spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 208

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 208

Mynd: Ed Mulholland-USA TODAY Sports

UFC 208 fór fram á laugardaginn og var þetta ekki besta bardagakvöld allra tíma. Germaine de Randamie er fyrsti fjaðurvigtarmeistari kvenna í UFC eftir sigur gegn Holly Holm en bardaginn var umdeildur.

Hin hollenska de Randamie vann eftir dómaraákvörðun, 48-47 eftir fimm lotu bardaga. Bardaginn var jafn en ekkert sérstaklega skemmtilegur og er því ekki mikil eftirspurn eftir endurati. Sumum fannst Holm eiga skilið að vinna og hugsanlega hefði bardaginn átt að fara jafntefli.

Germaine de Randamie kýldi Holm eftir að bjallan glumdi í lok 2. lotu og vankaði hana klárlega. Hún gerði svo það sama í 3. lotu og fékk þá viðvörun. Að margra mati hefði de Randamie átt að fá eitt refsistig fyrir seinna atvikið og þá hefði bardaginn endað 47-47.

Bloody Elbow gerði góða úttekt á þessu í dag og skoðaði reglurnar. Það er klárlega bannað að kýla einhvern eftir að lotan klárast og á að vera refsivert. Hins vegar stendur að lotan er ekki búin fyrr en bjallan glymur og dómarinn stígur á milli keppenda. Bjallan gefur dómaranum merki um að lotan sé búin en dómarinn á sjálfur að stoppa bardagann.

Í reglunum stendur orðrétt: „The end of a round is signified by the sound of the bell and the call of time by the referee. Once the referee has made the call of time, any offensive actions initiated by the fighter shall be considered after the bell and illegal.“

Á hljóðupptöku má heyra ógreinilega að dómarinn segir við de Randamie eftir 2. lotu að þetta hafi ekki verið brot þar sem hann hafði ekki stigið inn á milli þegar de Randamie kýldi og hafði þar af leiðandi ekki stöðvað lotuna.

Þegar de Randamie gerir þetta svo aftur í 3. lotu gefur hann henni viðvörun. Það hefði verið skrítið að taka af henni stig þá fyrst hann gaf henni enga viðvörun eftir fyrra atvikið. Í fyrra atvikinu mátti heyra dómarann segja að höggið hafi verið löglegt en um það má deila.

Reglurnar eru kannski óþarflega loðnar og kannski ætti lotan alltaf að klárast þegar bjallan hringir. En mikill hávaði var í höllinni á laugardaginn og getur verið erfitt að heyra í bjöllunni á slíkum stundum.

Holly Holm hefur nú tapað þremur bardögum í röð og er 3-3 í UFC. Holly Holm hefur bara átt eina frábæra frammistöðu í UFC en annars ekki staðið undir væntingum. Bardaginn gegn Rondu er frávillingurinn, ekki reglan, þegar kemur að frammistöðu Holm í UFC.

Hún hefur átt afar erfitt með að lesa fjarlægðina í síðustu tveimur bardögum og kýlir mikið í loftið. Aðeins 16 sinnum hitti hún í höfuð de Randamie á meðan sú hollenska hitti 87 sinnum. Holm þarf núna að taka nokkur skref til baka og næla sér í nokkra sigra.

Anderson Silva vann Derek Brunson eftir umdeilda dómaraákvörðun. Silva vann að mati allra dómaranna og gaf einn dómarinn honum allar loturnar sem kom verulega á óvart. Bardaginn var þó ekkert sérstaklega skemmtilegur og þurfum við ekkert að eyða alltof mörgum orðum um bardagann. Það var þó gaman að sjá hinn 41 árs gamla Anderson Silva vinna sinn fyrsta bardaga síðan 2012. Nú vonum við bara að hann standist öll lyfjapróf svo sigurinn haldist óbreyttur.

Ronaldo ‘Jacare’ Souza olli engum vonbrigðum og kláraði Tim Boetsch í fyrstu lotu. Jacare var sá eini sem kláraði bardaga á bardagakvöldinu og heldur sér í umræðunni með flottum sigri. Hann hefur ekki mikinn áhuga á að bíða eftir titilbardaga en þeir Yoel Romero og Michael Bisping mætast líklegast í maí. Jacare mun sennilega mæta sigurvegaranum en gæti tekið einn bardaga inn á milli.

Fyrir utan Jacare og bardaga Jim Miller og Dustin Poirier var þetta ekki gott bardagakvöld. Það voru fá stór nöfn á bardagakvöldinu og skemmtunin ekki mikil. Stundum verða þessi minni Pay Per View bardagakvöld eins og UFC 206 frábær skemmtun þrátt fyrir skort á stórum nöfnum en það var ekki raunin um helgina.

Næsta UFC fer fram á laugardaginn þegar Derrick Lewis mætir Travis Browne í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular