Það er mikið um að vera hjá Gunnari Nelson þessa dagana. Gunnar mætir Kevin Holland í kvöld, laugardaginn 22. mars, en eftir það er leiðinni haldið til Wolverhampton þar sem Gunni er í þjálfarahlutverki á Golden Ticket 28. Þrír lærisveinar Gunnars, þeir Anton Smári Hrafnhildarson, Steinar Bergsson og Björgvin Snær, munu allir stíga inn í búrið eftir hrikalega gott æfingatímabil. Keppnislið Mjölnis hefur náð virkilega góðum árangri upp á síðkastið og má þá helst nefna Viktor Gunnarsson sem vann Goliath Fight Series-bantamvigtarbeltið fyrr á árinu á kvöldi þar sem allir Mjölnismenn sóttu sigur.
Við Íslendingar munum senda átta manns til Englands þessa helgi en Bjarki Þór Pálsson og Magnús Ingvarsson munu leiða sitt teymi frá Reykjavík MMA til Doncaster þessa sömu helgi. Mini Garðurinn, heimavöllur bardagaíþrótta, mun sýna bæði bardagakvöldin í beinni útsendingu.
Björgvin Snær mætir Callum Deakin
Akureyringurinn ungi, Björgvin Snær, fær hrikalega reyndan andstæðing þegar hann mætir heimamanninum Callum Deakin (5 – 7). Björgvin Snær er uppalinn Akureyringur þar sem hann æfði karate frá unga aldri undir handleiðslu foreldra sinna. Björgvin fékk áhuga á MMA eftir að hafa fylgst með Gunna berjast í UFC og flutti til Reykjavíkur til að þróa karate-bakgrunninn sinn að blönduðum bardagaíþróttum og er enginn þjálfari betur fallinn í það verkefni en Gunnar Nelson. Á laugardaginn kemur fáum við að sjá þennan unga efnivið sýna hvað í honum býr en hann á stórt verkefni fyrir höndum.
Callum Deakin hefur barist tólf sinnum sem áhugamaður en Björgvin er að berjast í þriðja skiptið. Í viðtali við MMA Fréttir sagðist Björgvin ekki hafa of miklar áhyggjur af þessum reynslumun, hann sé kominn til að sýna hvað hann getur og sé sjálfur að sækja keppnisreynslu. Björgvin er nýkominn heim eftir langa dvöl í Tælandi þar sem hann æfði af miklum krafti og heillaði marga þjálfara með flottu striking. Björgvini standa allar dyr opnar og hefur honum til að mynda verið boðið að berjast hnefaleikabardaga á atvinnumannastigi í Noregi.
Anton Smári Hrafnhildarson mætir Shyrron Burke
Nátturulegi keppnismaðurinn Anton Smári fær hrikalega flottan andstæðing sem kannast við að tapa gegn Íslendingi. Shyrron Burke tapaði síðustu viðureigninni sinni gegn Jhoan Salinas frá Reykjavík MMA sem tókst að ná Shyrron í glæsilegan Kneebar. Anton Smári og Jhoan kepptu hvor gegn öðrum á Íslandsmeistaramótinu í Nogi-uppgjafarglímu í fyrra. Anton Smári þurfti að sætta sig við tap í glímunni þar sem Salinas gerði vel í að sigla heim sigri á stigum. Anton Smári byrjaði að æfa blandaðar bardagaíþróttir af krafti eftir COVID-tímabilið og varð mjög fljótt efnilegur og sýndi náttúrulegan skilning á íþróttinni. Samkvæmt bardagastærðfræði ætti Anton Smári að geta yfirbugað Shyrron Burke í glímunni en Anton hefur lagt mikið kapp á að bæta upp fyrir alla veikleika í glímunni sinni síðan hann barðist síðast.
Fyrir utan að vera mjög efnilegur glímumaður er Anton með þokkalegan kraft í höndunum. Anton hefur keppt á Icebox í tvígang til að sækja sér keppnisreynslu gegn bestu hnefaleikamönnum landsins. Anton barðist síðast MMA-bardaga á Battle Arena og sló þar niður andstæðinginn sinn í fyrstu lotu. Það bar á reynsluleysi í þeim bardaga þar sem Antoni tókst ekki að nýta sér góðar stöður og endaði á að tapa bardaganum á stigum eftir að hafa verið haldið niðri uppi við búrið mestallan tímann. Það er ekkert djók að standa á móti Antoni og ólíklegt að Shyrron takist að finna leið til að slökkva á Antoni eftir tiltektina sem hann hefur gert fyrir bardagann.
Steinar Bergsson mætir Jack Rawlins
Steinar Bergsson (1 – 1) mætir heimamanninum Jack Rawlins (1 – 0) í öðrum bardaga sínum á þessu ári. Steinar beið lengi eftir því að ná átján ára aldri til þess að berjast villt og galið án vandkvæða og er aldeilis að springa út núna! Hann barðist sinn fyrsta bardaga í fyrra á Battle Arena. Hann mætti þá reyndum Norðmanni sem sigraði bardagann á fullorðinsstyrk fremur en tæknilegri getu. Steinar hefur verið mjög virkur á árinu og sótti hann fyrsta sigurinn sinn í MMA á Goliath Fight Series í Skotlandi. Andstæðingurinn hans Steinars bar fyrir sig meiðsli eftir að hafa gefist upp undan ground n’ pound höggum frá Steinari í fyrstu lotu. En allir með tvö augu eða fleiri sáu að Steinar var með mikla yfirburði í bardaganum og lá í loftinu að Steinar myndi sigra bardagann frá fyrstu sekúndu.
Steinar Bergsson er með mikla keppnisreynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann varð Noregsmeistari í hnefaleikum ungur að aldri og hefur verið viðloðandi á öllum mótum á Íslandi. Hann keppti síðast á Bikarmótaröð HNÍ í febrúar og landaði silfrinu þar eftir tvær flottar frammistöður. Þrátt fyrir að hafa tapað fyrsta MMA-bardaganum sínum og fyrsta bardaganum á hnefaleikamótinu hefur hann aldeilis snúið við blaðinu og endaði bikarmótaröðina með flottum sigri eftir hafa sótt MMA-sigur í Skotlandi á milli hnefaleikabardaganna tveggja. Steinar er hávaxinn og með langan faðm sem er mikil áskorun fyrir alla sem mæta honum í búrinu eða hringnum.
