Thursday, April 25, 2024
HomeErlentLeikgreining: Edwards vs. Muhammad

Leikgreining: Edwards vs. Muhammad

Á laugardagskvöld mætast tveir af svörtu riddurum veltivigtarinnar. Þrátt fyrir að vera meðal þeirra bestu í þyngdarflokknum eru þeir báðir tiltölulega óþekktir.

Upphaflega átti Leon Edwards að mæta Khamzat Chimaev en þegar hann datt út kom Belal Muhammad inn. Leon Edwards hefur ekki barist síðan í júlí 2019 en kórónuveiran hefur leikið hann grátt. Hann hefur bæði fengið veiruna og misst stóra bardaga vegna veirunnar.

Muhammad hefur unnið átta af síðustu níu bardögum sínum. Muhammad barðist síðast bara í febrúar en þá sigraði hann Dhiego Lima. Muhammad situr í 13. sæti styrkleikalistans og verður þetta áhugaverður bardagi.

Mynd: Snorri Björns.

Leon Edwards berst mest úr örvhentri fótastöðu en skiptir fótastöðunni reglulega. Honum líður best annað hvort í langri fjarlægð þar sem hann notar bein högg og spörk, eða í „clinchi“. Edwards situr oft aftur og bíður eftir að andstæðingurinn sæki svo hann geti notað gagnárásirnar sínar eða lokað fjarlægðinni og komist í „clinchið“.

Í „clinchinu“ gerir Edwards mikið af sinni bestu vinnu. Hann stjórnar fjarlægðinni með höfðinu, grípur innan á tvíhöfða andstæðingsins til að fá ekki á sig högg og lendir þaðan hnjám. Edwards passar síðan alltaf að brjóta sér leið út úr „clinchinu“ með olnboga (sjá mynd 1). Hann gerði það reglulega gegn Donald Cerrone og Gunnari Nelson og er eitt af hans hættulegustu vopnum.

Mynd 1

a) Edwards notar höfuðið á sér til að halda bili milli mjaðma sinna og Gunnars til að hafa pláss fyrir b)&c) hnéspark sem hann lendir í skrokkinn. d) Edwards heldur taki á tvíhöfða Gunnars til að Gunnar geti ekki lent sínum árásum og býr til pláss til að lenda olnboganum yfir öxlina á Gunnari og e) í höfuð hans.

Edwards hefur góða felluvörn og sækir sjálfur í fellur ef hann sér opnun fyrir því. Hann er mikill tækifærissinni þegar kemur að glímunni og tekur allar stöður sem opnast og notar þær til að stjórna andstæðingnum og lenda höggum á hann.

Embed from Getty Images

Belal Muhammad notar oftast pressu og er mjög aktívur bæði með högg og gabbhreyfingar þannig að andstæðingurinn þarf alltaf að vera að bregðast við því sem Muhammad er að gera. Hann er bestur í miðlungs fjarlægð þar sem hann notar högg eða gabbhreyfingar til að fá viðbrögð og svarar síðan viðbrögðunum.

Muhammad er með góða stungu sem hann blandar vel saman við vinstri krók og beina hægri. Hann sækir einnig vel í skrokkinn, aðallega þegar andstæðingurinn er upp við búrið og setur hendurnar upp. Hann hefur einnig bætt spörkin sín í seinustu bardögum.

Muhammad er líka með góðar fellur. Hann sækir mest í „double leg“ og krækir þá oft aftan í fótinn með sínum fæti (sjá mynd 2). Í gólfinu er Muhammad þolinmóður og vinnur mest að því að bæta stöðu sína og stjórna andstæðingnum.

Mynd 2

a)&b) Muhammad stígur fyrir aftan fót Sato um leið og hann lækkar sig til að c) sækja í fellu á sama tíma og hann krækir í fremri fót Sato. d) Sato reynir að snúa Muhammad af sér en Muhammad nær jafnvæginu með því að bera hendina fyrir sig og e) nær Sato síðan niður með því að grípa í fjær ökklan á Japananum og f) ýta honum með höfðinu og öxlinni á sama tíma og Muhammad dregur ökklan undan honum.

Líklegt útspil bardagans

Muhammad nær líklega að pressa Edwards aftur á bak. Edwards notar löngu vopnin sín í fjarlægð sem að heldur Muhammad frá honum og þegar Muhammad lokar fjarlægðinni er líklegt að Edwards leitist eftir því að komast í „clinchið“. Þaðan stjórnar hann fjarlægðinni og lendir hnjám. Ef Edwards sér færi á því er einnig líklegt að hann sæki í fellu til að minna á að hann er sjálfur góður glímumaður. Ef bardaginn helst í „clinchinu“ mun Edwards lenda hnjám þar til hann finnur pláss til að brjóta það með olnboga.

Muhammad mun líklega halda áfram að pressa þótt hann lendi í vandræðum með „clinchið“. Hann mun nota gabbhreyfingar til að reyna að tímasetja gagnárásir Edwards og svara þeim með eigin gagnárásum. Muhammad mun líklega nota skrokkhögg til að reyna að slá vindinn úr Edwards, og jafnvel lágspörk en hann lenti sjálfur í vandræðum með slík spörk í sínum seinasta bardaga og veit hversu fljótt þau hafa áhrif á hreyfigetu andstæðinga. Hann mun síðan blanda inn fellum þegar honum finnst Edwards vera farinn að skuldbinda sig við standandi höggin.

Þegar líður á bardagann er líklegt að Muhammad fari að ganga betur. Hann er alltaf í frábæru formi og notar það til að berjast á hraða sem andstæðingurinn nær ekki að halda í við. Skrokkhöggin sem hann notar eru einnig frábær leið til að þreyta andstæðinga. Edwards hefur orðið þreyttur í síðustu bardögum þegar líður á og andstæðingar hans náð sínum bestu lotum gegn honum í síðustu lotunum. Þó ber að hafa í huga að Muhammad hefur aldrei áður barist allar fimm loturnar og Edwards er einnig duglegur að refsa skrokkinum með hnjám.

Þessi bardagi er líklegur til að fara í dómaraákvörðun en í honum mætast andstæðingar sem eru afburðar góðir í sínum stíl en með afar ólíka stíla. Því verður áhugavert að sjá hvernig stílarnir hafa áhrif á hvorn annan og hvort útspil bardagans breytist þegar líður á.

Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular