Kolbeinn Kristinsson fór með sigur af hólmi í gærkvöldi. Kolbeinn tók bardagann á stigum og er nú 10-0 sem atvinnumaður í hnefaleikum.
Kolbeinn mætti Finnanum Gennadi Mentsikainen í næstsíðasta bardaga kvöldsins á boxkvöldi í Lahti í Finnlandi í gær. Kolbeinn sigraði Mentsikainen eftir einróma dómaraákvörðun en Mentsikainen var greinilega afar harður af sér.
Mentsikainen byrjaði bardagann vel en átti annars bara fín augnablik hér og þar yfir loturnar sex. Þegar hann fann kraftinn í höggunum frá Kolbeini átti Kolbeinn bardagann. Mentsikainen reyndi hvað hann gat en Kolbeinn náði þónokkrum föstum höggum í hann og vildi Mentsikainen greinilega ekki falla niður á heimavelli. Það gerðist þó í 4. lotu þegar Kolbeinn sló hann niður með skrokkhöggi.
Þetta var fyrsti bardagi Kolbeins í rúmt ár en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Mentsikainen er næstbesti þungavigtarboxari Finnlands og sigraði Kolbeinn hann á hans eigin heimavelli. Með sigrinum er Kolbeinn kominn nálægt topp 100 á heimslistanum í þungavigtinni.