það sé ekki nema einu sinni. Maður lærir heilmikið á því og það hjálpar manni betur að sjá eigin veikleika. Mér myndi finnast skrítið að verða svartbelti án þess að hafa keppt ef við gerum ráð fyrir því að aldur og líkamlegt ástand leyfi það.
Hvaða ráð myndiru gefa þeim sem eru að byrja í BJJ?
Eins og ég sagði fyrr, þá finnst mér það mikilvægasta að vera stöðugur og smá þrjóskur. Ekki taka sér lengri frí eða vera með afsakanir fyrir að hætta. Fyrstu mánuðirnir geta verið erfiðir en að byrja í BJJ held ég að sé án vafa besta ákvörðun lífs míns.
Myndi líka mæla með því að gleyma ekki að sinna félagslegu hliðinni, held að það hafi mjög mikið að segja með hvort fólk endist í BJJ eða ekki. Endilega hanga aðeins eftir æfingu, taka spjall við fólk og kynnast þeim sem maður æfir með. Upp til hópa finnst mér fólk sem ég hitti í gegnum BJJ vera æðislegt og er bara enn ein ástæðan fyrir því að manni finnst svona gaman að mæta á æfingar.
Hvert er uppáhalds uppgjafartakið þitt?
Mér finnst „rear naked choke“ orðið skemmtilegast en líklega er „toe hold“ úr X-guard það sem ég er að ná oftast þessa dagana. Ég hef ekki séð aðra gera þetta þannig ég mun líklega gera kennslumyndband um það bráðum.
Ertu með skemmtilega sögu sem tengist BJJ og þér?
Ég man eftir því þegar ég fór í fyrsta skipti að æfa hjá Marcelo Garcia, sem er stóra fyrirmyndin mín í íþróttinni, þannig að ég var nokkuð „star struck“ þegar ég fékk tækifæri á að æfa með honum. Nema hvað það virtist allt ætla að fara úrskeiðis þann dag, ég týnist í borginni (New York) og kem 20 mínútum of seint í tímann, gleymdi beltinu mínu þannig ég þarf að fá lánað hvítt belti í afgreiðslunni og tánöglin mín fór eitthvað í rugl og blæðir út um allt. Þannig að ég lít út eins og gaurinn sem mætir viljandi of seint á æfingu til að sleppa við upphitunina, allur blóðugur og „sandbagger“ í þokkabót. Sem betur fer er Marcelo öðlingur og brosti bara fallega til mín áður en hann fór að kæfa mig, er ekki viss um að hann hafi tekið eftir því að ég væri ekki hvítt belti. Það versta var svo eiginlega að ég vonaðist eftir því að þetta væri gleymt og grafið, enda koma fleiri tugir manna og heimsækja hann á hverjum degi, en fjandinn ef hann mundi ekki eftir mér þegar ég kom 6 mánuðum seinna aftur í heimsókn.
Eitthvað að lokum?
Nei ætli það nokkuð, ekki nema kannski að þakka öllum sem hafa æft með mér í gegnum árin. Þetta er kannski einstaklingsíþrótt en maður verður ekki góður nema maður hafi góða æfingarfélaga.
Hér má sjá nokkrar glímur með Kára: