spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining: Sandhagen vs. Edgar

Leikgreining: Sandhagen vs. Edgar

Image result for sandhagen vs edgar

Á laugardaginn fer fram bardagakvöld hjá UFC. Í næstseinasta bardaga kvöldsins berjast þeir Cory Sandhagen og Frankie Edgar. Sigurvegarinn er líklegur til að berjast næst um titilinn eftir bardaga Petr Yan og Aljamain Sterling.

Cory Sandhagen

Sandhagen er langur og heldur fjarlægð vel. Til þess notar hann „hand fighting” þar sem hann leggur hendur sínar á hendur andstæðingsins, góða stungu, lágspörk og góðar gabbhreyfinger (e. faint). Hann „faintar” vel til að fá viðbrögð andstæðingsins og þegar hann er kominn með tímasetningu andstæðingsins, notar hann stuttar fléttur þar sem hann blandar saman höggum í höfuð og skrokk, og lágspörkum (sjá mynd 1).

Mynd 1

a) Sandhagen opnar með stungu, b) lækkar sig síðan fyrir c) vinstri skrokkhögg og lokar fléttunni með d) lágsparki. Gullfalleg flétta sem José Aldo notaði einnig mikið á sínum tíma.

Sandhagen skiptir mikið um fótastöðu og ef að andstæðingurinn kemur of hratt inn til að Sandhagen geti haldið honum af sér með stungunni, stígur Sandhagen til baka og heldur áfram stungu árásinni með hinni höndinni (sjá mynd 2). Þetta gefur honum þann kost að geta myndað mismunandi vinkla sem kemur sér sérstaklega vel gegn andstæðingum sem sækja í beinni línu.

Mynd 2

a) Sandhagen notar stungu til að halda fjarlægð og kanna viðbrögð Lineker. Þegar b) Lineker svarar með krók blokkar Sandhagen höggið og c) stígur til baka út á vinkil þaðan sem hann d) svarar með stungu. e) Lineker reynir aftur að sækja með krók en aftur stígur Sandhagen til baka og f) heldur Lineker af sér með stungu.

Sandhagen sækir lítið í fellur sjálfur en ef að andstæðingurinn reynir fellu á Sandhagen notar hann langar hendurnar til að sækja í Kimura grip sem hann notar til að snúa stöðunni við í gólfinu (sjá mynd 3). Sandhagen fórnar oft stöðu og gefur á sér bakið standandi í stað þess að berjast fyrir „underhook” og sækir þaðan í Kimura gripið. Af bakinu er hann mjög virkur að sækja í lása og á það til að fórna stöðu til að sækja lás eða koma sér upp.

Mynd 3

a) Í stað þess að ramma á andlit Assunção og búa til pláss fyrir „underhook“ b) teygir Sandhagen sig yfir bakið á Assunção og c) grípur Kimura grip. d) Þá sest Sandhagen aftur með gripið og krækir öðrum fætinum í mjöðm Assunção og e) fleygir honum yfir sig.

Frankie Edgar

Frankie Edgar er mjög hreyfanlegur til hliðar og notar mikið „shuffle step” til að passa að hann verði ekki of lengi fyrir framan andstæðinginn (sjá mynd 4). Þegar hann sækir eða verst fer hann þó aðallega í beinar línur og getur því lent í vandræðum með andstæðinga sem eru góðir í að mynda vinkla. Auk þess á hann það til að halla sér mikið með höfuðið fram yfir miðpunktinn sem opnar hann fyrir upphöggum.

Mynd 4

a)&b) Edgar stekkur til baka með fremri fótinn og út til hliðar með aftari og c) kemur sér síðan aftur í stöðu. Þetta notar hann til að halda sér á hreyfingu til hliðar.

Edgar sækir mikið í fléttum, oftast fjögur högg sem eru lítil. Hann er farinn að blanda meira saman skrokkhöggum í flétturnar og enda þær á spörkum. Edgar er einnig farinn að nota flétturnar sjaldnar og reynir þá að tímasetja þær vel. Þess á milli er hann farinn að nota stunguna betur, tvöfaldar hana stundum og notar „nakin” spörk.

Sterkasta vopn Edgar er þó tvímælalaust geta hans til að blanda fellum saman við standandi bardaga. Hann er mjög góður í að fá menn til að halda að þeir séu að skiptast á höggum og þá lækkar Edgar sig aðeins og sækir í felluna.

Annar hlutur sem Edgar gerir mjög vel er að láta fellurnar líta út eins og högg (sjá mynd 5). Til að setja upp fellurnar lækkar hann sig reglulega til þess að nota skrokkhögg og því veit andstæðingurinn ekki hvort Edgar sé að sækja fellu eða skrokkhögg þegar hann lækkar sig. Fellurnar hans Edgar eru oftast frekar litlar og krefjast lítillar orku. Jafnframt virðist Edgar oftast sama hvort hann klári fellurnar, ef ekki þá notar hann opnunina til að lenda höggi.

Mynd 5

a)&b) Edgar lækkar sig eins og hann sé að fara að kýla með stungu í skrokkinn en lætur hendina ofar á öxlina. Með hinni hendinni grípur Edgar hnéð á Holloway og „knee pickar” hann. Holloway snýr sér undan til að verjast þannig að hendin á Edgar rennur upp hálsinn á Holloway. c) Edgar breytir þá fellunni í „single leg” og d) keyrir Holloway upp við búrið.

Edgar er með svart belti í brasilísku jiu jitsu en er jafn líklegur til í að sitja í lokuðu „guard-i” hjá andstæðingnum og refsa honum með litlum olnbogum, eins og að komast fram hjá fótunum og bæta stöðu sína.

Líklegt útspil bardagans

Sandhagen er líklegur til að taka stjórn á miðju búrinu snemma með Edgar að hringsóla fyrir utan. Edgar hefur átt erfitt með andstæðinga sem hafa góða stungu og lágspörkin hafa einnig strítt honum – sérstaklega kálfaspörkin. Þar sem Edgar sækir í beinum línum og Sandhagen er góður að mynda vinkla gæti þetta litið út eins og nautaat. Edgar hefur þó bætt sig undanfarið standandi og virðist ekki lengur bara hlaupa inn heldur er hann farinn að hugsa fyrir árásirnar betur. Þá hafa andstæðingar náð að yfirþyrma Sandhagen snemma með því að sækja hratt og með mikilli pressu strax.

Stóra spurningin í bardaganum snýr þó að glímunni og fellunum. Nær Edgar að taka Sandhagen niður? Nær hann að halda Sandhagen niðri? Ef Sandhagen nær að gera Edgar lífið leitt með Kimura eða árásum af bakinu í hvert skipti sem hann er tekinn niður, eða koma í veg fyrir að Edgar nær fellunni, þá er líklegt að hann nái að brjóta Edgar niður. Ef Edgar nær aftur á móti að blanda saman fléttunum sínum með fellum og yfirþyrmir Sandhagen með pressu, þá gætum við séð Edgar ná einum titilbardaga í viðbót áður en ferlinum líkur.

Sama hvernig fer eigum við fyrir höndum mjög góðan bardaga þar sem báðir menn berjast á miklum hraða og hafa þol til að halda því áfram þar til bardaganum líkur. Það er því hin mesta synd að þetta sé aðeins þriggja lotu bardagi.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular