spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMagnús Loki: Stærsta hindrun sem ég hef farið yfir

Magnús Loki: Stærsta hindrun sem ég hef farið yfir

Magnús ‘Loki’ Ingvarsson sigraði Bretann Gavin McGee með „triangle“ hengingu í 1. lotu um síðustu helgi. Bardaginn fór fram á CSFC bardagakvöldinu í Doncaster en þetta var fyrsti atvinnubardagi Magnúsar.

Eftir 11 áhugamannabardaga tók Magnús skrefið í atvinnumennsku. Síðasti bardagi hans fór ekki eins og best verður kosið en þar var Magnús rotaður í 1. lotu. Í þetta sinn gekk allt eins og í sögu. Það var þó mjög erfitt að fara aftur í búrið núna eftir síðustu upplifun hans í búrinu.

„Mér leið bara fáranlega vel í bardaganum. Ég var búinn að hita ógeðslega vel upp, pössuðum upp á það eftir síðasta bardaga og fannst ég vera ógeðslega sharp í upphitun,“ segir Magnús um líðan sína í bardaganum.

„Ég var samt helvíti stressaður í aðdragandanum, að fara inn í búrið eftir síðasta bardaga, þetta var örugglega stærsta hindrun sem ég hef farið yfir. Þegar ég fór inn í búrið í byrjun kvölds til að prufa búrið, áður en keppnin byrjaði, þá fékk ég þvílíka stress tilfinningu og hugsaði með mér af hverju í fjandanum ég væri að gera þetta aftur. En síðan um leið og ég byrjaði að hita upp þá komst ég í gírinn og fann bara hárrétt spennustig og leið bara ógeðslega vel.“

Eftir að hafa verið rotaður í fyrsta sinn var stressið talsvert meira fyrir bardagann heldur en áður. „Ég var ekkert rosalega stressaður fyrr en á keppnisdeginum sjálfum. Var ekkert stressaður í vigtun eða neitt, var bara spenntur fyrir að fá mér að éta en svo á keppnisdeginum þá fór þetta að koma. Ég var stressaðri en vanalega en það tengdist því bara hvernig síðasti bardagi fór en það gerði mig bara ennþá skarpari. Held ég hafi aldrei verið eins sharp bara alveg í byrjun. Mér leið í raun ógeðslega vel um leið og bardaginn byrjaði og var tilbúinn frá fyrstu sekúndu.“

Eins og áður segir kláraði Magnús bardagann með „triangle“ hengingu í 1. lotu. McGee varðist þó uppgjafartakinu nokkuð vel og tók það Magnús um það bil mínútu að klára henginguna þegar hann var búinn að læsa hengingunni.

„Það eru mjög margir búnir að spurja mig hvort ég hafi ekki verið orðinn þreyttur í löppunum en ég er búinn að vera að æfa helvíti mikið að halda mönnum í triangle. Ég átti spjall við Gunna [Nelson] fyrir tveimur mánuðum síðan þar sem við vorum að fara yfir punkta ef maður er ekki að ná að herða nógu vel. Ég var ekkert að kreista framan af og var bara slakur í löppunum. Þannig að ég varð ekkert þreyttur í löppunum allan tímann og kreysti ekkert fyrr en í lokin þegar ég klára submissionið.“

„Ég fann að hann var byrjaður að ofanda og var stífur en mér leið ógeðslega vel í þessari stöðu. Skipti þarna yfir í armbar og þá fann ég að hann stífnaði ógeðslega mikið upp og sprengdi sig upp aftur og þá tók ég hann bara aftur í triangle. Mér fannst ég alveg vera með þetta frá fyrstu sekúndu þannig að ég var ekkert að fara að sleppa þessu.“

„Þetta var líka í fyrsta sinn sem ég fór inn með eitthvað sérstakt gameplan og það gekk 100% upp. Planið var að sparka vel í hann og fá hann til að reyna að taka mig niður og ganga frá honum þar. Ég drillaði þetta triangle setup mörgum sinnum í upphituninni.“

Eftir sinn fyrsta sigur sem atvinnumaður og sinn 12. bardaga í MMA hefur Magnús fundið sitt spennustig. Spennustig bardagamanna fyrir keppni er ólíkt eftir einstaklingum. Sumir, eins og Gunnar Nelson, er eins rólegur og hægt er að vera á meðan aðrir vilja keyra sig upp fyrir bardagann.

„Ég lærði mitt spennustig þarna. Ég er ekki þessi rólegi gæji. Ég þarf að vera svolítið aggressívur bæði í upphitun og á leiðinni í búrið. Þarna fann ég mitt spennustig og það er ekki rólegi gaurinn. Það sem hefur stundum klikkað hjá okkur er að það eru auðvitað allir að fylgja Gunna Nelson. Hann var að gera eitthvað rétt með því að vera svona rólegur en þetta er bara spennustigið hans, hann er góður í þessu.“

„Maður hefur prufað að vera rólegur en núna var ég alveg gíraður á því og byrjaði bara í 3. gír. Þá var ég bara on point strax. Þessi bardagi sýndi mér líka að ég á greinilega heima á atvinnumannasviðinu. Þetta er bara byrjunin, ég hlakka bara ógeðslega mikið til að fara aftur inn og gera þetta aftur.“

Magnús kemur nokkuð heill úr bardaganum en er smá bólginn á sköflunginum eftir spark frá McGee og með smá glóðarauga. Annars er hann heill en ætlar þó að taka sér stutta pásu áður en hann fer aftur af stað í næstu viku.

„Eftir þetta viku frí set ég stefnuna á að taka næsta bardagakvöld hjá þeim [CSFC] sem er 16. júlí. Allar dyr eru þó opnar og sjáum bara hvað býðst.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular