Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaKolbeinn vonast eftir að fá minnsta kosti 3 bardaga í ár

Kolbeinn vonast eftir að fá minnsta kosti 3 bardaga í ár

Mynd: Af Facebook síðu Kolbeins.

Kolbeinn Kristinsson berst á föstudaginn í Bandaríkjunum. Kolbeinn er kominn á samning hjá Salita Promotions í Bandaríkjunum og vonast eftir fimm bardögum á þessu ári.

Kolbeinn Kristinsson (11-0 sem atvinnumaður) hefur verið atvinnumaður í boxi í nokkur ár. Hann hefur átt í erfiðleikum með að fá bardaga síðustu ár en hann hefur bara fengið einn bardaga á ári síðustu þrjú ár. Hjólin eru vonandi loksins farin að snúast hjá Kolbeini og gæti þetta verið stórt ár hjá honum.

Kolbeinn barðist síðast í júní þar sem hann sigraði með rothöggi. Kolbeinn hefur æft mikið í Bandaríkjunum eftir síðasta bardaga og þurfti að fara í smávægilega aðgerð.

„Ég byrjaði á að fara í smá aðgerð á hálsinum á mér eftir síðasta bardaga. Ég var með kýli í hálsinum sem var að sýkjast og hafa áhrif á æfingar hjá mér og daglegt líf þannig það var tekið í lok júlí. En svo tóku bara við endalausar æfingar og bætingar. Ég endaði árið svo í Detroit í lok nóvember fram í miðjan desember að æfa með Sugar Hill í Kronk,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn hefur æft hjá Javan ‘Sugar’ Hill í Kronk boxklúbbnum í Detroit undanfarið ár á milli þess sem hann æfir hér heima. Kolbeinn skrifaði undir samning við Salita Promotions á dögunum sem mun auðvelda honum að fá bardaga. „Samningurinn tryggir mér að minnsta kosti þrjá bardaga á ári, en ég gæti alveg séð fram á að berjast kannski fimm sinnum í ár. Miðað við ef ég er duglegur að fara til Detroit að æfa með Sugar Hill.“

Salita Promotions er í eigu Dmitriy Salita en hann var sjálfur atvinnumaður og stofnaði Salita Promotions árið 2010. Salita Promotions er með marga boxara á sínum snærum og þar á meðal er Claressa Shields sem er ein fremsta hnefaleikakona heims í dag.

„Ég komst í samband við Salita í gegnum fyrri umboðsmann til þess að komast í samband við Sugar Hill. Salita sá vinnuna og bætingarnar hjá mér með Sugar Hill og setti sig í samband við mig. Hann vill byggja mig upp og þróa mig betur sem fighter og láta mig berjast eins oft og mögulegt er. Vinna mig upp ranking listann til að landa stórum bardögum og titilbardögum.“

Kolbeinn átti upphaflega að mæta Tristan James (3-3) á föstudaginn en skyndilega var kominn nýr andstæðingur. Kolbeinn mætir nú Dell Long (6-5-2) á föstudaginn.

Bardaginn er einn af upphitunarbardögunum á ShoBox: New Generation kvöldinu á Showtime. Að svo stöddu er ekki vitað hvort bardaginn verði sýndur en boxkvöldið fer fram í smábænum Sloan í Iowa sem er um 1.000 manna bær.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular