Því miður hafa meiðsli sett strik í reikninginn á annars frábærum nóvember mánuði. Luke Rockhold er meiddur og getur ekki barist við Ronaldo ‘Jacare’ Souza síðar í mánuðinum.
Bardaginn átti að vera aðalbardaginn á UFC bardagakvöldinu í Ástralíu þann 26. nóvember. Bardaginn hefði verið endurat frá viðureign þeirra í Strikeforce árið 2011 þar sem Rockhold sigraði eftir fimm jafnar lotur.
Jacare mun ekki fá nýjan andstæðing á bardagakvöldinu en umboðsmaður hans sagði Jacare ekki vilja fá annan andstæðing nema það sé meistarinn Michael Bisping. Það verður að teljast ólíklegt að hann fái ósk sína uppfyllta enda eru þeir Chris Weidman og Yoel Romero sennilega á undan honum í röðinni. Þeir Weidman og Romero mætast einmitt á UFC 205.
UFC hefur ekki staðfest þetta en Ariel Helwani kveðst hafa heimildir fyrir þessu frá nokkrum aðilum.
Þetta eru mikil vonbrigði en bardaginn var einn sá besti í mánuðinum. Það má því nokkurn veginn gera ráð fyrir því að sigurvegarinn úr viðureign Romero og Weidman fái næsta titilbardaga í millivigtinni.