Sunday, May 19, 2024
HomeBoxKolbeinn kominn með staðfestan titilbardaga!

Kolbeinn kominn með staðfestan titilbardaga!

Gunnar Kolbeinn “Icebear” Kristinsson, oftast þekktur sem “Kolli”, mun berjast upp á Baltic Boxing titilinn í Finnlandi 1. Júní. Það hefur legið í loftinu í dágóðan tíma að Kolli fái titilbardaga, en þónokkur bakslög hafa sett strik í reikninginn. Það stóð til að Kolli myndi berjast í maí en þá braut hann hægri hendina sína sem varð til þess að hann þurfti að sitja hjá. En núna er kominn nýr andstæðingur, dagsetning, staður og belti!

Sterkur andstæðingur og vel brýndur Gunnar Kolbeinn

Okkar eini sanni mun berjast átta lotur gegn finnanum Mika Mielonen sem er eins og stendur með 7 sigra og 1 tap. Hinn 42 ára gamli Mika Mielonen hóf atvinnumannaferilinn með 6 sigrum í röð en mætti svo samlanda sínum, Robert Helenius, í fyrra og þurfti hann að sætta sig við sitt fyrsta og eina tap á ferlinum. Það er engin skömm falin í þessu tapi enda er Robert Helenius gefið 44 sæti á lista yfir bestu þungavigtarmenn í dag. Mika Mielonen kom sterkur til baka í síðasta bardaga og sigraði Arash Khojasteh með einróma dómara ákvörðun í nóvember í fyrra. Arash var ósigraður fyrir viðureignina gegn Mika.

Robert Helenius vs Mika Mielonen (05-08-2023) Full Fight. Hér má sjá næsta andstæðing Kolla.

Kolli barðist síðast í Austurríki gegn Michael Bassett. Kolli fór létt með Bassett og sigraði með TKO sigri í annarri lotu eftir að hafa sýnt mikla yfirburði í bardaganum. Það stóð svo til að Kolbeinn myndi berjast aftur á síðasta ári og núna í mars, en meiðsli og bakslög urðu til þess að Kolbeinn varð að sætta sig við bið á hliðarlínunni á smá stund. Kolbeinn braut á sér hægri höndina í tvígang með stuttu millibili en endurheimtin hefur gengið vel að sögn Kolla, sem hefur nýtt tímann til að brýna og skerpa á öðrum þáttum í sínum leik. 

“Hægri hendin var alltaf besta vopnið mitt, en núna er það líklega þriðja besta vopnið mitt”

– Gunnar Kolbeinn “The Icebear” Kristinsson

Stórt tækifæri og miklir möguleikar í framtíðinni

Kolli segir að stemningin fyrir þennan bardaga sé öðruvísi en áður. Michael Bassett, sem Kolli barðist við síðast, átti í raun aldrei mikinn möguleika í bardaganum. En bardaginn gegn Mika er öðruvísi, þetta er alvöru bardagi þar sem andstæðingurinn gæti fundið leið til að sigra.

“En þessi andstæðingur er alvöru! Hann gæti unnið. Það er annað hugarfar sem fylgir þessum bardaga. Þessi gaur á séns, þó svo að hann eigi ekki séns. Ef að ég klúðra þessu, þá bara tapa ég…en ég er spenntari fyrir þessum bardaga út af því að þetta er alvöru bardagi!”

-Gunnar Kolbeinn “The Icebear” Kristinsson

Kolli segist verið búinn að sjá stuttar upptökur af Mika Mielonen og geri sér grein fyrir því hvar styrkleikarnir og veikleikarnir hans liggja. Mika er mjög þéttur, verst vel og er með hrikalega mikinn kraft í höndunum. En á sama tíma er hann með lágt peis.

“Ég verð bara á mínu peisi og þá ætti ég að geta sýnt honum að að hann eigi ekki heima þarna.”

-Gunnar Kolbeinn “The Icebear” Kristinsson

Ef að Kolli vinnur viðureignina gegn Mika, þá mun hann hoppa upp í 80 sæti yfir bestu þungavigtarmenn í heiminum. Það myndi setja hann ofar á lista en hnefaleikamenn sem hafa verið að berjast á stórum viðburðum hjá DAZN og á bardagakvöldum í Ríad. Þessi bardagi og titillinn gæti skotið Kolla upp í hæstu hæðir og opnað dyrnar fyrir ennþá stærri bardaga á stórum bardagakvöldum. Það er því fyrir víst að þann 1.Júní mun Kolli leggja allt undir gegn Mika Mielonen og skjótast upp á stjörnuhimininn eða láta stærsta tækifæri lífs síns renna sér úr greipum!

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular