UFC 179 fór fram í Rio í Brasilíu þar sem þeir Jose Aldo og Chad Mendes mættust í mögnuðum titilbardaga. Bardagakvöldið í heild sinni var ekkert sérstakt en lokabardaginn bjargaði kvöldinu.
Jose Aldo sigraði Chad Mendes eftir dómaraákvörðun í sennilega besta bardaga í sögu fjaðurvigtarinnar. Jose Aldo hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki eins skemmtilegur og í WEC og fyrir að klára ekki bardaga sína. Þrátt fyrir að hafa ekki klárað Mendes verður seint tekið af Aldo að hann hafi ekki reynt að klára bardagann. Frammistaða hans á laugardagskvöldið minnti um margt á WEC-Aldo, frábær skemmtun.
Nokkur umdeild atriði litu dagsins ljós í bardaganum. Það umdeildasta er sennilega þegar Aldo kýldi Mendes tvisvar eftir að bjallan glumdi sem gaf til kynna að lotan væri búin. Aldo til varnar var hann í miðri fléttu og gríðarlegur hávaði var í höllinni og líklegt er að hann hafi einfaldlega ekki heyrt í bjöllunni. Dómarinn Marc Goddard hefði hugsanlega átt að stíga betur inn á milli þeirra en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Mendes var þó ekki alsaklaus sjálfur þar sem hann potaði tvisvar fingri í auga Aldo og sparkaði í klof hans í allavegna eitt skipti.
Þetta var frábær frammistaða hjá Mendes en Aldo hefur aldrei verið eins marinn í andlitinu eftir bardaga. Þetta var líklegast erfiðasti bardagi Aldo á ferlinum og á Mendes mikið hrós skilið. Tvö töp gegn Aldo setja Mendes í erfiða stöðu og er hann nú á svipuðum stað og liðsfélagar hans Urijah Faber og Joseph Benavidez. Liðsfélagarnir þrír eru allir meðal fremstu manna í sínum þyngdarflokki en eiga langt í land með að fá annan titilbardaga (Benavidez hefur tvisvar tapað gegn núverandi meistara í fluguvigtinni og liðsfélagi Faber er meistari í bantamvigt). Mendes hefur bætt sig gríðarlega mikið á síðustu tveimur árum, en það reyndist ekki nóg til að sigra meistarann.
Sigurinn fyrir Aldo gerir mikið fyrir arfleifð hans. Bardaginn var frábær skemmtun og eiga bardagaaðdáendur eftir að muna eftir þessum bardaga um ókomna tíð. Hann gæti þó næst mæst Conor McGregor og gæti Conor gert svipað fyrir Aldo eins og Chael Sonnen gerði fyrir Anderson Silva. Anderson Silva var aldrei vinsælasti meistarinn og seldi yfirleitt ekki meira en 500.000 PPV fram að bardaganum gegn Chael Sonnen. Sonnen færði mikla athygli á bardagann og varð Anderson Silva mun meiri stjarna eftir sigurinn á Sonnen. Jose Aldo hefur aldrei verið vinsæl söluvara og yfirleitt selt undir 500.000 PPV. Það gæti breyst með Conor McGregor. Eini munurinn er kannski sá að fleiri telja að Conor McGregor eigi í alvörunni möguleika gegn Aldo ólíkt því sem fólk hélt um Sonnen-Silva.
Ljúkum þessum Mánudagshugleiðingum með glæsilegu uppgjafartaki Gilbert Burns. Burns sigraði Christos Giagos eftir þennan glæsilega “armbar” í fyrstu lotu í einum af upphitunarbardögum UFC 179. Burns er mjög spennandi léttvigtarmaður en hann er heimsmeistari í BJJ og er nú 9-0 í MMA.