Khabib Nurmagomedov mun loksins snúa aftur þann 11. desember þegar hann mætir Tony Ferguson. Nurmagomedov hefur ekkert barist síðan í apríl 2014 vegna hnémeiðsla.
Bardaginn fer tram á TUF 22 Finale, föstudaginn 11. desember. Khabib Nurmagomedov óskaði eftir því að bardaginn yrði ekki fimm lotu bardagi og því verður viðureign þeirra ekki aðalbardaginn. Nurmagomedov barðist síðast þann 19. apríl þegar hann sigraði núverandi meistara, Rafael dos Anjos, eftir dómaraákvörðun.
Hann átti svo að snúa aftur í maí og berjast við Donald Cerrone en hnémeiðslin tóku sig aftur upp. Að sögn Nurmagomedov byrjaði hann of snemma að æfa eftir meiðslin. Nurmagomedov hefur sigrað alla 22 bardaga sína og bíða margir eftir því að hann fái titilbardaga.
Tony Ferguson hefur sigrað sex bardaga í röð í UFC og litið vel út á síðustu árum. Ferguson sigraði TUF 13 seríuna og er 9-1 í UFC. Hann fær nú stórt tækifæri gegn Nurmagomedov en líklegt er að sigurvegarinn fái titilbardaga eftir viðureign Cerrone og dos Anjos.
Á bardagakvöldinu mætast þeir Joe Lauzon og Evan Dunham og einnig þeir Mike Pierce og Ryan LaFlare.