spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining: Er Jack Hermansson nýr glímukóngur í millivigtinni?

Leikgreining: Er Jack Hermansson nýr glímukóngur í millivigtinni?

Jack Hermansson er í aðalbardaga kvöldsins um helgina. Hermansson er einn af þeim bestu í millivigtinni þessa dagana og gæti verið nýr glímukóngur í flokknum.

Það hefur reynst erfitt að halda andstæðing fyrir Jack Hermansson en bæði Darren Till og Kevin Holland hafa þurft að draga sig úr bardaganum. Hermansson fékk Marvin Vettori að lokum og verður þetta því evrópskur aðalbardagi.

Jack Hermansson er nóg tilefni til að horfa á bardaga enda sækist hann eftir því að klára bardaga og sýnir flotta takta á meðan bardaganum stendur. Hann er með heldur óvenjuleg vopn sem hefur skilað honum sigrum í gólfinu gegn andstæðingum sem áttu að vera sterkari glímumenn.

Hermansson er glímumaður en hefur góð vopn standandi sem hjálpa honum að setja upp felluna. Í mikilli fjarlægð notar Hermansson góð spörk, aðallega framspark og lágspark, og hoppar um búrið. Hann notar stunguna sína vel í bland við sýndarhögg (e. feint) til að finna fjarlægð og þegar hann hefur fundið hana byrjar hann að setja saman samsetningar af höggum. Þegar andstæðingurinn stöðvar til að fleygja höggum á móti kemur Hermansson sér inn í „clinch“ og ef hann nær ekki fellunni þaðan notar hann hné eða högg og kemur sér út.

Úr „clinchinu“ reynir Hermansson aðallega fellur þar sem hann stjórnar efri líkamanum. Ef hann nær báðum höndunum í „underhook“ stöðu klemmir hann hendurnar saman bakvið andstæðinginn og reynir að brjóta líkamsstöðu andstæðingsins. Þaðan labbar hann andstæðinginn niður og dregur mjaðmir andstæðingsins undir sig og klárar felluna með því að stíga yfir andstæðinginn eða krækja fótum sínum í fætur andstæðingsins ef hann nær ekki mjöðmum andstæðingsins alveg undir sig.

Ef Hermansson nær ekki báðum höndum í „underhook“ stöðu reynir Hermansson oft að nota fellu sem er kölluð „lateral drop“, þar sem hann lætur sig detta afturábak á hliðina til að kasta andstæðingnum yfir sig (sjá mynd 1). Hermansson reynir oft erfið köst og nær yfirleitt að nota kastið eða kasttilraunina til að koma bardaganum í gólfið. Ef hann nær ekki fellunni brýtur hann sér oft leið út með hné í þindina.

Mynd 1.

Mynd 1. a) Hermansson er með einn „overhook” og einn „underhook”. b) & c) Hann snýr sér í átt að „overhookinum” þar til Branch er kominn úr jafnvægi og þá d) & e) setur Hermansson fótinn fyrir Branch til að klára kastið.

Ef Hermansson kemst ofan á í gólfinu er hann mjög góður í að komast framhjá fótum andstæðingsins. Hann lendir mikið af höggum í gólfinu og notar það til að bæta stöðuna sína eða stöðva bardagann.

Þegar andstæðingurinn reynir síðan að sækja í fætur Hermansson eða hann lendir fyrir framan andstæðing sem er á fjórum fótum sækir Hermansson í hálsinn á þeim en með heldur óvenjulegri hengingu sem er ekki öll sem sýnist (sjá mynd 2). Hermansson setur hnéð sitt undir olnboga andstæðingsins til að passa að andstæðingurinn geti ekki dregið olnbogann sinn til baka. Þá grípur Hermansson höndum saman en í stað þess að staðsetja grip sitt við háls andstæðingsins dregur Hermansson gripið sitt alveg að handakrika andstæðingsins. Þá setur hann fótinn yfir bak andstæðingsins og dregur olnbogann upp.

Mynd 2.

