Dramatíkin í kringum bardaga Khamzat Chimaev og Leon Edwards heldur áfram en í kvöld bárust fréttir þess efnis að Edwards hafi greinst með kórónuveiruna.
Allt útlit er fyrir að bardaganum sem beðið var eftir með mikilli eftirvæntingu milli þeirra Khamzat Chimaev og Leon Edwards fari ekki fram þann 19. desember eins og til stóð.
Fyrr í kvöld birti Ariel Helwani, fréttamaður ESPN, færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann greinir frá því að Leon Edwards hafi smitast af kórónaveirunni. Í kjölfarið hafi UFC tekið þá ákvörðun að blása bardagann af. Bardaginn átti að fara fram í veltivigt og átti sömuleiðis að vera aðalbardagi kvöldsins þann 19. desember eins og áður segir.
Fyrr í vikunni var orðrómur kominn á kreik um að Khamzat Chimaev hefði greinst með kórónaveiruna. Þær sögusagnir fengust þó aldrei staðfestar og álitu liðsfélagar Chimaev orðróminn falsfréttir.
Samkvæmt ESPN hefur UFC hyggju á að endurbóka bardagann milli Chimaev og Edwards snemma árs 2021. UFC íhugar nú að setja þá Geoff Neal og Stephen Thompson í aðalbardaga kvöldsins en þeir áttu upprunalega að mætast í næstsíðasta bardaga kvöldsins.
Brett Okamoto sem einnig starfar sem fréttamaður hjá ESPN birti síðan færslu á Twitter-síðu sinni í kvöld þar sem hann segir frá því að einkennin sem Edwards hlaut hafi verið mjög alvarleg. Edwards léttist um fimm og hálft kíló á fjórum dögum og hafi lítið sem ekkert geta æft.
Árið 2020 heldur áfram að leika Leon Edwards grátt.