Mynd 2. a) Hermansson hefur hnéð aftan við olnboga Branch til að hann geti ekki dregið olnbogann að sér. b) Hann grípur höndum saman og c) dregur gripið í handakrikann á Branch. Þegar Branch reynir að rétta úr sér til að verjast d) leggst Hermansson aftur og e) dregur olnbogann upp til að klára henginguna. Þrátt fyrir að líta út eins og „guillotine” henging er hún í raun líkari „anaconda” hengingunni þar sem öxl andstæðingsins er notuð til að hengja hann

Í síðasta bardaga sáum við hversu öflugur Hermansson getur verið af botninum þegar hann kláraði Kelvin Gastelum með fótalás. Þar notaði hann hálft „butterfly guard“ og þegar hann kom mjöðmum Gastelum yfir sig setti hann neðri löppina yfir mjöðm Gastelum og sótti þaðan „heel hook“ (sjá mynd 3).

Mynd 3.

Mynd 3. a) Hermansson er með einn „butterfly” krók og grípur undir hné Gastelum. b) Hann byrjar að velta sér á vinstri hliðina sem gerir það að verkum að Gastelum þarf að rétta úr sér til að halda sér ofaná. c) Þá setur Hermansson hægri fótinn sinn yfir mjöðm Gastelum. d) Gastelum reynir að snúa sér frá og sparka fætinum út en Hermansson nær að halda fætinum hans og e) Gastelum missir fótinn aftur inn. f) Hann reynir aftur að snúa sér en nú er Hermansson búinn að klemma fótinn á honum með hnjánum á sér og nær því að halda fætinum á Gastelum með „heel hook” gripi. g) Hann sest upp til að beygja hnéð á Gastelum svo hann missi ekki hnéð frá sér. h) Þá grípur hann höndunum saman, leggst á hliðina og „bridge’ar” inn í hann og klárar þannig „heel hookinn”.

Líklegt útspil bardagans

Marvin Vettori er verðugur andstæðingur og líklega kemur hann inn í formi. Hann hefur bætt sig mikið standandi síðan hann barðist við Israel Adesanya en þá hafði hann einungis spörk og beina vinstri. Hann hefur bætt hægri hönd í vopnabúrið auk þess að vera farinn að nota samsetningar af höggum í staðinn fyrir að nota einungis stök högg. Vettori sækir þó einnig í fellur og kláraði seinasta bardaga sinn í gólfinu með hengingu.

Standandi er spurningin hvort Vettori noti spörkin til að hægja á Hermansson. Cannonier gerði það með mjög góðum árangri og náði að lenda þungum höggum eftir að hafa hægt á Hermansson. Hermansson hafði lítin áhuga á að skiptast á höggum við Cannonier sem gerði það að verkum að hann varð örvæntingafullur í leit að fellum og skallaði upphögg frá Cannonier þegar hann skaut inn.

Það er þó ólíklegt að þetta gerist á laugardaginn af tveimur ástæðum. Annars vegar er Vettori örvhentur sem þýðir að lágspörkin lenda framan á Hermansson og eru því sýnilegri. Það gefur Hermansson lengri tíma til að verjast auk þess sem hann þarf ekki að snúa hnénu út og því tekur styttri tíma að setja upp vörnina. Hins vegar hefur Vettori ekki sama höggþunga og Cannonier. Því er líklegt að Hermansson taki yfir bardagann standandi eftir því sem líður á en Vettori verði með hættulegar fléttur – sérstaklega í byrjun.

Í „clinchinu“ er líklegt að Hermansson reyni að ná Vettori niður með stjórn á efri líkamanum en að Vettori reyni annað hvort að komast úr „clinchinu“ eða lækka sig og sækja í lappirnar á Hermansson. Ef hann gerir það opnar hann hálsinn á sér fyrir hengingu en líklega reynir Vettori frekar að halda bardaganum standandi og notar „clinchið“ til að hvíla sig og brýtur sér síðan leið úr því með olnboga eða hné. Ef Hermansson gengur ekki að ná fellunni er hann einnig líklegur til að reyna að brjóta „clinchið“ með hné í þindina, enda vill hann ekki gefa andstæðingnum hvíld.

Ef bardaginn fer í gólfið er líklegt að Hermansson ráði lögum og lofum. Ef hann nær Vettori niður kemst hann líklega fljótt framhjá löppunum og notar högg til að fá Vettori til að reyna að koma sér á fætur. Þaðan ætti að myndast opnun fyrir henginguna sem Hermansson er orðinn svo frægur fyrir. Ef Hermansson lendir á botninum er hann líklegur til að reyna að hreyfa Vettori til og búa til opnun til að komast í fæturna á Vettori. Sterkasta vopn Vettori í gólfinu í þessum bardaga er líklega að fara að vera að halda Hermansson í lokuðu „guardi“ og reyna að lenda léttum höggum.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular